Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 ágúst 2006

Fer Jakob í þingframboð að vori?

Jakob Björnsson

Um fátt er nú meira rætt hér í bænum í pólitísku umræðunni en það hvort að Jakob Björnsson, fyrrum bæjarstjóri hér á Akureyri, fari í þingframboð fyrir Framsóknarflokkinn að vori. Segja má að orðrómurinn um þetta hafi magnast mjög eftir að Jakob hætti í bæjarstjórn Akureyrar nú í vor. Þegar að hann ákvað að fara ekki í prófkjör flokksins hér í bæ fyrr á árinu varð öllum ljóst að hann væri að stefna að vistaskiptum í sinni pólitík. Jakob var aldursforseti bæjarstjórnar Akureyrar á síðasta kjörtímabili. Hann sat í bæjarstjórn í 16 ár og var leiðtogi Framsóknarflokksins í 12 ár af þeim. Hann var bæjarstjóri á Akureyri á árunum 1994-1998, en í tíð hans vann flokkurinn einn sinn besta kosningasigur, árið 1994, er hann hlaut fimm bæjarfulltrúa kjörna af ellefu. Jakob sat vel á sjöunda hundrað bæjarráðsfunda og rúmlega 300 bæjarstjórnarfundi á þessum 16 árum sínum í forystu bæjarmálanna.

Jakob hefur áður reynt að fara í landsmálin en þá gekk það miður vel fyrir hann. Jakob tók þá ákvörðun eftir að hann missti bæjarstjórastólinn í bæjarstjórnarkosningunum 1998 að stefna á þingið. Sóttist hann eftir fyrsta sæti listans í prófkjöri flokksmanna og barðist við Valgerði Sverrisdóttur, nú utanríkisráðherra, um forystuna. Náði hann aðeins fjórða sætinu í prófkjörinu og tapaði því stórt gegn Valgerði. Mikil barátta var þeirra á milli og harkan var nokkuð mikil í slagnum. Valgerður taldi aðför forystumanns flokksins á Akureyri gegn sér mjög harkalega og fyrirgaf hana í raun aldrei. Jakob tók fjórða sætið á framboðslistanum. Flokkurinn hlaut afhroð í þessum síðustu þingkosningum í NE og aðeins einn mann kjörinn, forystukonuna Valgerði Sverrisdóttur. Árangur listans olli framsóknarmönnum mjög víða miklum vonbrigðum.

Það hefur aldrei farið leynt að framsóknarmenn á Akureyri hafa viljað fá þingmann og barist mjög ákveðið fyrir því. Í aðdraganda síðustu þingkosninga var Þórarinn E. Sveinsson, fyrrum bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar, þeirra valkostur í þingframboð en hann hlaut aðeins fimmta sætið á framboðslista flokksins og varð fyrir vonbrigðum í forkosningu á kjördæmisþingi flokksins í janúar 2003. Nú er Þórarinn E. fluttur til Kópavogs og ólíklegt að hann fari fram hér og eða að flokksmenn hér vilji tefla honum fram, þó að hann sé fyrsti varamaður flokksins í kjördæminu. Hljóta margir að horfa þá til Jakobs, enda hann hættur í bæjarmálunum hér og hefur væntanlega á sér annað yfirbragð en var í prófkjörinu margfræga árið 1999 þegar að hann hjólaði í Valgerði, en stuðningsmönnum hennar líkaði mjög illa hvernig hann kom fram við hana.

Það er mikið talað um það hér hvort að Valgerður og Jakob gætu t.d. slíðrað sverðin og grafið gömlu stríðsöxina fari Jakob fram í forkosningu flokksmanna fyrir næstu þingkosningar. Jakob græðir vissulega á því nú að vera ættaður frá Vopnafirði og hafa tengingar bæði norðan og austan heiða í þessu víðfeðma kjördæmi. Fari svo að Dagný Jónsdóttir láti af þingmennsku, eins og mjög víða er orðað, hlýtur að þurfa einstakling sem getur sótt sér stuðning austur fyrir. Reyndar hefur ekkert heyrst öruggt um það hvort að Dagný hætti með Jóni Kristjánssyni að vori en mikið er pískrað um þann orðróm. Dagný var aðalatkvæðabeita framsóknarmanna hér í síðustu þingkosningum en hún hefur hinsvegar valdið mörgum vonbrigðum og engan veginn verið sú öfluga forystukona sem margir framsóknarmenn hér bjuggust við að hún yrði.

En það blasir við öllum að Jakob er byrjaður að þreifa fyrir sér og minna á sig. Hann er allavega mjög áberandi þrátt fyrir að hafa vikið úr bæjarmálunum og var t.d. á fullu að tala við fólk við menningarhúsgleðina um daginn. Mikla athygli vakti viðtal akureysku fréttastöðvarinnar N4 við Jakob þar sem farið var yfir forystukapal flokksins í ljósi brotthvarfs Halldórs Ásgrímssonar. Sýnist manni af tali hans að hann sé frekar stuðningsmaður Sivjar Friðleifsdóttur en Jóns Sigurðssonar. Reyndar eru margir framsóknarmenn hér á Akureyri ósáttir við hvernig flokksforystan vann seinustu árin og telur afhroð flokksins í sveitarstjórnarkosningunum í vor tengjast beint óvinsældum fráfarandi formanns og verka hans.

Staða Framsóknarflokksins hér á Akureyri hefur aldrei verið verri en einmitt nú. Jakob getur sjálfur algjörlega fríað sig ábyrgð á slæmu gengi flokksins hér í vor, enda kom hann lítið sem ekkert nálægt framboði flokksins í vor. Hann gæti því væntanlega farið fram án þess að vera með það á bakinu. Allavega dylst engum það að Jakob sýnir á sér framboðssnið og má telja líklegra en ekki að hann stefni á að reyna að komast á þing, enda tækifærin til staðar sé það rétt að Dagný Jónsdóttir fari ekki í þingframboð að vori.