Samkomulag næst um að tryggja stöðugleika
Skrifað var undir endurskoðaðan kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands í gærkvöldi. Þá lá fyrir yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í skatta- og vinnumarkaðsmálum, sem kynnt var í ráðherrabústaðnum á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, kynntu ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og fóru yfir stöðu mála í Ráðherrabústaðnum ásamt Grétari Þorsteinssyni, forseta ASÍ, er samkomulag lá fyrir. Hæst ber að hækkun skattleysismarka er fengin með hækkun persónuafslátts um 3.000 krónur og með því að lækka tekjuskattinn um 1%. Þetta mun gerast næstu áramót.
Stefnt er að því að persónuafslátturinn verði endurskoðaður árlega eftir það og mun breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs. Aldursmark barnabóta mun verða hækkaður í 18 ár um næstu áramót og lög um vaxtabætur verða endurskoðuð ef í ljós kemur við álagningu að hærra fasteignamat skerði þær marktækt. Framlag til starfsmenntamála mun verða aukið og samstarf verður komið á um málefni útlendinga á vinnumarkaði. Samningur Samtaka atvinnulífsins og ASÍ felur í sér 15.000 króna taxtaviðauka auk 5,5% launaþróunartryggingu handa þeim sem starfað hafa hjá sama vinnuveitenda í eitt ár. Þetta tekur gildi um næstu mánaðamót og með þessu móti halda kjarasamningar út næsta ár.
Ríkisstjórnin tekur í yfirlýsingu sinni undir þau markmið sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa sett sér um hjöðnun verðbólgu. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar eins og fyrr segir um 3.000 krónur um áramót - með þessari hækkun og fyrrnefndri lækkun tekjuskatts hækka skattleysismörk einstaklinga úr 79.000 kr. í 90.000 kr. á mánuði, eða um 14%. Eins og flestir vita var það eitt helsta kosningaloforð stjórnarflokkanna í alþingiskosningunum fyrir rúmum þrem árum að lækka tekjuskatt umtalsvert á kjörtímabilinu og það var ómað í stjórnarsáttmála endurmyndaðrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vorið 2003 og hefur það verið meginstef í ríkisstjórnum undir forsæti Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar á tímabilinu.
Það eru vissulega nokkur vonbrigði að næsta skref lækkunar tekjuskatts verði um 1% um næstu áramót í stað þeirrar 2% lækkunar sem áður var fyrirhuguð, þ.e. úr 23,75% í 22,75%. Á móti kemur að lækkunin, eitt prósent sem nemur 5,7 milljörðum, kemur fram í samkomulaginu með öðrum hætti í öðrum ákvörðunum í þessu samkomulagi milli ríkisstjórnar og verkalyðshreyfingarinnar. Svigrúm er ekki við þessar forsendur að ljúka fyrrnefndri prósentulækkun tekjuskatts en það hlýtur að verða forgangsmál ríkisstjórnarinnar er aðstæður hafa batnað. Það leikur enginn vafi á því að gríðarlega mikilvægt er að samkomulag hafi náðst og lending blasir við. Mest er um vert nú fyrir fólkið í landinu og fyrirtækin er að ná tökum á verðbólgunni - tryggja stöðugleikann á ný.
Það er mikilvægt að marka þetta samhenta skref þar sem allir aðilar taka höndum saman til að leggja verðbólguna að velli. Stjórnarandstaðan er fljót að semja nýja leikrullu til að tala sig frá þessu samkomulagi. Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins talaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, út og suður um málin í viðtali við Gísla Einarsson. Þar sagði hún að aðilar vinnumarkaðarins hefðu tekið fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og skapað stöðugleikann. Það er alltaf skondið að hlusta á forystumenn stjórnarandstöðunnar tala um þessi mál. VG ljær aldrei máls á skattalækkunum, svo allir vita hvar þeir eru staddir. Samfylkingin er sem fyrr stefnulaust rekald sem enginn treystir á, eins og skoðanakannanir og niðurstöður sveitarstjórnarkosninga sýna allvel.
Í gærkvöldi kynnti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, þetta samkomulag í ítarlegu viðtali hjá Kristjáni Kristjánssyni í Kastljósi. Þar fór hann yfir stöðuna með góðum hætti og viðeigandi að benda lesendum á það viðtal. Eins og fyrr segir er hér um merkilegt samkomulag að ræða. Sumt er gleðiefni, annað er vonbrigði eins og gengur. Staðan er með þeim hætti að lykilatriði er að tryggja samkomulag til verka við aðila - fyrst og fremst skiptir máli að tryggja stöðugleika. Það er mitt mat að Geir H. Haarde og ríkisstjórn hans hafi stýrt málum farsællega með samkomulaginu og tryggt undirstöður þess að betur horfir nú en áður í stöðunni.
Það verður áhugavert að fylgjast með stöðu mála næstu vikurnar nú þegar að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur með öflugum hætti stýrt okkur leiðina að tryggum stöðugleika með ákvörðunum ríkisstjórnar sinnar.
grein á vef SUS
<< Heim