Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 júní 2006

Að loknum aðalfundi

Sjálfstæðisflokkurinn

Aðalfundur Varðar var haldinn í kvöld í Kaupangi. Á fundinum lét ég af formennsku í félaginu. Ég hef verið formaður Varðar nú í tvö ár. Það er að mínu mati hæfilegur og góður tími og kominn tími til að aðrir fái að spreyta sig á þeim verkefnum sem þar eru unnin. Er mér þakklæti í huga fyrir að vera treyst fyrir þessu verkefni í upphafi en þessi tvö ár mín á formannsstóli voru ár vinnu fyrir mig en ég tel að félagið hafi ekki verið litlaust á þessum tíma. Það hefur verið gaman að leiða félagið og kynnast með því annarri hlið á bæjarpólitíkinni hér.

Ragnar Sigurðsson, laganemi, var kjörinn formaður Varðar. Ég hef þekkt Ragnar til nokkurra ára og veit að þar fer heill og vandaður strákur sem er vinnusamur. Ég tel að félagið sé í góðum höndum undir hans stjórn. Með Ragnari í stjórn munu sitja á næsta starfsári: Gerald Häsler, Hanna Dögg Maronsdóttir, María H. Marinósdóttir, Sindri Alexandersson, Sigurjón Steinsson og Steinþór Þorsteinsson. Í varastjórn félagsins voru kjörin: Eva Einarsdóttir, Jóna Jónsdóttir og Sigurður Pétursson. Skoðunarmenn reikninga félagsins voru kjörnir ég og Bergur Þorri Benjamínsson og til vara er Sindri Guðjónsson.

Í upphafi aðalfundar flutti ég ræðu þar sem ég fór bæði yfir starfsárið og fleiri þætti tengda því. Ég kveð félagið sáttur við verkin og vona að þeim sem taki við farnist vel í því að tryggja öflugt og gott félag til verka á kosningavetri. Sjálfur ætla ég að halda í önnur verkefni innan flokksins og tel mjög gott fyrir mig að breyta til á þessum tímapunkti.