Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 júlí 2006

Breytingar á nefndum bæjarins

HJT og KÞJ

Eins og allir bæjarbúar vita var það eitt fyrsta verkefni nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010 að stokka upp í nefndakerfi bæjarins. Með því var nefndum fækkað og nokkrum þeirra skeytt saman. Jafnréttis- og fjölskyldunefnd og áfengis- og vímuvarnarnefnd var skeytt saman í fjölskylduráð og menningarmálanefnd var lögð niður. Verksvið menningarmálanefndar var fært undir önnur verkefni tengd atvinnumálum og fleiru og heitir ný nefnd nú Akureyrarstofa. Þetta voru að mörgu leyti athyglisverðar breytingar og ég verð að viðurkenna að ég fylgdist nokkuð með umræðu um málið á fyrsta fundi bæjarstjórnar, sem gekk að mestu út á þessar breytingar, en fulltrúar minnihlutans voru ekki ánægðir með þessar breytingar. Þeir töluðu þar af krafti gegn því sem kynnt var í málefnasamningi flokkanna.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég er sammála að miklu leyti gagnrýni minnihlutans og skil efasemdir þeirra. Ég sé ekki þörfina á að sameina þessar nefndir og þaðan af síður að leggja niður menningarmálanefnd í þeirri mynd sem hún hefur verið. Hún hefur verið að vinna mjög gott verk og mér finnst það nokkuð ankanalegt að breyta henni með þeim hætti sem blasir við. Ég tók að hluta þátt í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar á liðnu kjörtímabili og komst að því að sú nefnd tók á mörgum mikilvægum þáttum og vann gott verk. Það var sérstaklega ánægjulegt að vinna með Katrínu jafnréttisfulltrúa bæjarins í jafnréttismálunum en hún hefur þar unnið gott verk. Margir hafa spurt sig að því seinustu vikur hver sé þörfin á því að færa jafnréttismálin inn í aðra flokka og t.d. skeyta saman áfengis- og vímuvarnarmálum við það.

Ég verð að viðurkenna að ég tel þetta ekki góða ákvörðun og hef verið hugsi yfir henni. Í raun má segja að öll verkefni nýs fjölskylduráðs heyri undir ólík svið. Að mínu mati hefði verið réttast að efla þær nefndir sem fyrir væru með því að láta þær starfa áfram með sama hætti. Eins og flestir vita gegni ég nú engum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn minn hér í bæ og mun ekki heldur vera í neinum nefndum fyrir bæinn á þessu kjörtímabili. Það er ágætt að geta litið yfir sviðið frá þeim slóðum og sagt sínar skoðanir á stöðu mála hreint út. Ég tel að best hefði verið fyrir nýjan meirihluta að halda sama nefndakerfi og viðhalda þeirri forystu sem mörkuð var eldri nefndum sem verða sameinaðar. Allar sinna þær mikilvægu hlutverki.

Hinsvegar verður fróðlegt að fylgjast með breyttu nefndakerfi þegar að það tekur gildi með haustinu. Ég vona að ný nefnd sinni verkum eldri nefndanna með sama krafti og hinar eldri gerðu. Það er gott fólk í þessari nýju nefnd og ég vona að þau haldi vel á málum. Hinsvegar undrast ég enn meir örlög menningarmálanefndarinnar og verð að undrast mjög að engin sé menningarmálanefndin með þeim titli sem henni ber. En það er eins og annað kannski breytingum háð, ég veit það hreinlega ekki. Eins og fyrr segir verður fróðlegt að fylgjast með þessu nefndadæmi með vetrinum þegar að breytingarnar taka gildi - þá fyrst er hægt að dæma fyrir alvöru þessa ákvörðun meirihlutans.