Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 júlí 2006

Jónína hreyfir við forystukapli Framsóknar

Jónína Bjartmarz

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, lýsti yfir framboði sínu til varaformennsku í flokknum í beinni útsendingu í fréttatíma Sjónvarpsins kl. 19:00 í kvöld. Greinilegt var að Jónína hafði boðað fréttamann Sjónvarps einan á vettvang í Alþingisgarðinn og þeir sátu því einir að fréttinni um framboð hennar fyrst í stað. Var hún þar sýnd sólbrún og sælleg í flottum fötum - allt greinilega vel skipulagt og sett upp fyrir Sjónvarpið á prime time sjónvarpstíma fyrir fréttir þeirra. Eftir viðtal við Finn Beck hélt Jónína í viðtal hjá Sigmari Guðmundssyni í Kastljósinu og þau fóru yfir ákvörðun hennar og stöðu mála.

Það er alveg greinilegt að Jónína Bjartmarz heldur í varaformannsslaginn djörf og greinilega viss um mikinn stuðning. Sögur fara af því að hún og Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, séu í bandalagi í forystusveitina og stefnt sé að því að Birkir Jón Jónsson verði í framboði til ritara flokksins. Þetta er sögð vera flétta Halldórsarmsins í flokknum af kunnugum sem þekkja til valdablokkanna í flokknum. Sagði Jónína reyndar í Kastljósviðtalinu að hún hefði fengið stuðning víða að og teldi rétt að leggja af stað núna, rúmum mánuði fyrir flokksþing Framsóknarflokksins. Er mjög líklegt að það bandalag sem til sé komið sé nú í raun komið á fullt í það verkefni að sigra kosningar á flokksþingi og búist við kosningum í raun.

Siv og Guðni

Það blasir við öllum sem þekkja til stjórnmála og innviða Framsóknarflokksins að ekki er gert ráð fyrir ráðherrunum Guðna Ágústssyni og Siv Friðleifsdóttur í fléttu Halldórsarmsins margfræga í flokknum. Þar séu Jón, Jónína og Birkir Jón lögð upp í slaginn og átök framundan að öllum líkindum. Í fréttum fjölmiðla frá fyrrnefndri tilkynningu Jónínu Bjartmarz hefur verið reynt mjög að leita viðbragða Sivjar og Guðna við stöðu mála. Ekki næst í Guðna, sem er eflaust verulega þungt hugsi nú, og Siv segist vera að hugsa málin en stutt sé í að hún gefi út fyrirætlanir sínar. Það bendir flest til þess að haldi Guðni og Siv ekki samhent í það sem framundan sé blasi við sigur Jóns og Jónínu í kosningu á flokksþinginu sem verður um miðjan ágústmánuð.

Það er merkilegt svo ekki sé fastar að orði kveðið að Jónína tilkynni um varaformannsframboð áður en fyrir liggur hver hugur Guðna Ágústssonar er til málsins. Það sýnir betur en margt annað að uppi er bandalag sem hugsar ekkert um Guðna og hyggur á að leiða flokkinn án hans atbeina - blasir í raun algjörlega við. Það sást líka kristallast í yfirlýsingu hennar í Kastljósi að skipta þurfi um forystu í flokknum á þessum tímamótum vegna þess að fyrri forysta hafi verið svo ósamstæð í öllum verkum. Þetta er hvasst skot frá Jónínu til Guðna og Sivjar sem gegna embættum varaformanns og ritara nú. Eiginlega ómar Jónína þar áberandi skoðun Valgerðar Sverrisdóttur í kjölfar ákvörðunar Halldórs um að hætta.

Jón Sigurðsson

Það er ekki óeðlilegt að fullyrða það að Guðni og Siv séu þau einu sem geti ógnað stöðu Jóns Sigurðssonar í formannskjörinu í flokknum. Reyndar má fullyrða að staða Jóns sé orðin svo vænleg að erfitt verði að stöðva hann. Valkostir Guðna Ágústssonar í þessari erfiðu stöðu eru ekki margir. Í besta falli eru þeir þrír. Það er að hætta í stjórnmálum, gefa kost á sér til formennsku eða fara í varaformannsslag. Ég tel útilokað að Guðni vilji verða áfram varaformaður eftir brotthvarf Halldórs. Annaðhvort mun hann leggja í formannsslag eða víkja úr forystusveitinni og hætta þátttöku í stjórnmálum. Maður með hans bakgrunn sem varaformaður í öll þessi ár á í raun ekki fleiri kosti en þessa tvo.

Ég tel mjög líklegt að Guðni Ágústsson og Siv Friðleifsdóttir pari sig í framboð á móti þeim tveim sem fyrir liggja nú. Guðni hlýtur að leggja til atlögu við Jón og sækjast eftir formennskunni. Hann hefur verið á þingi frá 1987, leitt Suðrið í flokknum frá 1995, verið ráðherra frá 1999 og varaformaður frá aldamótaárinu. Það væri mikil uppgjöf að hans hálfu að víkja af braut nú og myndi túlkast sem svo að hann þyrði ekki í viðskiptaráðherrann Jón, fyrsta utanþingsráðherrann til fjölda ára og augljósan kost fráfarandi formanns til forystuembættisins. Á móti kemur að Siv hefur mikinn metnað líka og verið lengi áberandi: var formaður SUF og bæjarfulltrúi á Nesinu áður en hún varð þingmaður árið 1995 og ráðherra nær samfellt frá árinu 1999.

Það má ekki gleyma því að Jónína Bjartmarz og Guðni Ágústsson tókust á í varaformannskjöri Framsóknarflokksins er Guðni var kjörinn varaformaður í stað Finns Ingólfssonar. Þá var Jónína frambjóðandi Halldórsarmsins og tapaði. Þá var reyndar þriðja framboðið í slagnum, en það var Ólafur Örn Haraldsson sem varð leiðtogi flokksins í Reykjavík við brotthvarf Finns Ingólfssonar en hætti svo þingmennsku í kjölfar ákvörðunar Halldórs Ásgrímssonar að fara í framboð í Reykjavík. Þá var Jónína nýkomin á þing (kom inn í stað Finns) og um margt óreynd í stjórnmálum. Enginn vafi er á að staða hennar er mjög sterk nú: hún er orðin ráðherra, er leiðtogi flokksins í öðru borgarkjördæmanna og hefur styrka stoð í slagnum.

Halldór Ásgrímsson

Framundan eru spennandi tímar innan Framsóknarflokksins. Það stefnir að mínu mati í kosningar um öll lykilembætti flokksins og verulega áhugavert að sjá hvað Guðni Ágústsson og Siv Friðleifsdóttir gera í stöðunni. Það er greinilegt að brotthvarf Halldórs hefur leitt til uppstokkunar innan flokksins og greinilegt að armur hans vill algjörlega nýja forystu til móts við nýja tíma. Sú nýja forysta er sett til höfuðs ráðherrunum Guðna og Siv. Það er allavega enginn vafi á því að yfirlýsing Jónínu á prime time sjónvarpstíma í kvöld hreyfir við forystukaplinum í Framsóknarflokknum til mikilla muna á örlagastundu á hásumri.