Halldór Ásgrímsson kveður íslensk stjórnmál
29. flokksþing Framsóknarflokksins verður sett á Hótel Loftleiðum kl. 17:00 í dag. Í upphafi flokksþingsins mun Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, flytja yfirlitsræðu sína. Ræðan markar endalok þriggja áratuga stjórnmálaferils Halldórs, sem verið hefur formaður Framsóknarflokksins allt frá árinu 1994, var varaformaður flokksins 1980-1994, ráðherra nær samfellt í tvo áratugi og alþingismaður nær samfellt allt frá árinu 1974. Framundan eru mjög mikil þáttaskil innan Framsóknarflokksins og í íslenskum stjórnmálum enda hefur Halldór verið aðalleikari í pólitíkinni til fjölda ára og verið mjög áberandi sem forystumaður flokks síns og verið í miðpunkti pólitískrar umræðu til fjölda ára. Á kveðjustund í dag meðal flokksmanna má búast við að hann fari yfir sinn umdeilda og litríka feril til fjölda ára í ítarlegu máli.
Það má vissulega margt segja um pólitískan feril Halldórs Ásgrímssonar nú þegar að hann líður undir lok. Halldór hefur helgað flokk sínum og innra starfi hans krafta sína í mjög langan tíma. Ævistarf Halldórs liggur í stjórnmálum og þó að skiptar skoðanir séu um hann má fullyrða að hann hafi unnið íslenskum stjórnmálum nokkuð gagn og verið ötull í stjórnmálabaráttu. Allan þann tíma sem ég hef fylgst með stjórnmálum hef ég talið Halldór Ásgrímsson mann orða sinna, gegnheilan og vandaðan mann sem ávallt hefur viljað gera sitt besta fyrir íslenska þjóð og reynt með góðmennsku sinni að leggja góðum málum lið og unnið þeim fylgilags og stuðnings með ýmsum hætti. Hann hefur verið duglegur forystumaður að mínu mati, fyrst og fremst tel ég að sagan muni meta hann sem grandvaran og heiðarlegan mann sem tryggði ásamt Davíð Oddssyni styrka stjórn landsins til fjölda ára.
Halldór hefur verið einn af umdeildustu stjórnmálamönnum landsins á þessum langa ferli sínum, en við öllum blasir að hann hefur haft víðtæk áhrif á íslenskt samfélag með forystu sinni. Ungum voru honum falin forystustörf innan flokks síns, hann varð þingmaður 26 ára gamall og var orðinn varaformaður Framsóknarflokksins 33 ára að aldri. Hann varð með því sjálfsagt ráðherraefni og aldrei lék vafi á því að hann væri framtíðarforingi flokks síns og var hann metinn krónprins Steingríms Hermannssonar nær alla formannstíð hans. Hann varð svo sjálfkrafa formaður flokksins við brotthvarf Steingríms úr stjórnmálum, er hann varð seðlabankastjóri árið 1994, og hlaut eftir það alltaf yfir 80% atkvæða á flokksþingi framsóknarmanna. Alla formannstíð sína var hann öflugur forystumaður flokksins og naut mikils stuðnings til forystu.
Það er fjarri lagi hinsvegar að ég hafi alltaf verið sáttur við Halldór Ásgrímsson. Það komu tímar þar sem ég var svo sannarlega ósammála honum og afstöðu flokks hans, enda er stefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auðvitað fjarri því alveg eins í öllum grunnatriðum. Framsóknarmenn voru stundir mjög óbilgjarnir í samningum og kröfðust mikils. Ég fer ekkert leynt með það að ég tel t.d. að Framsóknarflokkurinn með Halldór í forsæti hafi gengið of langt með því að krefjast forsætis í ríkisstjórninni að loknum kosningunum 2003. Ég tel að Halldór hafi aldrei náð tökum á forsætinu, þar réðu mörg mál og einna mest innanflokkserjur innan flokks hans undir lok formannsferilsins. Innri átök á heimaslóðum gerðu það að verkum að Framsóknarflokkurinn höndlaði ekki forsætið. Ég tel þó að fleiri þættir en Halldór einn hafi ráðið úrslitum um hvernig fór fyrir stjórnarforsæti flokksins.
Ég er einn þeirra sem bíð eftir þessari kveðjuræðu Halldórs Ásgrímssonar í íslenskum stjórnmálum með mikilli eftirvæntingu. Fjölmiðlamenn jafnt og stjórnmálaáhugamenn munu fylgjast með hverju einasta orði hans í þessari ræðu sem verður kveðja hans til þess flokks sem hann hefur starfað fyrir allt frá unglingsárum og studdi hann til forystusess í íslenskum stjórnmálum í aldarfjórðung. Sérstaklega tel ég merkilegast að sjá hvernig að Halldór skilur við flokkinn í þeim sárum sem hann er í við lok formannsferilsins. Það blandast engum hugur um að Halldór yfirgaf stjórnmálin sár og vonsvikinn með hvernig til tókst á tæplega tveggja ára forsætisráðherraferli sínum. Endalokin voru engan veginn eins gleðileg og hann stefndi að. Halldór mun eiga erfitt með að stíga af hinu pólitíska sviði í dag nema að gera að fullu upp vonbrigði sín við lok stjórnmálaferilsins og afgreiða þau mál, þó sár séu.
Það má því búast við súrsætri kveðjuræðu Halldórs Ásgrímssonar á Hótel Loftleiðum síðdegis í dag. Þrátt fyrir öll vonbrigðin undir lokin getur Halldór þó yfirgefið stjórnmálin hnarreistur að mínu mati. Hann var í forystusveit lengi og leiddi mörg umdeild mál til lykta og lagði meginhluta ævistarfs síns í íslensk stjórnmál. Fróðlegt verður að sjá í hvaða átt flokkurinn þróast í pólitík næstu mánaða og hver muni leiða hann nú þegar að Halldór yfirgefur hið pólitíska svið. Ég vil óska Halldóri og fjölskyldu hans heilla á þessum þáttaskilum á ævi hans og vona að honum muni vegna vel á þeim vettvangi sem hann velur sér nú við lok stjórnmálaferilsins. Hann er einn af litríkustu stjórnmálamönnum landsins seinustu áratugina.
<< Heim