Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 júní 2006

Andi sáttagjörðar á yfirborðinu í Framsókn

Halldór Ásgrímsson

Miðstjórn Framsóknarflokksins kom saman til fundar kl. 16:00 í dag. Fundarefnin voru aðallega tvenn: ákvarðanataka um tímasetningu flokksþings og umræða um stöðu flokksins í kjölfar ákvörðunar Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, um að hætta í stjórnmálum eftir þriggja áratuga stjórnmálaferil. Það dylst engum að flokkurinn hefur logað í óeiningu og átökum í mjög langan tíma, en þau náðu hámarki þó í kjölfar þess að Halldór tilkynnti ákvörðun sína á Þingvöllum á mánudag, annan dag hvítasunnu. Fá sem engin fordæmi eru fyrir svo rosalegum innri átökum þar sem gengu yfir í vikunni. Við sjálfstæðismenn höfum horft á þessi hjaðningavíg framsóknarmanna í fjölmiðlum og verið undrandi yfir stöðunni. Aðalspurningin hvað okkur varðaði sneri að því hvort Framsóknarflokkurinn væri tækur til að vera í ríkisstjórn nú um stundir. Lengst af vikunnar var erfitt að svara þeirri spurningu játandi, enda flokkurinn greinilega klofinn í herðar niður.

Í gærkvöldi hittust Halldór og Guðni Ágústsson á heimili Halldórs í Breiðholti til að fara yfir stöðu mála. Lauk þeim fundi með fullum sáttum þeirra á milli. Þeir kynntu þar þá sameiginlegu tillögu sína að flýta flokksþingi og það yrði haldið þriðju helgina í ágústmánuði, helgina 18. - 20. ágúst nk. Á fundinum var ennfremur þingflokkurinn og lýsti hann yfir stuðningi við tillögu þeirra. Niðurstaða fundarins var sú að hvetja til sátta í flokknum og vinna áfram á þeim forsendum að ná yfirhöndinni yfir þá óeiningu sem öllum var ljós. Hún var ekki bara að veikja flokkinn, heldur einnig ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hefur unnið að mörgum framfaramálum frá 1995. Enginn vafi er á því að gott samstarf Halldórs og Davíðs Oddssonar fyrrum forsætisráðherra, hafi verið burðarás samstarfsins. Í skugga formannsskipta í Framsóknarflokknum lék vafi á að sá stöðugleiki væri til staðar og farið var að ræða um þingkosningar fyrr en ella vegna stöðunnar.

Blasir við að framsóknarmenn hafi ákveðið að slíðra sverðin og reyna að landa málinu með farsælli lausn innbyrðis. Annað var ekki í stöðunni fyrir þá. Fundurinn fór enda mjög vel fram og þar var sáttatónn í loftinu. Sást það vel í viðtölum við bæði Guðna Ágústsson og Siv Friðleifsdóttur, sem skipa forystu flokksins með Halldóri, að þar voru komnar á sættir. Hvort þær sættir séu bara til málamynda eður ei kemur fljótlega í ljós. Formaður flokksins flutti langa ræðu á þessum fundi og fór yfir stöðu mála. Þar lagði hann út af trausti og samheldni - án þessa tveggja gæti Framsóknarflokkurinn ekki lifað áfram og sótt fram í kosningum að ári. Greinilegt er að honum sárnar mikill trúnarbrestur innan forystu flokksins, sem von er. Mér fannst Halldóri mælast vel. Það er alveg ljóst að bestu ræður ferils síns hefur Halldór flutt í hópi félaga sinna. Halldór hefur leitt Framsóknarflokkinn með nokkrum krafti og haft mjög sterkt umboð til þess verkefnis.

Halldór talaði til flokksmanna og landsmanna allra með heilsteyptum hætti. Hann talaði af næmleika og tilfinningu, einkum undir lokin er hann þakkaði flokksmönnum fyrir samstarf og trúnað í gegnum árin. Hvað svo sem segja má um Halldór og forystuhæfileika hans er aldrei hægt að deila um að hans stjórnmálaferill er bæði viðburðaríkur og glæsilegur. Mér sýnist reyndar endir ferilsins ráðast nú að miklu leyti að því hvernig til tekst á næstu vikum - þeim tíu vikum sem eru til flokksþings Framsóknarflokksins er hann mun láta formlega af formennsku í Framsóknarflokknum. Eigi þessi flokkur að vera samstarfshæfur fyrir Sjálfstæðisflokkinn þarf þar að vera almennilegt andrúmsloft og hann þarf að líta út sem samstarfshæft stjórnmálaafl en ekki pólitískur vígvöllur - sem er því miður sú mynd sem hefur blasað við stjórnmálaáhugamönnum.

Það virðist vera sem svo að nú ríki meiri samhljómur innan Framsóknarflokksins en var lengi vel vikunnar og sáttatónn til staðar. Hvort að það er bara tilbúningur til að halda stjórnarsamstarfinu saman og mokað aðeins yfir mestu sárin mun ráðast fljótlega. Forystumenn flokksins vissu auðvitað að ef þeir gætu ekki landað sínum málum almennilega og með sannfærandi hætti yrðu þingkosningar í sumar eða snemma í haust. Þeir leystu sín mál með það að leiðarljósi. Væntanlega mun ný ríkisstjórn taka við völdum fyrir lok helgarinnar og þá verður að ráðast hvort að Framsóknarflokkurinn getur staðið undir þeim skyldum sem hann hefur axlað seinustu árin í ljósi breytinga innan flokksins. Þetta veltur allt á traustu yfirbragði.

Það er ljóst að hafi Framsóknarflokkurinn ekki styrk til að feta sig í þá átt með sannfærandi hætti næstu 10 vikurnar er hann ósamstarfshæfur með öllu. Það er bara svo einfalt. En nú verðum við að sjá hvernig Framsóknarflokknum reiðir af í framhaldi miðstjórnarfundar. Næsta verkefnið er að ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde taki við völdum. Vonandi munu framsóknarmenn leysa hratt og örugglega það verkefni að velja ráðherra í hana er formaður þeirra heldur á braut og víkur úr ríkisstjórn eftir tæplega 20 ára setu í ríkisstjórn lýðveldisins. Það verður fróðlegt að sjá hvernig flokknum reiðir af í ríkisstjórn án hans.