Valdatíma R-listans lokið í Reykjavík
Kjörtímabili borgarstjórnar Reykjavíkur lauk í gær eins og allra annarra sveitarstjórna landsins. Eins og flestir vita rennur umboð sveitarstjórna ekki út fyrr en 15 dögum eftir sveitarstjórnarkosningar. Þá lauk formlega borgarstjóraferli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Ljóst var alla kosningabaráttuna að hún yrði ekki borgarstjóri áfram að kosningum loknum. Hún varð borgarstjóri við mjög merkilegar aðstæður í desember 2004 við afsögn Þórólfs Árnasonar, sem hrökklaðist frá vegna olíumálsins margfræga, en hann hafði verið markaðsstjóri ESSO á dögum samráðsins umdeilda. Steinunn Valdís var eini borgarfulltrúinn innan R-listans sem gat orðið samstaða um sem borgarstjóra þá. Hún gegndi embættinu í átján mánuði. Hún sóttist eftir leiðtogastöðu Samfylkingarinnar í prófkjöri í febrúar 2006 en tapaði, rétt eins og Stefán Jón Hafstein, fyrir Degi B. Eggertssyni. Mikla athygli vakti að báðum borgarfulltrúum Samfylkingarinnar var hafnað fyrir óháðum borgarfulltrúa R-listans.
Það skal fúslega viðurkennt að Steinunn Valdís stóð sig um margt ágætlega á borgarstjórastóli. Hún vann til dæmis sem borgarstjóri við mjög erfiðar aðstæður seinustu mánuði valdaferilsins, enda öllum ljóst að hún væri hvorki borgarstjóraefni Samfylkingarinnar né leiðtogi flokksins lokasprettinn og hafði ekki umboð til verka að loknu kjörtímabilinu óháð því hvaða meirihluti færi með völd. Það hafði ekki gerst í 24 ár að borgarstjóri þurfti að búa við slíkan pólitískan veruleika, eða frá því að Egill Skúli Ingibergsson, embættismaður sem borgarstjóri sat í vinstrimeirihlutanum 1978-1982. Það var öllum ljóst alla kosningabaráttuna að Egill Skúli yrði ekki áfram borgarstjóri. En þetta var einsdæmi miðað við að Steinunn Valdís hefur verið borgarfulltrúi í tólf ár og því vissulega pólitískur borgarstjóri. Það verður að segjast alveg eins og er að henni tókst vel að vinna úr málum þrátt fyrir þessar undarlegu og um margt sögulegu aðstæður í borginni.
Nú er saga R-listans öll og valdatíma hans er lokið. Nú er líka borgarstjóralaust í Reykjavík en valdatíma Steinunnar Valdísar lauk eins og fyrr sagði á miðnætti á laugardagskvöldið. Nú er Helga Jónsdóttir borgarritari, starfandi borgarstjóri. En það breytist allt á morgun er nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tekur við völdum og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tekur við embætti borgarstjóra. Vilhjálmur Þ. þekkir borgarmálin vel - hann er starfsaldursforseti borgarstjórnar og átt þar sæti allt frá árinu 1982. Það verður fróðlegt að sjá hann taka til verka eftir valdatöku nýs meirihluta. Þá loksins verður sterkur og öflugur borgarstjóri í Reykjavík með skýrt og öflugt umboð til fjögurra ára, en slík staða hefur ekki verið uppi síðan að Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var steypt af stóli innan R-listans fyrir rúmum þrem árum.
<< Heim