Áratugur frá forsetakjöri Ólafs Ragnars
Í dag er áratugur liðinn frá forsetakosningum. Ólafur Ragnar Grímsson, þáv. alþingismaður og fyrrum formaður Alþýðubandalagsins, var þá kjörinn forseti Íslands og sigraði þrjá keppinauta sína um embættið: þau Pétur Kr. Hafstein hæstaréttardómara, Guðrúnu Agnarsdóttur lækni, og Ástþór Magnússon. Auk þeirra hafði Guðrún Pétursdóttir dósent, gefið kost á sér en hún dró sig út úr kosningabaráttunni tíu dögum fyrir kosningar, á kvenréttindadaginn 19. júní. Ólafur Ragnar vann nokkuð afgerandi sigur, en rúm 10% skildu að hann og Pétur sem hlaut næstflest atkvæði. Skammt undan kom Guðrún en Ástþór hlaut innan við 5% atkvæða. Ólafur Ragnar tók við embætti forseta Íslands af Vigdísi Finnbogadóttur við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu þann 1. ágúst 1996
Þegar að Ólafur Ragnar var kjörinn forseti Íslands fyrir áratug var hann umdeildasti stjórnmálamaður landsins - óhætt er að segja að á þeim þrem áratugum sem stjórnmálaferill Ólafs Ragnars Grímssonar stóð hafi hann verið mjög umdeildur. Hann sat í miðstjórn Framsóknarflokksins 1967-1974 og í framkvæmdastjórn 1969-1973. Í upphafi áttunda áratugarins lenti Ólafur Ragnar upp á kant við forystu flokksins og hann stofnaði ásamt fleirum ungliðum í Framsóknarflokknum, samtök Möðruvellinga, sem voru til vinstri í flokknum. Ólafur Ragnar vildi kanna þann kost að sameina Framsóknarflokkinn og vinstri flokkana í einn flokk. Ólafur Jóhannesson sem á þeim tíma var forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins var andvígur þessum hugmyndum og Ólafur Ragnar yfirgaf flokkinn ásamt samherjum sínum með miklum hvelli. Hann gekk þá í flokk Hannibals Valdimarssonar, Samtök frjálslyndra og vinstri manna og var t.a.m. formaður framkvæmdastjórnar flokksins 1974-1976.
Árið 1976 gekk Ólafur Ragnar í Alþýðubandalagið. Hann sat í miðstjórn og framkvæmdastjórn flokksins frá árinu 1977 og var formaður hennar 1983-1987. Hann var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1980-1983, á valdatíma ríkisstjórnar Dr. Gunnars Thoroddsens. Ólafur Ragnar varð alþingismaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík árið 1978 og sat þar allt til ársins 1983 er hann féll af þingi eftir að hafa fallið í prófkjörsslag innan flokksins í borginni. Hann settist oft á þing á kjörtímabilinu 1983-1987, t.a.m. varð frægt þegar hann tók sæti á þingi í nóvembermánuði 1985 á þeim tíma er Hafskipsmálið stóð sem hæst og vöktu ummæli hans á þeim tíma mjög mikla athygli. Árið 1987 hafði Svavar Gestsson setið á formannsstóli í Alþýðubandalaginu í sjö ár og varð að hætta vegna reglna flokksins. Svavar og Ólafur Ragnar höfðu lengi eldað grátt silfur í flokknum og oft lent upp á kant við hvorn annan. Ólafur Ragnar ákvað að bjóða sig fram í formannskjörinu og mætti þar fulltrúa Svavarsarmsins í flokknum, Sigríði Stefánsdóttur bæjarfulltrúa flokksins á Akureyri.
Fóru leikar á þann veg að Ólafur Ragnar vann yfirburðarsigur í formannskosningunni. Fræg voru viðbrögð Hjörleifs Guttormssonar sem yfirgaf landsfundinn er úrslitin voru tilkynnt og hélt heim til að lesa Gunnlaðarsögu Svövu Jakobsdóttur. Vægt er til orða tekið að andstæðingar Ólafs hafi tekið úrslitunum illa. Fór svo að Svanfríður Jónasdóttir sem studdi Ólaf í formannskosningunni varð varaformaður flokksins. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk í loft upp með miklum hvelli í septembermánuði 1988 og við tók ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Ólafur Ragnar varð fjármálaráðherra í stjórninni (ráðherra utan þings) og með honum settust í hana svarnir andstæðingar hans innan flokksins, Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon. Ráðherraferill Ólafs Ragnars varð umdeildur og frægt varð t.a.m. þegar gert var grín af honum í áramótaskaupinu 1989 og hann færður í búning Skattmanns, en á því ári komst hann í fréttirnar vegna afskipta hans af skattamálum og hörkulegum innheimtuaðgerðum hjá fyrirtækjum.
