Jón kjörinn formaður Framsóknarflokksins
Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur verið kjörinn formaður Framsóknarflokksins. Hann er þrettándi formaður Framsóknarflokksins frá stofnun flokksins árið 1916, fyrir 90 árum. Jón sigraði Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra og ritara Framsóknarflokksins, í formannskjörinu. Hann hlaut 412 atkvæði eða tæp 55%. Siv Friðleifsdóttir hlaut 336 atkvæði eða rúm 44%. Jón tekur við formennsku flokksins af Halldóri Ásgrímssyni, fyrrum forsætisráðherra, sem nú hættir í stjórnmálum eftir þriggja áratuga litríkan stjórnmálaferil og tólf ára setu á formannsstóli. Er úrslitin voru kynnt á Hótel Loftleiðum á tólfta tímanum var Halldór hylltur fyrir störf sín í þágu flokksins, en hann hefur verið í forystusveit flokksins í aldarfjórðung.
Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, verður sextugur á miðvikudag, hann er fæddur 23. ágúst 1946. Jón varð iðnaðar- og viðskiptaráðherra í júní þegar að Halldór Ásgrímsson hætti í ríkisstjórn. Hann varð með því fyrsti maðurinn til að gegna ráðherraembætti án þess að vera þingmaður frá því að Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra 1988-1991. Jón hefur til fjölda ára verið virkur í starfi Framsóknarflokksins og gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir hann og var seðlabankastjóri 2003-2006. Það vakti mikla athygli að hann ákvað að fórna öruggum seðlabankastjórastól fyrir óvissu stjórnmálanna.
Ég vil óska Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins, til hamingju með kjörið. Hann vann nokkuð góðan sigur þrátt fyrir harða baráttu um embættið. Það verður hans hlutverk að taka við þessum elsta flokk landsins núna þegar að stjórnmálaferli Halldórs Ásgrímssonar er lokið. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Jóni gangi á formannsstóli á næstu mánuðum, er landsmenn fá betur að kynnast stjórnmálamanninum Jóni Sigurðssyni, en aðeins eru tveir mánuðir síðan að hann fór í stjórnmálin, eins og fyrr segir.
Fróðlegt verður að sjá hvar Jón fari fram að vori, enda öllum ljóst að formaður Framsóknarflokksins verður ekki utanþings lengur en fram að næstu kosningum. Það verður verkefni Jóns að leiða flokkinn á kosningavetri og í gegnum næstu alþingiskosningar. Fullyrða má að þar muni örlög flokksins ráðast og hvort að hann nái að snúa vörn í sókn. Altént er öllum ljóst að með formannskjöri Jóns Sigurðssonar verður áferðarbreyting á flokknum.
<< Heim