Steingrímur J. horfir glaðlegur til hægri
Kosningavetur í íslenskum stjórnmálum er greinilega brátt að hefjast. Pólitíska umræðan er að verða beittari þessa dagana og menn farnir að undirbúa það sem framundan er. Um næstu helgi verður nýr formaður Framsóknarflokksins kjörinn og forysta flokksins þar að auki. Má búast við miklum breytingum innan Framsóknarflokksins í kjölfar flokksþingsins. Sjálfstæðisflokkurinn virðist sigla lygnan sjó og mælist með um 20% meira fylgi en næststærsti flokkurinn. Staða Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, virðist mjög sterk og nýtur hann mikilla vinsælda landsmanna. Samfylkingin virðist hafa veikst mjög í formannstíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og minnkað allnokkuð. Á meðan eflist hinn vinstriflokkurinn, Vinstrihreyfingin - grænt framboð, verulega og kom hann t.d. mun betur út úr sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Það er því ekki undrunarefni að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, hafi verið vígreifur og hress í viðtali á Pressunni í dag við frænda minn, Helga Seljan. Steingrímur virðist vera vinsælasti leiðtoginn á vinstrivæng stjórnmálanna skv. mati landsmanna og hefur markað sér sess sem slíkur í huga mjög margra stjórnmálaáhugamanna. Samfylkingunni hefur fatast flugið og nægir að líta á skoðanakannanir Gallups til að sjá hrapið hjá flokknum. Ingibjörgu Sólrúnu hefur mistekist að leika eftir það sem hún gerði innan R-listans og landsmenn virðast hvorki skilja upp né niður á hvaða pólitísku vegferð hún eða flokkurinn sem hún leiðir er á. Að mörgu leyti virðist ógæfa Samfylkingarinnar vera að þróast upp í velgengni VG og það er greinilegt að Steingrímur J. er að nýta sér vandræði Samfylkingarinnar sér í vil.
Ég hjó eftir einu mjög mikilvægu í tali Steingríms J. Sigfússonar í spjallinu á NFS. Það var að hann útilokar ekki stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn að vori og sagðist t.d. hafa fundið mestan samhljóm með tali Bjarna Benediktssonar, alþingismanns, í þriggja manna spjalli í byrjun þáttarins, þar sem hann var með Birni Inga Hrafnssyni og Björgvini G. Sigurðssyni. Steingrímur er mikill skynsemismaður í stjórnmálum, þó vissulega að hann tali fyrir umdeildum skoðunum. Hann gerir sér grein fyrir því að Samfylkingin er sífellt meir að verða laskaðri kostur fyrir VG og hann sér það í hendi sér að ekki mun koma til neins rauðgræns bandalags með hinum stjórnarandstöðuflokkunum. Hann bæði sér það og skilur að Samfylkingin vill hafa alla kosti opna í pólitísku stöðunni og gerir það líka.
Staða mála er þannig þessar vikurnar að Samfylkingin og VG standa nær á pari í skoðanakönnunum og yfirburðastaða Samfylkingarinnar á vinstrivængnum sé á bak og burt. Staða VG virðist vera mun skárri á þessum tímapunkti fyrir kosningar en var fyrir kosningarnar 2003. VG toppaði reyndar í könnunum sumarið 2001, í lágpunkti Samfylkingarinnar, en nú virðist VG vera að styrkjast mjög í upphafi sjálfs kosningavetrarins, sem er mjög athyglisvert. VG lítur því varla lengur á sig sem litla bróður Samfylkingarinnar heldur jafnaldra hans, sem hann og er. Með því má telja líklegt að VG vilji sækja sömu áhrif í ríkisstjórn (og sama fylgi auðvitað) sem Samfylkingin er að mælast með á þessum tímapunkti.
Það að Steingrímur J. gefi svo sterklega í skyn að hann horfi til hægri og hann gerði í dag færir stjórnmálaáhugamönnum heim sanninn um það að VG haldi öllum dyrum opnum og telji samstarf við sjálfstæðismenn vænlegt. Í senn sannfærir þessi staða vinstrimanna, sem vilja nú horfa til hægri í skugga þess að stjórnarflokkarnir mælast með meirihlutafylgi í könnunum, fólk um það að þessir flokkar sjái ekki fram á það að geta starfað saman í stjórn og jafnframt um það að VG ætli ekki að beygja sig undir stjórn Samfylkingarinnar í einhverju vinstrabandalagi.
Óeining vinstrimanna er rómuð og það er gaman að fylgjast með henni, nú sem ávallt áður.
<< Heim