Steingrímur J. Sigfússon felldi Svanfríði í varaformannskosningu á landsfundi flokksins 1989 og leyndist engum að það var Ólafi Ragnari mjög á móti skapi. Eftir þingkosningarnar 1991 tók við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokks og Ólafur Ragnar settist í stjórnarandstöðu. Hann sat á formannsstóli til ársins 1995 er hann varð að hætta vegna reglna flokksins. Ólafur Ragnar studdi Margréti Frímannsdóttur í formannskjöri á landsfundinum 1995 og fór svo að hún sigraði varaformanninn Steingrím J. Sigfússon naumlega. Kjörtímabilið 1995-1996 var Ólafur lítt sýnilegur á þingi og lét lítið á sér bera. Við setningu Alþingis, 2. október 1995, tilkynnti Vigdís Finnbogadóttir að hún myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs í forsetakosningunum 1996 eftir 16 ára setu á forsetastóli. Hófust þegar miklar bollaleggingar um mögulegan eftirmann hennar og fór svo fljótt að Ólafur Ragnar var nefndur sem mögulegur frambjóðandi í forsetakosningunum.
Lengi vel var rætt um þann möguleika að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, myndi gefa kost á sér í kosningum og lokaði Davíð ekki á þann möguleika í upphafi og svaraði engu þegar hann var spurður um mögulegt framboð. Guðrún Pétursdóttir varð fyrst til að gefa kost á sér og tilkynnti um framboð í janúarmánuði. Um miðjan marsmánuð tilkynnti Guðrún Agnarsdóttir læknir, framboð sitt. Þegar þarna var komið sögu var Ólafur Ragnar hvattur til framboðs af fólki um allt land og úr öllum flokkum. Fór svo að hann tilkynnti formlega um framboð sitt undir lok marsmánaðar með konu sína sér við hlið í stofunni heima hjá sér á Seltjarnarnesi. 9. apríl tilkynnti Davíð að hann myndi ekki gefa kost á sér í forsetakosningunum og tæpri viku síðar tilkynnti Pétur Kr. Hafstein hæstaréttardómari, um framboð sitt. Við lok framboðsfrestsins bættist svo Ástþór Magnússon í hóp frambjóðendanna. Kosningabaráttan varð hörð og þann 19. júní hætti Guðrún Pétursdóttir við framboð sitt vegna lítils fylgis í skoðanakönnunum eins og fyrr segir.
Kosningabaráttan náði hámarki nokkrum dögum fyrir kosningar er auglýsingar birtust í blöðum þar sem augljóslega var ráðist að Ólafi Ragnari. Meðframbjóðendur Ólafs neituðu að eiga þátt í birtingu auglýsinganna. Auglýsingarnar styrktu stöðu Ólafs til muna á lokasprettinum og hann vann samúð þjóðarinnar - auglýsingarnar höfðu því þveröfug áhrif frá því sem ætlað var af þeim sem auglýstu. Í kosningabaráttunni kom Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, fyrri eiginkona Ólafs, mikið fram með manni sínum - í öllum auglýsingum og á öllum fundum kom Guðrún Katrín jafnt fram og Ólafur og er í raun ljóst að hún hafði mikil áhrif á úrslit kosninganna og var af mörgum talinn hinn sanni sigurvegari kosninganna; hún kom sá og sigraði. Það var hún sem gerði gæfumuninn og var stjarna þeirrar baráttu, hún ávann sér mikið persónufylgi og hún var hinn gullni miðpunktur í baráttu Ólafs, hún var í raun virt af öllum landsmönnum.
