Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 desember 2002

25 ára afmæli mitt
Í dag er ég 25 ára gamall, ótrúlegt en satt. Það sem árin líða, segi ég. Í dag hef ég fengið mörg símtöl frá vinum og kunningjum, góðar óskir og gjafir frá þeim sem ég þekki og eru mér nákomnir. Það er alltaf gaman að finna fyrir góðum straumum og því að fólk muni eftir manni. Það er alltaf jafn ánægjulegt að finna fyrir því á degi sem þessum. Ég þakka öllum þeim sem mundu eftir deginum og góðum heillaóskum og kveðjum. Öllum er auðvitað frjálst að senda mér kveðju eða ræða málin eins og áður með því að senda mér póst á netfangið mitt; stebbifr@simnet.is

Ingibjörgu Sólrúnu sparkað
Þáttaskil hafa nú orðið í borgarmálum. Eftir rúmlega átta ára setu á borgarstjórastóli er ljóst að valdaferli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur lýkur á næstu dögum. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hefur samþykkt ályktun þess efnis að hún verði að víkja af borgarstjórastóli ef hún vilji fara inn á vettvang landsmálanna. Framsóknarflokkurinn styður hana ekki lengur til starfans og ljóst að meirihluti borgarstjórnar er ekki lengur á bakvið borgarstjóra í það embætti. Valgerður Sverrisdóttir sparar borgarstjóra ekki stóru orðin á heimasíðu sinni í dag og ljóst að Framsóknarflokkurinn heggur nú í hana af fullkomnu miskunnarleysi, ekkert er lengur sparað, höggin eru harkaleg. Framundan er annaðhvort nýr borgarstjóri að hálfu R-listans eða nýtt meirihlutasamstarf og upplausn R-listans. Það er ljóst að seinustu dagar ársins 2002 verða sögulegir í íslenskum stjórnmálum. Uppgjörið er nú handan við hornið, hvort það verður blóðugt eða gengur yfir með kurteislegu yfirbragði mun ráðast um sjálf jólin. Framtíð R-listans og pólitískur ferill Ingibjargar Sólrúnar eru nú í fullkominni óvissu. Eitt er þó ljóst; algjör trúnaðarbrestur hefur orðið milli meirihlutaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur og engin samstaða um næstu aðgerðir.