Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 júlí 2006

Kvöldverðarsnæðingur í Hvíta húsinu

Ólafur Ragnar, Laura og George W. Bush og Dorrit

Í kvöld munu Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff snæða kvöldverð í Hvíta húsinu í Washington og verða þar gestir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, og Lauru Bush, eiginkonu hans. Það væri áhugavert að vita um hvað forsetarnir tveir munu ræða yfir kvöldverðnum. Þar sem Ólafur Ragnar er gamall herstöðvaandstæðingur gæti það orðið áhugavert fyrir forseta Bandaríkjanna að heyra skoðanir forseta Íslands á málefnum herstöðvar Bandaríkjanna á Íslandi fram til þess tíma að hann var kjörinn forseti fyrir áratug, árið 1996.

Staða varnarviðræðanna er eitthvað sem margir hér á landi hafa fylgst með af áhuga. Það ætti að vera forsetunum sannkölluð innlifun í kvöldverðarspjalli. Kannski verða þessi mál rædd þá og vonandi hefur Ólafur Ragnar ennfremur einhverjar fallegar veiðisögur að segja Bush frá veiðitúr föður forsetans til Íslands, fyrr í þessum mánuði, en hann veiddi hérlendis þá einmitt í boði fyrrnefnds Ólafs Ragnars Grímssonar.

Það er ánægjulegt að sjá hversu notaleg bönd eru að myndast milli forseta Bandaríkjanna og forseta Íslands. Ætti að vera mörgum vinstrimönnum sem býsnast höfðu yfir tengslum Davíðs Oddssonar og George W. Bush í langri forsætisráðherratíð Davíðs mikið gleðiefni. Það eitt er víst að ekki mun Ólafur Ragnar ræða við forseta Bandaríkjanna um Þjóðviljagrein hans þann 7. júlí 1983 við lok opinberrar heimsóknar föður hans, George H. W. Bush, sumarið 1983 í varaforsetatíð hans.

Þá andmælti hann komu hans með harkalegum orðum í Þjóðviljanum, blaðinu sem hann ritstýrði. 23 árum síðar kom Bush eldri aftur og þá í boði sama ritstjóra Þjóðviljans. Hann gaf honum meira að segja forláta veiðistöng og flugusett með þeim orðum að hann yrði nú að veiða vel í fríinu. Það verður ekki af forseta Íslands tekið að hann skiptir fljótt um skoðanir.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, birti brot úr greininni á vef sínum fyrir nokkrum dögum. Í henni sagði m.a.: "Nú er hann farinn, CIA-forstjórinn sem fluttist í stól varaforseta. Hann gekk um með lýðræði á vörum, frelsi á tungu og bros á sjónvarpsskermi. En á fundum með íslenskum stjórnarherrum hafði hann aukinn hernað í hendi sér, kröfur um efldan stríðsrekstur, bæði hér á landi og annars staðar í veröldinni."

Ennfremur sagði í greininni: "Gesturinn Bush var nefnilega um áraraðir æðsti prestur alls hins versta í stjórnmálum veraldarinnar. Hann stjórnaði frá degi til dags háþróaðasta kerfi njósna, spillingar, valdaráns og morðsveita sem fundið hefur verið upp í veröldinni." Svo mörg voru þau orð.

Það er vonandi að vinstrimenn séu glaðir yfir kvöldverðinum í Hvíta húsinu. Það hefðu allavega einhverntíma þótt tíðindi að formaður Alþýðubandalagsins til fjölda ára sæti kvöldverðarboð í boði sonar George Bush, forseta Bandaríkjanna, á þeim tíma sem kalda stríðinu lauk. En tímarnir breytast og Ólafur Ragnar með, eins og gárunginn sagði eitt sinn.