Spenna framundan í frönskum stjórnmálum
Það fer ekki framhjá neinum sem fylgist með frönskum stjórnmálum að breytingar eru framundan. Að vori verða forseta- og þingkosningar í Frakklandi og margt bendir til þess að þáttaskil verði í báðum kosningunum. Kjörtímabili hins 74 ára gamla forseta Frakklands, Jacques Chirac, lýkur að vori og bendir flest til þess að hinn umdeildi hægrileiðtogi muni taka þá ákvörðun að láta gott heita og gefa ekki kost á sér til endurkjörs í þriðja skiptið eftir að hafa setið á forsetastóli í ellefu ár, eða allt frá árinu 1995. Chirac hefur upplifað marga slæma tíma og oft komist í hann krappan á fjögurra áratuga löngum stjórnmálaferli. Segja má að franskir kjósendur hafi sent honum rauða spjaldið í kosningunni um stjórnarskrá ESB í júní 2005 þar sem vilji hans beið hnekki með mjög áberandi hætti. Brást hann við tapinu með því að fórna forsætisráðherra sínum, Jean-Pierre Raffarin. Nú stefnir í forsetakosningar. Flestir ganga að því sem gefnu að Chirac hætti. Hann er orðinn veiklulegur og sést hefur á síðustu mánuðum að heilsa hans er tekin að dala. Hann hefur væntanlega hvorki úthald né áhuga á að halda í annað fimm ára kjörtímabil. Ef marka má kannanir hafa Frakkar ennfremur takmarkaðan áhuga á honum nú. Chirac hefur mistekist að skipta um áherslur og stefnu í kjölfar tapsins í fyrra. Hann fól de Villepin það verkefni en honum hefur ekkert gengið. Enginn vafi leikur á því að Nicholas Sarkozy, innanríkisráðherra, hefur verið pólitískur andstæðingur forsætisráðherrans og þeir margoft eldað grátt silfur. Sarko, eins og hann er almennt kallaður, telst óskabarn hægrimanna fyrir kosningarnar og mælist langvinsælastur þeirra nú og mun væntanlega takast að verða kandidat hægriblokkarinnar. Það stefnir í spennandi kosningar að vori, bæði um þing og forseta. Hægrimenn líta kvíðnir sérstaklega til þingkosninganna og óttast að það sama gerist og árið 1997 þegar að þeir misstu yfirráð yfir þinginu, reyndar mjög óvænt þá. Sérstaklega virðist kosningabaráttan um forsetaembættið og það hver verði húsbóndi í Elysée-höll ætla að verða spennandi og mjög óvægin. Barátta um kandidata vinstri- og hægriblokkanna verða harðir, eins og sést vel af umræðunni og sérstaklega vekur athygli nákvæm umfjöllun um einkalíf forsetaefnanna Royal og Sarkozy.
Chirac hefur ekki endurheimt þann styrkleika sem hann tapaði í kosningunum umdeildu fyrir rúmu ári og verður væntanlega sem lamaður þjóðarleiðtogi fram að kosningum. Óvinsældir hans hafa aukist til mikilla muna og það er af sem áður var þegar að Chirac tókst með glæsibrag að tryggja sér annað kjörtímabilið árið 2002. Það er eiginlega með ólíkindum hvað Chirac hefur tekist illa að halda glæsilegu umboði sínu eftir þing- og forsetakosningarnar 2002. Í báðum kosningunum stóð Chirac eftir með pálmann í höndunum. Chirac tókst að ná endurkjöri á forsetastól með glæsilegum hætti. Í fyrri umferð kosninganna hafði Lionel Jospin, forsætisráðherra og leiðtoga Sósíalistaflokksins, mistekist að tryggja sér sæti í seinni umferðina og öllum að óvörum hafði það verið þjóðernishægrimaðurinn Jean-Marie Le Pen sem varð mótherji Chiracs í seinni umferðinni.
