Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 júlí 2006

Sorgleg umferðarslys

Minning

Mikil sorg hefur verið heima á Akureyri seinustu daga vegna andláts Sigrúnar Kristinsdóttur og Heiðars Þ. Jóhannssonar sem létust í sorglegum umferðarslysum fyrir viku. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 9 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Sérstaklega hefur verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum sem tengjast fólki heima á Akureyri. Það er sárt að vita af fjölskyldum í sorg vegna láts góðs vinar og ættingja. Ég veit að margir eru í sárum heima núna og það fólk á allt stað í hjarta mér þessa erfiðu daga núna.

Eins og við vitum öll sem þekkjum til þessara mála heyrum við oft sorglegar tölur um lát fólks í bílslysum og ýmsa tölfræði á bakvið það. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja. Sjötta sumarið í röð hefur VÍS hafið átak gegn umferðarslysum undir forystu Ragnheiðar Davíðsdóttur. Ekki veitir af því að minna á mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni. Í átaki VÍS að þessu sinni er athyglinni að mestu beint að baráttunni við ölvunarakstur, hraðakstur, farsímanotkun undir stýri og annars konar skort á einbeitingu sem oft leiðir til alvarlegra slysa. Ragnheiður og þau hjá VÍS eiga hrós skilið fyrir öflug skilaboð sín í þessum efnum.

Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hefur Umferðarstofa staðið sig vel í að koma öflugum boðskap sem einfaldast og best til skila.

Sérstaklega fannst mér þetta heppnast best í auglýsingaherferð fyrir nokkrum árum þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og sýndar voru myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar. Það er dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast, látlaus en þó áhrifamikil og kemur mikilvægum boðskap til skila. Nýjasta auglýsingaherferðin hefur heppnast gríðarlega vel og verið góð áminning þess að fara varlega í umferðinni og ekki síður að muna að nota bílbeltin. Það eru mikilvægustu skilaboðin að mínu mati að minna á þessa sumarmánuði, enda vill oft gleymast að hugað sé að því að beltið sé á.

Í auglýsingunni sem hefur verið í fjölmiðlum í sumar er stuðst við norska auglýsingu sem vegagerðin þar í landi lét gera og fékk Umferðarstofa leyfi hjá þeim til að útfæra hugmyndina fyrir íslenskar aðstæður. Norska herferðin heitir "Heaven can wait" og hefur vakið verðskuldaða athygli. Það er ljóst að líkurnar á því að slasast alvarlega eða láta lífið í umferðinni eru margfalt sinnum meiri meðal þeirra sem ekki nota bílbelti. Í auglýsingunum er því lögð áhersla á notkun bílbelta hvort sem um er að ræða farþega eða ökumann því beltin bjarga. Það eru grunnskilaboð sem margsannað er að skipta miklu máli. Hvet alla til að sjá þessa auglýsingu.

Ég fagna þjóðarátaki Umferðarstofu og VÍS í umferðarmálum. Í grunninn séð vekur þetta okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.