Fjölmenni á Fiskideginum mikla á Dalvík
Rúm 35.000 manns komu saman í góðu veðri hér á Dalvík í dag, þar sem haldinn var í sjötta skiptið bæjarhátíð Dalvíkurbyggðar, Fiskidagurinn mikli. Var ég þeirra á meðal, en ég hef dvalið þar um helgina í notalegu andrúmslofti og notið alls þess sem þar hefur verið boðið upp á, en einn helsti aðall hátíðarinnar að þar er allt ókeypis. Á annað hundrað þúsund matarskammtar voru grillaðir, en fólk gæddi sér á saltfiskvöfflum (frábærri nýjung sem sló í gegn), bleikju, þorski, saltfiski, rækju, síld, asískri fiskisúpu, hrefnukjöti, rækjukokkteil, fiskborgurum og hráum laxi, svo aðeins fátt eitt sé nefnt af því sem boðið var upp á. Sérstaklega fannst mér bleikjan, súpan, vöfflurnar og þorskurinn bera af. Láta má nærri að meira en tólf tonn af fiski hafi verið á boðstólum í dag. Eins og fyrr segir var þetta allt í ókeypis í boði fiskverkenda í Dalvíkurbyggð.
Stemmningin var engu lík út á Dalvík á þessum glæsilega degi. Hef ég sjaldan séð annan eins mannfjölda á Dalvík og þar var í dag. Veðrið var eins og best er á kosið: blíða og gott veður, stöku sól, einkum í hjarta og sál viðstaddra. Eru aðstandendur Fiskidagsins mikla mjög heppnir með veður, en í öll sex skiptin hefur verið gott veður við hátíðarhöldin og mjög ánægjulegt andrúmsloft yfir Dalvíkinni. Þar hefur aldrei rignt á Fiskidegi! - og gerði það ekki heldur þetta árið, sem betur fer. Var ótrúlegur fjöldi bíla í bænum og var bílum lagt út um allt, upp á grasbletti, við verslanir, íbúðarhús og ótrúlegustu stöðum. Var bílafjöldinn það mikill að bílum var lagt allnokkuð langt frá hátíðarsvæðinu og þurfti fólk því margt hvert sem eftir hádegið kom að ganga nokkurn spöl á svæðið. Þessi dagur var því alveg stórkostlegur.
Meðal þeirra mörgu sem sóttu Dalvíkinga heim um helgina voru forsetahjónin. Forseti Íslands flutti ávarp á hátíðarsviðinu á þriðja tímanum. Í ávarpinu fjallaði hann um öflugan sjávarútveg á Eyjafjarðarsvæðinu og hversu sterk sjávarútvegsfyrirtæki væru þar. Lauk hann miklu lofsorði á öfluga fiskvinnslu í Dalvíkurbyggð og hrósaði heimamönnum fyrir þetta glæsilega framtak sem Fiskidagurinn er. Góð dagskrá var á hátíðarsviðinu allan tímann sem hátíðarhöldin stóðu á hafnarsvæðinu. Rúnar Júlíusson, Ína Idol, fjöldi hljómsveita og tónlistarmanna tóku lagið við mikinn fögnuð, sr. Magnús G. Gunnarsson sóknarprestur á Dalvík, hélt stutta útimessu, Arngrímur Jóhannsson sýndi listflug í háloftunum, karlakór Dalvíkur söng nokkur lög og ennfremur söng Dalvíkurinn Matti (í Pöpum) Fiskidagslagið svonefnda, sem Friðrik Ómar Hjörleifsson og Gunnar Þórisson sömdu fyrir fyrsta Fiskidaginn árið 2001.
Í gærkvöldi var Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, á svæðinu og var hann t.d. heiðursgestur karlakórsins á tónleikum þá. Hitti ég mikinn fjölda góðra vina á hátíðarsvæðinu í dag. Suma hefur maður ekki hitt til fjölda ára. Átti ég langt spjall við marga þarna og fórum við yfir málin yfir matnum og eða í biðröðinni eftir meiri mat. Þetta var sólríkur unaðsdagur á hafnarsvæðinu. Venju samkvæmt stjórnaði Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík og fv. alþingismaður, athöfn þar sem aðili tengdur sjávarútvegi í Dalvíkurbyggð var heiðraður. Að þessu sinni voru skipstjórarnir Helgi Jakobsson og Sigurður Haraldsson heiðraðir fyrir glæsileg framlög sín í þágu sjávarútvegs á Dalvík. Flutti Svanfríður ræðu við þetta tilefni, en við náðum að hittast í mannfjöldanum í dag og spjalla saman, en Svanfríður var kennarinn minn til fjölda ára og þekkt fyrir þau störf sín í huga þeirra sem voru í Dalvíkurskóla í hennar tíð.
Að auki hitti ég gömul skólasystkini, flokkssystkin víða að, ættingja og fjölda vina og marga fleiri - um margt var spjallað. Tíminn var ekki lengi að líða og um fimmleytið lauk hátíðinni með ræðu framkvæmdastjórans, Júlíusar Júlíussonar, sem að vanda stóð sig alveg gríðarlega vel við yfirstjórn og skipulagningu þessa merka viðburðar. Jafnframt leit ég svo að sjálfsögðu til mágs míns, Skarphéðins Ásbjörnssonar, sem venju samkvæmt var með fiskasýningu á hátíðarsvæðinu. Diddi er þekktur veiðimaður og hefur safnað mörgum tegundum. Alltaf fjölgar í safninu hans og að þessu sinni sýndi hann um 200 fisktegundir í körum á hátíðarsvæðinu. Það litu margir til hans og Línu systur í dag. Hann hefur sýnt þessari söfnun mikla elju og verið fastur hluti hátíðarhaldanna allt frá byrjun árið 2001. Vel gert hjá honum eins og venjulega.
Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera, eins og ég skrifaði hér í gærkvöldi. Það sanna vel viðtökur landsmanna allra við deginum og mannfjöldinn sem kom til Dalvíkur í dag. Alltaf fjölgar þeim sem koma til Dalvíkur og fá sér góðan fisk að borða og kynna sér Dalvík í leiðinni. Þetta var ánægjulegur dagur á Dalvík í dag. Þangað var gaman að koma og ég þakka kærlega skipuleggjendum og aðstandendum hátíðarinnar fyrir að veita okkur góða og ánægjulega skemmtun í dag. Það verður gaman að koma aftur hingað að ári!
<< Heim