Eins og fyrr segir vann Ólafur Ragnar sannfærandi sigur í kosningunum - hann hafði leitt slaginn alla kosningabaráttuna og sigur hans aldrei í afgerandi hættu. Hann hlaut 41,4% fylgi á landsvísu. Fljótlega eftir embættistöku Ólafs Ragnars varð ljóst að hann og Guðrún Katrín myndu leitast við að ferðast um landið og verða áberandi í störfum sínum, á sama hátt og forveri Ólafs á forsetastóli. Í september 1997 kom reiðarslagið. Guðrún Katrín greindist með hvítblæði og varð að gangast undir lyfjameðferð gegn sjúkdómnum, og varð frá að hverfa. Í upphafi 1998 var talið að hún hefði náð yfirhöndinni í baráttunni við sjúkdóminn og hún fór að koma fram opinberlega á ný. Hún vann persónulegan sigur þegar hún hélt áfram störfum sínum eftir erfið veikindi. Í júní 1998 tók sjúkdómurinn sig upp á ný og héldu forsetahjónin til Bandaríkjanna þar sem Guðrún fór í mergskipti til að reyna að bjarga lífi hennar. Dvöldu Ólafur og dæturnar við hlið Guðrúnar þar til yfir lauk. Hún lést 12. október 1998, eftir hetjulega baráttu.
Við fráfall Guðrúnar Katrínar breyttist ásýnd forsetaembættisins og tóku dætur forsetans í fyrstu við hlutverki móður sinnar. Í september 1999 tilkynnti Ólafur Ragnar um samband sitt við breska hefðarfrú, Dorrit Moussaieff, og kom samband þeirra Íslendingum á óvart. Frægt varð þegar forsetinn féll af hestbaki og axlarbrotnaði í október 1999 í útreiðartúr með Dorrit og ljósmyndara DV sem myndaði reiðtúrinn. Birtust frægar myndir í DV af Dorrit stumrandi yfir forsetanum þar sem hann lá á kaldri jörðinni í kvöldsólinni þar sem beðið var eftir læknisaðstoð, og því þegar hann var fluttur með flugvél til Reykjavíkur. Í maí 2000 tilkynntu Ólafur og Dorrit um trúlofun sína og frá þeim tíma hefur Dorrit komið fram við hlið Ólafs af hálfu þjóðarinnar á innlendum og erlendum vettvangi. Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff gengu í hjónaband á Bessastöðum þann 14. maí 2003, á sextugsafmæli forsetans. Síðan hefur Dorrit verið stór hluti forsetaembættisins, rétt eins og Guðrún Katrín var meðan að hennar naut við.
Sú almenna sátt sem ríkti um Ólaf eftir kosningasigurinn hefur minnkað eftir því sem liðið hefur á forsetaferil hans. Ímynd forsetaembættisins farið sífellt niður á við. Kostnaður við forsetaembættið fer sífellt hækkandi og ekki bætir úr skák að Ólafur hefur gert forsetaembættið að hálfgerðum hégómleika þar sem hann er eins og haninn á haugnum ásamt sínu slekti. Ólafur Ragnar Grímsson var sem leiðtogi Alþýðubandalagsins maður sem barðist fyrir alþýðu manna með því að leggja fram stefnu um meiri jöfnuð í þjóðfélaginu. Hann var skrautlegur stjórnmálamaður sem með ósvífni sinni var erfiður andstæðingur en gekk mjög langt í því að ráðast á andstæðinga sína með fúkyrðum og ómálefnalegum skömmum eins og gengur um marga stjórnmálamenn. Með magnaðri ímyndarsmíð Einars Karls Haraldssonar og Gunnars Steins Pálssonar árið fyrir kosningar tókst að skapa honum nýja ímynd og hann virtist passa einstaklega vel við embættið.
Það er óhætt að fullyrða að staða forsetaembættisins hafi breyst nokkuð í forsetatíð Ólafs Ragnars. Í rúmlega 60 ára sögu lýðveldisins var embætti forseta Íslands lengst af táknmynd virðuleika í hugum Íslendinga. Forsetar Íslands stóðu jafnan vörð um að embættið héldi virðingu sinni og tign og það yrði ekki að daglegu bitbeini fjölmiðla. Sú var tíðin að embætti forseta Íslands var sameiningartákn þjóðarinnar og almenn virðing var fyrir hendi í garð embættisins og þess sem sat á forsetastóli. Á seinustu árum hefur þetta breyst til mikilla muna. Embættið er orðið að hversdagslegu bitbeini á almennum vettvangi. Virðingin sem áður einkenndi embætti þjóðhöfðingjans hefur minnkað stórlega. Eins og vel hefur verið bent á er það skoðun stórs hluta landsmanna að með ákvörðun sinni um að synja lagafrumvarpi staðfestingar í júní 2004 og ganga gegn þingræðinu hafi Ólafur breytt hlutverki embættisins.
