Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 júlí 2006

Samfylkingin horfir til hægri

ISG

Það er greinilegt að Samfylkingarfólk er farið að átta sig á vondri stöðu flokksins. Í gær birtist athyglisverð grein eftir Margréti S. Björnsdóttur, eina nánastu pólitísku trúnaðarmanneskju Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur innan Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu. Þar útilokar hún ekki að Samfylkingin sjái sér hag í því að vinna með Sjálfstæðisflokknum og telur það greinilega fýsilegan kost. Þetta er mjög merkilegt og eru skrif sem vekja vissulega athygli. Margrét hefur mjög lengi verið nátengd Ingibjörgu Sólrúnu og flestir sem þekkja til stjórnmála vita að hún skrifar vart grein af þessu tagi nema að þar liggi að baki vilji og stuðningur Ingibjargar Sólrúnar sjálfrar. Sérstaklega kemur þetta mjög merkilega fyrir í ljósi þess að Samfylkingin í Reykjavík útilokaði með öllu samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og setti hann upp sem höfuðandstæðing sinn.

Það virðist vera sem að Ingibjörg Sólrún og hennar nánasta samstarfsfólk telji það óraunhæft að geta haldið inn í kosningaveturinn nema opna á hægrisamstarf. Má reyndar með sanni segja að Margrét endurómi skoðanir hægrikrata í flokknum í greinaskrifum sínum og virðist t.d. finna því algjörlega til foráttu að spyrða sig saman við VG. Er svosem ekki undarlegt að Samfylkingin reyni eitthvað að spyrna sér upp á við í pólitíkinni horfandi á stöðuna þannig að fylgi flokksins sé komið niður fyrir 25% og horfir í raun algjörlega til vandræða fyrir flokkinn og formanninn sem má svo sannarlega ekki við fylgistapi að vori og vera utan stjórnar. Það má fullyrða með sanni að verði Samfylkingin undir í þingkosningunum í maí 2007 muni flokksmenn telja allt fullreynt með formanninn og vilja skipta um.

Össur og ISG

Þá muni ekki einu sinni fögur goðsögn hennar sem sigursæls foringja í borginni í gamla daga ekki einu sinni hjálpa henni frá því að missa völdin. Varla fær hún enda mörg tækifæri til að byggja flokkinn upp í hæstu hæðir. Það er skiljanlegt að vandræðagangur sé innan Samfylkingarinnar og nú líti formaðurinn og hennar innsti hringur til hægri í von eftir betra veðri. Vandræðagangur flokksmanna blasa við öllum sem fylgjast með stjórnmálum. Gott dæmi er að enginn þingmanna flokksins sem hefur heimasíður hefur ritað um fallandi gengi flokksins og "vonarstjörnunnar". Sennilega hlakkar í Össuri yfir stöðu mála. Það átti að koma honum frá og koma flokknum til einhverra áður óþekktra hæða en þess í stað fellur hann um mörg prósentustig við formannsskipti. Það sjá allir að tal stuðningsmanna Össurar um stöðuna ef ISG yrði formaður hefur ræst.

Eins og staðan er þessa stundina get ég ekki betur séð en að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi öll tromp á hendi og geti valið sér samstarfsflokk eftir þingkosningarnar eftir 10 mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn er með góða stöðu í könnunum og Geir er langvinsælasti stjórnmálamaður landsins. Grein Margrétar S. Björnsdóttur, eins nánasta pólitíska trúnaðarmanns Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sannfærir mig um það að forysta Samfylkingarinnar telji hag sínum best borgið í tveggja flokka samstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Það er svo sannarlega gleðiefni að verða vitni að upphafi slíkrar áherslubreytingar.