Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 júní 2006

Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hafin

HM 2006

Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hófst í dag með glæsilegri opnunarhátíð í München í Þýskalandi. Horst Köhler forseti Þýskalands, setti keppnina formlega. Keppnin mun standa í mánuð - allt frá deginum í dag til sunnudagsins 9. júlí nk. en þá fer fram úrslitaleikur keppninnar í höfuðborginni Berlín. Opnunarleikur keppninnar fór fram á FIFA World Cup-leikvanginum í München - þar leiddu heimamenn og Costa Rica saman hesta sína. Þjóðverjar unnu góðan sigur í leiknum 4-2. Philip Lahm skoraði fyrsta mark keppninnar. Paulo Wanchope jafnaði metin fyrir Costa Rica. Klose skoraði svo tvö mörk í röð fyrir Þjóðverja og undir lokin minnkaði Wanchope muninn. Torsten Frings innsiglaði sigur Þjóðverja með glæsilegu marki undir lok leiksins. Það er því óhætt að segja að þessi byrjun lofi góðu um framhaldið enda var þessi leikur sannkölluð markaveisla. Pólland mætir Equador í kvöld og er það síðari leikurinn í A riðli.

Það er óhætt að segja að segja að keppnin hafi hafist með miklum krafti. Var þetta virkilega lifandi og skemmtilegur leikur. Aldrei í sögu HM hafa fleiri mörk verið skoruð í opnunarleik. Gestgjafarnir Þjóðverjar hafa lengi verið öflugir í knattspyrnu og átt litríka sögu með góðum leikmönnum og eftirminnilegum töktum í fyrri heimsmeistarakeppnum. Þrisvar hafa Þjóðverjar unnið heimsmeistaratitilinn - árin 1954, 1974 og 1990. Þjóðverjar kepptu síðast til úrslita um titilinn við Brasilíumenn á HM árið 2002 á alþjóðaleikvanginum í Yokohama í Japan. Leikurinn var spennandi og litríkur og lauk með sigri Brassanna 2-0. Ég hef alltaf haft gaman af því að fylgjast með fótbolta og fylgst með sögu heimsmeistarakeppninnar vel í gegnum árin. Sérstaklega eftirminnileg í mínum huga er keppnin árið 1994 í Bandaríkjunum. Þá voru margir ógleymanlegir og góðir taktar - virkilega flott mót. Svo er keppnin 1990 eftirminnileg fyrir margra hluta sakir.

Ég hef alltaf stutt Brasilíu af krafti en haft veikan blett líka fyrir Þýskalandi. Svo geta knattspyrnuáhugamenn aldrei komist hjá því að hafa smá taugar til Englands, þó að þeir hafi ekki verið mjög sigursælir á HM frá árinu 1966 á heimavelli. Ég keypti mér fyrir nokkrum árum vandaða sögu keppninnar á DVD og það hefur verið áhugavert að líta á efnið aftur núna í aðdraganda HM að þessu sinni. Það er óhætt að segja að Sýn haldi vel utan um pakkann og þar er allt eins fullkomið í umfjöllun og það getur orðið. Fótboltaáhugamenn fengu svo sannarlega gott start með opnunarleiknum og vonandi mun keppnin öll verða jafnlifandi og skemmtileg og þessi leikur var - enda sannkölluð markaveisla í honum.