Ólga innan forystu Samfylkingarinnar
Ég, eins og sennilega svo miklu fleiri, hef nokkuð gaman af að fylgjast með hinum kostulega bloggvef Orðinu á bloggkerfi Moggans. Þar birtast hinar kostulegustu analísur á mönnum og málefnum daginn út og inn. Mikið er þar pælt í stjórnmálum, sem er varla undrunarefni í upphafi kosningavetrar, sem stefnir í að verða mjög spennandi og skemmtilegur. Helst virðast hinir nafnlausu álitsgjafar vera að spá í pólitískum málefnum stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en stöku sinnum er þar spáð í málefnum vinstri grænna. Það vekur verulega athygli að aldrei birtast þar analísur um Samfylkinguna, sem ætti þó aldeilis að vera ástæða til í því pólitíska andrúmslofti sem við blasir þessa dagana þar sem Samfylkingin minnkar stöðugt í skoðanakönnunum og mikil valdabarátta stendur innan jafnvel forystusveitar flokksins sjálfs.
Miklar sögur ganga um það hverjir halda úti þessum vef. Lífseigasta sagan er sú að Andrés Jónsson, formaður Ungra jafnaðarmanna, pólitískrar ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, sé potturinn og pannan á vefnum ásamt fleiri ungliðum úr Samfylkingunni og Framsóknarflokki. Ekki ætla ég að fella endanlegan dóm yfir því hverjir hinir nafnlausu álitsgjafar séu en það hlýtur óneitanlega að teljast trúanleg saga að Samfylkingarungliðar séu ráðandi á vefnum þegar litið er á það að ekkert er analísað um ólguna innan forystusveitar Samfylkingarinnar. Þær sögur hafa gengið nú í nokkrar vikur að lítið sem ekkert samstarf sé á milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, og þau varla orðið tali við hvort annað. Sögur af því virðast þó ekki ná að rata á "Orðið".
Um fátt hefur verið rætt meira seinustu vikurnar hvernig sambandið innan forystu Samfylkingarinnar sé. Frægar eru sögurnar af stirðu samstarfi formannsins og þingflokksformannsins Margrétar Frímannsdóttur. Enn verri virðist samkomulagið milli Ingibjargar og Ágústs. Þær sögur eru lífseigar að hún vilji losna við varaformanninn og hefur heyrst að hún vilji aðra og þekkta frambjóðendur, sem ekki hafa verið í pólitík áður, til framboðs í prófkjöri Samfylkingarinnar í borginni til að reyna að slá hann út. Hafa nöfn Andra Snæs Magnasonar, rithöfundar, og Sigríðar Arnardóttur, morgunsjónvarpskonu, verið lífseig í því skyni. Reyndar hefur margoft verið sagt, sem rétt er, að Ingibjörg Sólrún hafi ekki stutt Ágúst Ólaf til varaformennsku heldur stutt andstæðing hans í kjörinu, Lúðvík Bergvinsson, alþingismann flokksins í Suðurkjördæmi.
Á landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005 brostu Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur sínu breiðasta og reyndu að sýna samstöðu með því að koma fram saman við lok fundarins. Ef marka má það sem heyrist nú er kalt á milli æðstu forystumanna Samfylkingarinnar og barist þar af krafti. Framundan eru þingkosningar og orðrómurinn um að formaðurinn vilji losna við varaformann sinn fer sífellt vaxandi. Virðist heiftin þar á milli vera litlu minni en á milli Halldórs Ásgrímssonar og Guðna Ágústssonar innan Framsóknarflokksins. Ágúst Ólafur er ungur maður, jafngamall mér reyndar, og hefur náð miklum frama innan Samfylkingarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að honum tekst að verjast áhlaupi formanns flokksins og stuðningsmanna hennar sem bráðlega munu reyna allt með sýnilegum hætti að henda honum út úr pólitík.
Það verður allavega sífellt skiljanlegra, hafandi heyrt fréttirnar af þessari ólgu, að Samfylkingin sé í þessum miklu vandræðum og sífellt að minnka í skoðanakönnunum og standi nú nær á pari við VG. Fall Samfylkingarinnar og stjórnmálaferils ISG er analísa útaf fyrir sig fyrir alla sem fylgjast með stjórnmálum. Enn fróðlegra verður að sjá hvort að þeir á Orðinu sjá frétt í þessum óeirðum innan forystusveitar Samfylkingarinnar á næstu vikum, en það hefur ekki fram að þessu talist frétt í þeirra augum þrátt fyrir að þar logi allt eins og Róm forðum.
Það þarf reyndar að bíða mjög lengi eftir þessum pælingum ef satt reynist að eftirmaður Ágústs Ólafs Ágústssonar á formannsstóli Ungra jafnaðarmanna og náinn pólitískur trúnaðarmaður hans sé að stjórna analísingunum á vefnum. Reyndar má spyrja sig að því hversu trúverðugt það sé að formaður ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks bloggi nafnlaust á netinu.
<< Heim