Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 júlí 2006

Málverk sett upp aftur í Höfða

dr. Bjarni Benediktsson

Dr. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var einn merkasti stjórnmálamaður í sögu íslenskra stjórnmála á 20. öld. Að mínu mati er hann merkasti stjórnmálamaður aldarinnar á Íslandi og sá sem markaði merkustu sporin við mótun hins íslenska lýðveldis. Hef ég aldrei farið leynt með aðdáun mína á stjórnmálamanninum Bjarna og stjórnmálastefnu hans sem varð meginstef Sjálfstæðisflokksins þann langa tíma sem hann starfaði í forystusveit hans. Hef ég lesið margoft greinasafn hans, Land og lýðveldi, og jafnan þótt mikið til þess koma. Bjarni var arkitekt utanríkisstefnu Íslendinga og markaði söguleg áhrif í senn bæði á íslenskt samfélag og íslensk stjórnmál. Hann var vinnusamur stjórnmálamaður sem skildi eftir sig merkilegt dagsverk í stjórnmálum.

Fyrir nokkrum dögum var málverk Svölu Þórisdóttur af Bjarna aftur sett upp í Höfða, funda- og móttökuhúsi Reykjavíkurborgar. Málverkið var fjarlægt fyrir rúmum áratug í kjölfar valdatöku R-listans einhverra hluta. Myndin af Bjarna setti svip á leiðtogafundinn í Höfða fyrir tveim áratugum er Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev hittust á sögulegum fundi sem markaði þáttaskil við endalok kalda stríðsins. Hún prýddi fréttamyndir af fundinum um allan heim enda var hún á vegg í fundaherbergi leiðtoganna. Það vakti undrun margra er myndin af Bjarna var tekin niður, enda var hann borgarstjóri í Reykjavík og markaði þáttaskil í lýðveldissögunni með forystu sinni og verkum í stjórnmálum. Myndin var reyndar sett upp í nokkrar vikur fyrir áratug er leiðtogafundarins var minnst en tekin niður fljótlega aftur.

Það er gleðiefni að myndin sé komin á þann stað sem hún á að vera. Það er reyndar með ólíkindum hversu mjög NFS hefur tekist að gera að umfjöllunarefni að myndin sé sett aftur á sinn stað, þar sem hún var til fjölda ára áður en að Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hugnaðist að taka hana niður og reyna með því að slá einhverjar pólitískar keilur. NFS hefur talað um stóra málverkamálið með kostulegum hætti. Það er svosem merkilegast af öllu að NFS reyni að gera veður af þessu í gúrkutíðinni sem nú geisar í fjölmiðlum og er áberandi á NFS núna þegar að ekkert er að gerast, annað en heimsókn Bush, fyrrum forseta, hingað til lands.

Það er ánægjulegt að til valda í Reykjavík sé komið fólk sem metur söguna og telur við hæfi að standa vörð um að varðveita sem mest fundastað leiðtoganna árið 1986 og allt þar í kring, þ.m.t. málverk Svölu af Bjarna.