Tekur Össur við formennsku af Margréti?
Eins og flestir vita hefur Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, ákveðið að gefa ekki kost á sér í þingkosningunum að vori. Það ber flestum saman um það að ákvörðun Margrétar er mikið áfall fyrir Samfylkinguna, enda hefur Margrét verið einn öflugasti forystumaður flokksins og ein þeirra sem mest lögðu að mörkum til stofnunar hans. Persónufylgi hennar hefur tryggt flokknum mikið fylgi á Suðurlandi og það virðist vera framundan erfitt prófkjör í Suðurkjördæmi þar sem eftirmaður hennar verður valinn og allir aðrir þingmenn flokksins í kjördæminu munu væntanlega gefa kost á sér til að leiða framboðslistann að vori. Það er ekki ofsögum sagt að mikil uppstokkun sé að verða í Samfylkingunni og greinilegt að það er áfall fyrir flokkinn að missa mjög marga reynda þingmenn á einu kjörtímabili.
Ég heyrði þá kjaftasögu nú í kvöld að þetta myndi sjálfkrafa þýða að Margrét myndi samhliða þessari ákvörðun láta af formennsku í þingflokki Samfylkingarinnar nú á allra næstu dögum. Hún telji nú rétt að láta af öllum forystustörfum fyrir flokkinn, en gegnir þingmennskunni sjálfri út kjörtímabilið. Margrét hefur verið þingflokksformaður Samfylkingarinnar í rúm tvö ár, en áður hafði hún verið varaformaður flokksins, en allt að því neyðst til að afsala sér varaformennskunni til að finna pólitískt hlutverk fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir að henni mistókst að komast á þing í síðustu þingkosningum. ISG var þá án hlutverks en MF mun hafa við svo búið fórnað sinni stöðu til að halda friðinn innan flokksins. Það er greinilegt að mikil átök þeirra á milli hafa haft mikið um það að segja að hún nennir ekki að taka þátt í stjórnmálunum lengur og telur rétt að stokka upp.
Það verður fróðlegast að sjá hver tekur við formennsku þingflokks Samfylkingarinnar á þessum kosningavetri. 12 dagar eru þar til að Alþingi kemur saman og veturinn hefst fyrir alvöru í pólitíkinni. Þegar að kemur að vali þingflokksformanns Samfylkingarinnar er ekki óeðlilegt að litið sé til varaformanns þingflokksins, Kristjáns L. Möller. Æ líklegra er þó að mínu mati að Össuri Skarphéðinssyni, fyrrum formanni flokksins, verði falin formennskan til að finna honum hlutverk að nýju í forystu flokksins. Össur hefur verið ótrúlega duglegur og fullur elju og máttar eftir að hann missti formennsku yfir til svilkonu sinnar í fyrravor. Hann hefur bloggað af miklum krafti og vefur hans er orðinn langöflugasti bloggvettvangur Samfylkingarinnar. Á sama tíma og Össur herti sig við skrifin lokaði formaður flokksins sínum vef með kostulegum hætti.
Það verður fróðlegt að sjá hvort þetta er rétt og að Össuri verði fundið hlutverk nú þegar að flokkurinn hefur orðið fyrir því gríðarlega áfalli að missa Möggu Frímanns.
<< Heim