Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 júlí 2006

Pólitískt litróf á hásumri

Geir H. Haarde

Það er ekki amalegt í sumarfríi austur á landi að fylgjast með þeim fréttum sem hæst standa þessa dagana. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með góða stöðu og í fararbroddi í skoðanakönnunum og formaður flokksins, Geir H. Haarde forsætisráðherra, er sá stjórnmálamaður sem landsmenn treysta best til verka. Kemur það ekki að óvörum enda er Geir öflugur og traustur stjórnmálamaður sem nýtur virðingar landsmanna. Sterk staða Sjálfstæðisflokksins kristallast um leið í sterkri stöðu formannsins sem er rétt eins og Davíð Oddsson var til fjölda ára leiðtogi sem landsmenn treysta. Á sama tíma mælist Samfylkingin með lægsta fylgi sitt á kjörtímabilinu og formaður flokksins mælist óvinsælli í könnunum en vinsælli. Hennar pólitíska vígstaða getur ekki annað en talist verulega döpur.

Staða mála er því nokkuð skýr hvað það varðar og Samfylkinguna skortir sárlega pólitísk skotfæri í íslenskum stjórnmálum. Samfylkingarfólk er greinilega farið að sjá eftir að hafa sett Össur af í fyrra. Það verður seint sagt að viðbrögð Samfylkingarfólks við þessu mælingarafhroði á hásumri að loknu öflugu pólitísku vori séu afgerandi og eða taki á vanda þeirra. Ég man ekki eftir miklum viðbrögðum séð frá mínu sumarleyfi. Man aðeins eftir að hafa í örskotsstund heyrt í Margréti Frímannsdóttur, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, þar sem að hún lýsir yfir vonbrigðum með dapran hlut flokksins og svo ummælum Láru Stefánsdóttur, varaþingmanns, þess efnis að fleiri verði að leggjast á árarnar en leiðtoginn. Mér fannst ummæli Láru undarleg að því leyti að það er hlutverk leiðtogans að segja fólki til verka. Bregðist sú leiðsögn dugar mannskapurinn illa.

Ég var staddur á Borgarfirði eystra í skínandi sumarsól á laugardaginn þegar að ég las mjög athyglisvert viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Morgunblaðinu. Þar er farið ítarlega yfir stjórnmálaviðhorfið og pólitíska litrófið þessar sumarvikurnar. Hún er enn sem fyrr á því að Ísland eigi að ganga í ESB og síður hrifin af Evrunni. Ekkert er farið yfir varnar- og öryggismál eins kostulega og það hljómar nú þessar seinustu vikur varnarliðsins á Íslandi. Mesta athygli vekja skiljanlega spurningar blaðamanns (og svör ISG) um dapurt gengi flokksins í skoðanakönnunum - enda varla hægt að tala við formann Samfylkingarinnar þessa dagana nema víkja að því, þó varla líki henni þau meginumræðuefni um þessar mundir. Það er ekki það sem stefnt var að undir hennar pólitísku forystu innan Samfylkingarinnar.

Segist hún auðvitað ekki sátt við fylgislægð flokksins á kjörtímabilinu en telur að það komi að einhverju leyti inn í reikninginn úrslit kosninganna. Flokkurinn missti enda völdin víða og situr eftir í meirihlutasamstarfi í aðeins fjórum af stærstu sveitarfélögum landsins: á Akureyri, í Skagafirði og Höfn og er svo auðvitað í hreinum meirihluta í Hafnarfirði. Veigamesta áfallið hlýtur að vera valdamissirinn í höfuðborginni þar sem formaður Samfylkingarinnar var borgarstjóri samfellt í tæp níu ár. R-listinn heyrir sögunni til og Samfylkingin leiðir minnihluta nú þar með frjálslyndum og vinstri grænum. Hún hlýtur að vera svekkt yfir stöðunni almennt en mér finnst það merki úrræðaleysis og glundroða að ætla að kenna aðeins döpru gengi í kosningunum um fylgislægð á kjörtímabilinu í landsmálum.

Hæst ber því á pólitísku hásumri sólbruni Samfylkingarinnar sem situr ráðalaus til hliðar og veit ekki sitt rjúkandi ráð. Það kristallast best í tali og ráðleysi formanns flokksins sem fáar haldbærar skýringar hefur á stöðu flokksins nema þá með því að líta í eigin barm eftir 13 mánaða tilþrifalítinn formannsferil.