Valdaskipti í borgarstjórn Reykjavíkur
Valdaskipti urðu í borgarstjórn Reykjavíkur á fyrsta fundi borgarstjórnarinnar í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Þá tók nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við völdum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, var kjörinn borgarstjóri í Reykjavík til næstu fjögurra ára og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi, var kjörin forseti borgarstjórnar. Er þetta í fyrsta skipti sem tveir flokkar starfa saman í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Vilhjálmur Þ. hefur verið borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá 1982 og leitt borgarstjórnarflokk hans frá árinu 2003. Hanna Birna hefur setið í borgarstjórn frá árinu 2002. Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknarflokks, verður formaður borgarráðs og formaður íþrótta- og tómstundaráðs og mun verða í forsvari Faxaflóahafna. Gísli Marteinn Baldursson verður formaður borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, formaður samgöngu- og umhverfisráðs og formaður stjórnkerfisnefndar.
Formennska í öðrum nefndum mun skiptast milli fimm borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og varaborgarfulltrúa Framsóknarflokks. Kjartan Magnússon verður formaður menningar- og ferðamálaráðs. Júlíus Vífill Ingvarsson verður formaður menntaráðs. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir mun taka við formennsku í leikskólaráði og Jórunn Frímannsdóttir verður formaður velferðarráðs. Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi, verður formaður framkvæmdaráðs. Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður og fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, tekur við formennsku í Orkuveitu Reykjavíkur af Alfreð Þorsteinssyni sem hefur gegnt formennsku í orkufyrirtækjum borgarinnar frá árinu 1994, alla valdatíð R-listans sáluga. Guðlaugur var stjórnarmaður í Orkuveitunni allan borgarfulltrúaferil sinn 1998-2006. Sjálfstæðismenn fara með formennsku í stjórn Orkuveitunnar fyrri hluta tímabilsins og framsóknarmenn í stjórn Faxaflóahafnar. Þetta snýst við eftir 2 ár.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, og Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, kynntu málefnasamning Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á blaðamannafundi í dag. Sérstaka athygli vekur í málefnasamningi flokkanna að boðuð er að ákvörðun um legu Sundabrautar verði tekin á þessu ári, hafin verði strax vinna við skipulag nýrra hverfa í Geldinganesi, Úlfarsfelli, Örfirisey og Vatnsmýri hefjist strax og stefnt er að sérstöku hreinsunar- og fegrunarátaki í hverfum borgarinnar í sumar. Stefnt er að auki að undirbúningi byggingar 300 nýrra leigu- og þjónustuíbúða fyrir eldri borgara á kjörtímabilinu. Gert er ráð fyrir að áætlun um bætta heimaþjónustu og fjölgun dagvistarrýma liggi fyrir í haust og undirbúningur verði hafinn að umtalsverðri fjölgun hjúkrunarrýma á kjörtímabilinu. Það er því óhætt að segja að verkin séu nú látin tala og framundan gott kjörtímabil fyrir borgarbúa undir styrkri stjórn nýs meirihluta.
Það er ánægjulegt að lesa málefnasamning meirihlutaflokkanna, enda eru þar skýr verkefni og skýrar leiðir boðaðar í því sem framundan er. Kjörorð hins nýja meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur er: Hugsum stórt, horfum langt og byrjum strax!. Þetta eru góð orð sem veganesti inn í öfluga vinnu og greinilegt að nýjir og spennandi tímar eru framundan í Reykjavíkurborg undir styrkri stjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra í Reykjavík, og félaga hans í meirihlutanum.
Málefnasamningur meirihlutans í Reykjavík
<< Heim