Flokkur á krossgötum velur nýjan formann
Halldór Ásgrímsson hefur nú kvatt forystusveit Framsóknarflokksins og yfirgefið íslensk stjórnmál eftir þriggja áratuga litríkan stjórnmálaferil. Í dag er komið að því að eftirmaður hans sem formaður flokksins verði kjörinn á flokksþinginu á Hótel Loftleiðum, svo og kosið um það hverjir gegni embættum varaformanns og ritara. Kjörið hefst nú í morgunsárið og kl. 11:00 verður því formlega lýst yfir hvort að Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eða Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, verði næsti formaður Framsóknarflokksins, sá þrettándi í röðinni í 90 ára sögu flokksins. Jón og Siv eru mjög ólík og er því hægt að fullyrða með mikilli vissu að breytingar verði á flokknum sama hvort þeirra muni sigra og taka við keflinu af Halldóri Ásgrímssyni.
Í sumarbyrjun hefði fáum dottið í hug að seðlabankastjórinn Jón Sigurðsson yrði jafnvel eftirmaður Halldórs á formannsstóli og eða að hann yrði ráðherra í ríkisstjórninni og fórnaði öruggum bankastjórastól sínum fyrir óvissa framtíð stjórnmálanna. Kom innkoma hans flestum stjórnmálaáhugamönnum á óvart, enda situr Jón ekki á Alþingi og hafði aldrei verið kjörinn fulltrúi flokksins á opinberum vettvangi stjórnmála. Hlaut hann mjög stórt ráðuneyti og vakti athygli hversu mikla trú fráfarandi formaður og þingflokkurinn höfðu á honum. Jón nýtti sér tómarúmið eftir að Halldór fór úr ríkisstjórn til að tilkynna formannsframboð sitt snemma og kom greinilega varaformanninum Guðna Ágústssyni það mjög að óvörum að hann lagði ekki í baráttu við hann. Jón hefur lengi verið í innra starfi flokksins og því þekktur þar, en ekki mikið utan hans. Verði hann kjörinn bíður hans það verkefni að kynna sig og sínar áherslur fyrir þjóðinni.
Siv Friðleifsdóttir hafði verið nefnd sem formannsefni í flokknum í allt sumar og beðið var eftir ákvörðun hennar mjög lengi. Hún tilkynnti framboð sitt seint, á afmælisdegi sínum, þann 10. ágúst sl. Mörgum fannst hún vera lengi að taka ákvörðun og veita Jóni of mikið forskot. Siv er þó auðvitað ólík Jóni sérstaklega að því leyti að hún hefur helgað sig stjórnmálum í sextán ár, eða allt frá því að hún var kjörin formaður SUF, fyrst kvenna, árið 1990. Hún varð bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi sama ár, sigraði í prófkjöri flokksins í Reykjaneskjördæmi árið 1995, fór þá á þing, varð umhverfisráðherra árið 1999 og heilbrigðisráðherra árið 2006. Hún var utan stjórnar í tvö ár og hefur ófriðarbálið innan flokksins oft verið rakið til þess að hún missti sæti sitt. Hún lagði í formannsslaginn viss um gott gengi og taldi sig ekki þurfa langan tíma, enda myndu verk hennar fyrir flokkinn til fjölda ára tala sínu máli fyllilega.
Má búast við að formannskjörið geti orðið mjög jafnt og spennandi, svo virðist enda sem að spennan innan flokksins um að hvort þeirra muni leiða þennan elsta flokk landsins hafi aukist sífellt eftir því sem nær dró. Jón var framan af talinn hafa óyfirstíganlegt forskot og talinn vera með pálmann í höndunum en innkoma Sivjar hefur breytt stöðunni og hún sífellt bætt við sig fylgi eftir því sem liðið hefur að formannskjörinu. Eru menn því ekki vissir um hvernig fari. Jón virðist hafa sterka stöðu víða um land, en sama má segja auðvitað um Siv ennfremur, enda er hún víða með sterk tengsl, enda hefur hún sem ritari flokksins í fimm ár leitt innra starf hans og verið formaður landsstjórnar Framsóknarflokksins.
Er erfitt að kortleggja stöðu Jóns, en þó eru deildar meiningar um pólitíska innkomu hans svo snögglega og telja margir það vera greinilegt útspil fráfarandi formanns til að reyna að tryggja að eftirmaður hans verði svokallaður bráðabirgðaformaður og auðvelt verði að koma einhverjum öðrum fylgismanni hans í formannsstólinn, t.d. Birni Inga Hrafnssyni, til valda síðar meir með auðveldum hætti. Sigri Siv má búast við að hún verði enginn bráðabirgðaformaður, enda er hún aðeins 44 ára gömul og því heilum 16 árum yngri en Jón Sigurðsson. Mjög deildar skoðanir virðast vera uppi víða, innan flokks sem utan, um Jón og margir hafa undrast gamaldags framkomu hans í sjónvarpsviðtölum seinustu vikurnar.
Það stefnir í spennandi kosningu um embætti varaformanns, rétt eins og um embætti flokksformannsins. Verður fróðlegt að sjá hvort að Guðni Ágústsson, sem verið hefur þingmaður frá árinu 1987, ráðherra frá árinu 1999 og varaformaður í rúm fimm ár, muni halda velli á sínum stóli, þrátt fyrir að hann hafi ekki lagt í formannsslaginn þó auðvitað augljós kostur væri, þrátt fyrir illindi milli hans og fráfarandi formanns. Atlaga Jónínu Bjartmarz að honum hefur vakið athygli og mun pólitísk framtíð Guðna ráðast af úrslitunum. Svo verður spennandi að sjá hver vinnur ritaraembættið, þar sem fjórir eru í kjöri, og verður með því í forystu alls innra starfs flokksins sem formaður landsstjórnar flokksins.
Það má búast við spennandi og jöfnum kosningum á þessu flokksþingi, væntanlega þeim mest spennandi í sögu Framsóknarflokksins allt frá árinu 1944 er Hermann Jónasson felldi Jónas Jónsson frá Hriflu af formannsstóli, eftir tíu ára formannsferil hans. Það voru mikil þáttaskil fyrir flokkinn sem fólust í því uppgjöri og brennimerktu flokkinn til fjölda ára eftir það og hafði víðtæk áhrif á heila kynslóð flokksmanna með mörgum hætti, enda hafði Jónas verið einn stofnenda og hugmyndafræðinga flokksins. Framsóknarflokkurinn var byggður á samvinnuhugsjóninni og hefur verið flokkur landbúnaðarins. Nú blasir við að hann verður að marka sér nýtt líf og nýja tilveru á pólitískum krossgötum í upphafi nýrrar aldar.
Það blasir við að mikið verkefni blasir við þeim einstakling sem hlýtur kjör sem formaður Framsóknarflokksins í dag. Það verður hlutverk nýs formanns að leiða flokkinn inn í væntanlegan kosningavetur og í þá kosningabaráttu sem framundan er, en í þeirri baráttu gætu örlög flokksins ráðist og hvort honum tekst að rífa sig upp úr þeirri miklu lægð sem hann hefur verið mjög lengi. Hvort sem að Jón eða Siv leiða flokkinn í gegnum kosningarnar má fullyrða að flokkurinn þarf að fara í verulega uppstokkun til að ná að endurheimta sína fyrri stöðu að þingkosningum loknum eftir níu mánuði.
<< Heim