Lionel Jospin stóð eftir með sárt ennið og stjórnmálaferli hans lauk því með öðrum hætti en hann hafði óneitanlega stefnt að. Í seinni umferðinni sameinuðust meira að segja svarnir andstæðingar Chiracs um að kjósa hann til að koma í veg fyrir að Le Pen yrði forseti. Það var skondið að sjá Sósíalistaflokkinn hvetja fólk til að kjósa Chirac og forða Frökkum frá stjórn Le Pen. Og Chirac hlaut 82% greiddra atkvæða. Í kjölfarið vann bandalag hægri- og miðflokka í Frakklandi afgerandi sigur í þingkosningum og Jean-Pierre Raffarin varð forsætisráðherra. Þá var hann afburðavinsæll og sterkur að velli. Eftir tapið í fyrra var hann orðinn svipur hjá sjón. Stjórnin varð undir og honum því sparkað. Tók Dominique de Villepin við embættinu en honum hefur aldrei tekist að verða öflugur forystumaður og þótt með eindæmum mistækur, t.d. í hinni frægu deilu um vinnulöggjöfina.
Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur á honum í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í fyrra. Töldu bæði hann og de Villepin að Sarkozy myndi ekki geta staðið undir því að vera innanríkisráðherra. Það hefur ekki minnkað vinsældir hans að vera í því ráðuneyti og hann virðist langvinsælasti stjórnmálamaður Frakka á hægrivængnum þegar að haldið er inn í kosningaveturinn. Chirac hafði væntingar um að de Villepin gæti notað forsætið sem stökkpall í forsetaframboð en svo fór ekki - hann hefur skaddast á því og það verulega, enda þótt klaufalegur. Sarko virðist geta leikandi létt tryggt sér framboðsstandard og það jafnvel án atbeina forsetans sem hefur dalað í vinsældum eins og fyrr segir.
Draumadís vinstrimanna fyrir kosningar er hin 53 ára gamla Segolene Royal. Fyrir aðeins nokkrum árum hefði það þótt draumórar að halda að Royal hlyti nær afgerandi sess sem kandidat sósíalista til framboðs en svo hefur nú farið. Valdamikill armur flokksins vill hana ekki í framboð og hefur reynt allt sem þeir geta til að draga niður vinsældir hennar, en án árangurs. Ef marka má skoðanakannanir nú er hún einnig draumadís Frakka sem telja sig sjá ferskan vindblæ breytinga og uppstokkunar í Royal, og nýtur hún mikilla vinsælda meðal landsmanna. Margir virðast vilja kvenforseta í Frakklandi og margir vinstrimenn telja hana einu von flokksins til sigurs og áhrifa að vori. Eiginmaður Royal er áhrifamaður í frönskum stjórnmálum, Francois Hollande, formaður Sósíalista, og hefur jafnvel heyrst að hann hafi áhuga á forsetaembættinu ennfremur.
Margir vinstrimenn í andstæðingahópi Royal hafa nefnt nafn Lionel Jospin, fyrrum forsætisráðherra, sem þess eina sem gæti komið í veg fyrir sigur hennar í forvali sósíalista um útnefninguna í forsetakjörið sem fram fer nú í haust. Jospin er fimm árum yngri en Chirac forseti. Lítið hefur farið fyrir honum eftir tapið kostulega fyrir fjórum árum, sem skaddaði pólitískan feril Jospins og batt enda á forsætisráðherraferil hans. Hann hefur sagst tilbúinn í framboð en aðeins að því gefnu að góð samstaða myndist um sig, rétt eins og árin 1995 og 2002. Nú er engin samstaða um Jospin og andstæðingar hans innan flokksins (stuðningsmenn Royal) segja fjarstæðu að honum takist að vinna kosningar nú fyrst honum tókst það ekki sem sitjandi forsætisráðherra árið 2002. Flest bendir því til að Royal fái útnefningu flokksins og eigi góðan séns í forsetaembættið.
Framundan eru áhugaverðir tímar í frönskum stjórnmálum og sérstaklega má búast við að forkosningar valdablokkanna í franskri pólitík verði beitt og harkaleg. Sumir tala um Sarko-Sego tíma framundan í frönskum stjórnmálum. Það skal ósagt látið - en það verður mjög áhugavert að sjá hverjir muni berjast að lokum um hið valdamikla forsetaembætti í Frakklandi, áhrifaembætti í alþjóðastjórnmálum.
<< Heim