Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 júní 2006

Þrír bæjarstjórar á fjórum árum?

KÞJSBJHJT

Fyrir nokkrum misserum spurði einn góður félagi minn sem býr á höfuðborgarsvæðinu hvort að við værum að horfa fram á það að við værum með þrjá bæjarstjóra á Akureyri á kjörtímabilinu. Ég hugsaði mig um smástund og svaraði því til að aldrei yrðu þeir færri en tveir eins og staðan liti út þessa stundina - þegar væri ljóst að leiðtogar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í kosningunum í vor fengju embætti bæjarstjóra. Hann spurði á móti af hverju að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hefði afhent flokki sem hefði lokað á nær alla samningsmöguleika sína í stöðunni embætti bæjarstjóra og það aðeins í eitt ár. Við hefðum haft fleiri samningsmöguleika en þeir í stöðunni. Ég varð enn vandræðalegri við að tala fyrir þessu dæmi og sagði eitthvað á þá leiðina að þetta hefði verið sameiginlegur samningur flokkanna til verka.

Hann var engu nær og hélt áfram að spyrja um þennan undarlega samning. Næsta spurningin var hvort að Sjálfstæðisflokkurinn hefði samið frá sér bæjarstjóraembættið til að losa um mál innan sinna veggja. Hann fann enga aðra skýringu á málinu. Ég sagði sem var að ég vissi ekkert um þá stöðu mála. Væri það niðurstaðan væri það eitthvað sem ég hefði ekkert heyrt um. Töluðum við lengi vel um þessa stöðu mála og varð spjallið lengri en ég hafði gert áður ráð fyrir. Þessi maður er einn þeirra sem kann að spila alla klæki viðskipta og lifir og hrærist alla daga í miður geðslegum fyrirtækjasamningum í bankakerfinu. Þeir sem lifa og hrærast þar í svo mikið sem einhver ár eru klókari en aðrir að lesa í undarlega samninga.

Sjálfur hef ég um nokkuð skeið undrast þennan bæjarstjórakapal hér og verið hugsi yfir honum. Ég skal fúslega viðurkenna að mér finnst það ekki stöðugleikatákn ef það á að vera þannig að þrír bæjarstjórar verði hér í sveitarfélaginu á fjórum árum. Ég gagnrýndi það í Reykjavík og kallaði það óstöðugleika og á ekki auðvelt með að verja slíkt hér. Það er ágætt ef maður þarf bankasamningamenn til að fá mann til að hugsa svosem. Ég skal viðurkenna þrátt fyrir allt það góða fólk sem við höfum í forystu að ég er lítt hrifinn af því að hér verði þrír bæjarstjórar á fjögurra ára kjörtímabili. Með því erum við að færa andstæðingum okkar of ódýr skotfæri að mínu mati.

En það er sjálfsagt að hugleiða þessi mál og í raun velta því fyrir okkur hvað sé rétt og hvað sé rangt. Það skilar mjög góðum pælingum sem eru í senn áhugaverðar og nauðsynlegar - fyrir okkur öll hér.