Jón Sigurðsson gefur kost á sér til formennsku
Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur gefið kost á sér til formennsku í Framsóknarflokknum. Jón tók sæti í ríkisstjórn fyrr í þessum mánuði er Halldór Ásgrímsson, fyrrv. forsætisráðherra, lét af embætti og vék úr ríkisstjórn eftir langan stjórnmálaferil. Jón er fyrsti utanþingsráðherrann frá því að Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra árin 1988-1991. Tíðindin um að Jón hafi áhuga á æðstu metorðum innan flokksins koma engum að óvörum. Greinilegt var allt frá óvæntri innkomu Jóns að þar væri kominn nýtt leiðtogaefni í flokknum - maður valinn til verka af Halldóri Ásgrímssyni og stuðningsmönnum hans. Greinilegt er enda að hann heldur í slaginn með stuðning Halldórs og Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, og þeirra sem næst þeim standa.
Jón Sigurðsson er reyndar árinu eldri en Halldór Ásgrímsson - hann verður sextugur síðar á árinu. Á móti kemur að hann hefur aldrei setið á þingi né verið í forystusveit flokksins. Hann getur því markað flokknum nýja forystu á nýjum grunni. Hann er ekki tengdur í innstu erjur flokksins og er ekki markaður af neinum átökum þar, sem hlýtur að teljast allnokkur kostur fyrir hann. Jón hefur alla tíð verið í innsta kjarna flokksins. Hann var ritstjóri Tímans og skólameistari Samvinnuskólans gamla á Bifröst - reyndar breytti hann honum í háskóla og markaði honum nýtt og spennandi upphaf sem við höfum séð vel seinustu árin. Hann var trúnaðarmaður margra forystumanna flokksins. Bæði Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson sóttu ráðleggingar til Jóns og hann hefur lengi verið áberandi í flokksstarfinu.
Athygli vekur hvernig að Jón Sigurðsson tilkynnir formannsframboð sitt. Það er í viðtali í Morgunblaðinu nú í dag. Oftast nær hefur það gerst hérlendis að formannsframboð sé tilkynnt í kastljósi ljósvakafjölmiðlanna. Það er greinilega ekki stíll Jóns Sigurðssonar að marka sér stöðu á sviðinu með þeim hætti. Látlaus yfirlýsing kemur á síðum blaðanna. Þetta er vissulega nokkuð merkilegt. En nú er hægt að segja með vissu að formannsslagurinn í Framsókn sé hafinn. Nú verður það að ráðast hvort að einhverjir halda í slag við Jón Sigurðsson. Greinilegt er að hann er fulltrúi Halldórsarms flokksins. Halldór markaði sér flotta fléttu eftir að fyrri flétta hans um Finn Ingólfsson var allt að því skotin niður í fjölmiðlum af Guðna Ágústssyni og staða mála virtist svífa í lausu lofti.
Halldór batt enda á óvissuna og allt að því innilokaði Guðna Ágústsson. Valgerður Sverrisdóttir, einn nánasti pólitíski samstarfsmaður Halldórs, varð utanríkisráðherra og með því launuð öll tryggðin við Halldór. Stór tíðindi voru að hún fengi lykilráðuneyti stjórnarinnar. Á móti kom að Jón Sigurðsson var valinn til verka í mest áberandi innanríkisráðuneyti flokksins, þar sem eru viðskipta- og iðnaðarmál. Með því var Jóni mörkuð verkefni hér heima meðan að Valgerður verður meira fjarri en áður hefur verið. Þessi flétta gerði auðvitað ekki ráð fyrir Guðna, enda er greinilegt að armur fráfarandi formanns styður hann ekki til forystu nú. Allt er lagt undir Jón Sigurðsson eins og atburðarás seinustu tveggja vikna hefur kortlagt vel og nú hefur Jón hafið formannsbaráttu sína formlega.
Verði Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins, eins og mér virðist margt benda til með afgerandi hætti af atburðarás í þessum mánuði blasir nýtt landslag bæði við framsóknarmönnum og eins fulltrúum annarra flokka. Komi hann til forystu mun flokkurinn færast í órafjarlægð frá átakapunktum tengdum hópi fráfarandi formanns og S-hóps og öllu slíku. Framsóknarmenn skynja enda að skil verða að vera til að flokkurinn verði endurreistur til nýrra verka. Það var mjög klókt af Halldóri Ásgrímssyni að velja Jón Sigurðsson til verka, enda hann engum tengdur í innri valdaátökum innan Framsóknarflokksins og getur boðað nýja tíma fyrir flokkinn í íslenskum stjórnmálum. Hann hefur tengingar til hins gamla Framsóknarflokks og getur fært þeim nýja forystu á mikilvægum tímum. Hann gæti orðið óumdeildur.
Það er öllum ljóst að innkoma Jóns Sigurðssonar í ráðherrahóp Framsóknarflokksins boðaði mikil tíðindi og það staðfestist með yfirlýsingu hans um formannsframboð. En um leið og menn hugsa um hvernig formaður Jón geti verið er ekki fjarri að hugsa um hvað Guðni Ágústsson, varaformaður flokksins, er að pæla þessa dagana. Greinilegt er að fléttan fyrrnefnda lokaði hann inni og bjó til formannsefni. Sú flétta Halldórsarmsins er komin í framkvæmd svo um munar. Framundan eru spennandi tímar í Framsóknarflokknum gefi fleiri kost á sér. Athyglisvert er að sjá í viðtalinu við Jón í Mogganum hvaða orð hann velur væntanlegu formannskjöri.
Aðspurður segir hann: "Ég hef áður sagt opinberlega að ég tek að mér þau verkefni sem mér eru falin og í því felst að ég verð í kjöri á flokksþinginu. Reyndar eru allir flokksmenn í kjöri og eflaust munu fleiri stíga fram og gefa kost á sér en ég vona að það verði vinsamleg og heiðarleg barátta. Ég hef rætt þessi mál við marga flokksmenn að undanförnu og veit af því að það fólk sem sækir flokksþingið er lífsreynt og yfirvegað og mun taka sínar ákvarðanir eftir sinni bestu vitund." Svo mörg voru þau orð. Eins og allir hafa séð með innkomu Jóns er þar kominn maður sem lætur hefur ímynd pókerspilarans: er yfirvegaður og ákveðinn í senn. Kannski er það sú týpa sem flokkurinn þarf á að halda núna.
Framundan eru allavega spennandi tímar í Framsóknarflokknum og fróðleg atburðarás. Flestir bíða nú væntanlega eftir Guðna Ágústssyni, sem varla á marga aðra valkosti en að taka slaginn vilji hann verða í forystusveit stjórnmála áfram og marka sér sess í forystufléttu Framsóknar í kosningum að ári. Það verður fróðlegt að sjá hvort hann nær vopnum sínum að nýju eftir greinilegan áfangasigur Halldórsarmsins í valdataflinu í kjölfar brotthvarfs Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum.
<< Heim