Úrslit forsetakosninganna í júní 2004, þar sem Ólafur Ragnar keppti við Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon, endurspegluðu vilja almennings að tjá óánægju með fyrrnefnt embættisverk forseta Íslands. Þetta kom skýrast fram í því að rúmur fimmtungur þjóðarinnar mætti á kjörstað og skilaði auðu og tæp 40% kjósenda sat heima og greiddi ekki atkvæði. Fyrir þessu voru engin fordæmi í sögu kosninga á Íslandi. Auðu seðlana var enda vart hægt að túlka öðruvísi en sem óánægju með forsetann og þessa ákvörðun hans. Breytingin á forsetaembættinu sem blasti við öllum er úrslit seinustu forsetakosninga lágu fyrir, varð sitjandi forseta slíkt áhyggjuefni að hann reyndi að saka fjölmiðla um að hafa með fréttamennsku sinni reynt að grafa undan sér og beindi talinu frá aðalatriðum málsins: því að forsetaembættið er ekki lengur sameiningartákn þjóðarinnar og samstaðan um það að baki. Það dylst engum að óeining var um ákvörðun hans og hún skipti þjóðinni í fylkingar.
Það er fullkomlega eðlilegt að fólk hafi skoðanir á ákvörðunum forsetans, einkum í þessu máli þar sem þjóðhöfðinginn stuðlaði í fyrsta skipti í lýðveldissögunni að því að sundra þjóðinni og taka sér í hendur vald sem mjög er deilt um hvort sé til staðar og virkt í raun. Heyrst hafa raddir samhliða þessu máli, að óeðlilegt sé að fólk gagnrýni forsetann. Það fólk sem svo talar er ekki í takt við raunveruleikann eða meðvitað um þær breytingar sem Ólafur gert á embættinu. Eins og ég hef bent á gerði þessi ákvörðun forsetans og fleiri tilburðir hans til stjórnmálaþátttöku bæði hann og forsetaembættið berskjaldað með öllu fyrir gagnrýni og árásum beint. Það er allavega í hæsta máta óeðlilegt að vinstrifólk hafi sagt að allir ættu að virða ákvörðun Ólafs Ragnars og aðför hans að þingræðinu og áfram líta á embættið sem sameiningartákn.
Í rúmlega 60 ára sögu lýðveldisins hefur embætti forseta Íslands verið í mótun. Að mínu mati er fyrir löngu kominn tími til að stokka upp hlutverk embættisins og valdsvið þess. Endurskoðun á stjórnarskrá er í vinnslu núna undir verksviði nefndar um málið - sú vinna hefur m.a. vikið að því að endurskoða stjórnarskrárgreinar tengdar forsetaembættinu. Sú vinna var löngu tímabær. Hef ég lengi talað fyrir því að efni 26. greinarinnar verði stokkað upp og tryggt að forseti Íslands geti ekki synjað lögum staðfestingar sem réttkjörinn meirihluti þingsins hefur samþykkt með eðlilegum hætti. Miklu eðlilegra væri að setja í staðinn inn í stjórnarskrá greinar um að viss hluti þingmanna eða kosningabærra manna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og atburðir seinustu missera í sögu forsetaembættisins hafa sannað getur ekki gengið að einn maður taki þá ákvörðun.
Nú þegar að áratugur er liðinn frá kjöri Ólafs Ragnars Grímssonar blasir við nokkuð annað embætti þjóðhöfðingja íslenska lýðveldisins en var er hann tók við því. Það er orðið að hversdagslegu bitbeini slúðurblaða og slefberta. Það er allt annað lag á þessu embætti nú og var t.a.m. í forsetatíð Kristjáns Eldjárn og Vigdísar Finnbogadóttur. Virðingin er horfin - hvort hún kemur aftur skal ósagt látið. Ljóst er þó að hinn umdeildi vestfirski stjórnmálamaður hefur haft mikil áhrif á forsetaembættið í forsetatíð sinni og það verður aldrei samt aftur.
grein á vef SUS
<< Heim