Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 desember 2002

Athyglisverðir og fræðandi þættir
Ég er mikill áhugamaður um Íslandssöguna og mannkynssöguna almennt. Það var því mjög gaman að setjast fyrir framan Sjónvarpið í kvöld og horfa á fyrsta þáttinn af átta í þáttaröð Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Ólafs Þ. Harðarsonar um 20. öldina. Þar er um að ræða fræðandi þátt og fyrsti þátturinn var sannkallað augnakonfekt, veisla fyrir þá sem hafa áhuga á sagnfræði og sögunni almennt. Þáttur kvöldsins fjallaði um tímabilið frá 1901-1927. Það var gaman að sjá gamalt myndefni í bland við skemmtileg viðtöl við samtíðarmenn þess tíma sem um var fjallað. Alltaf er gaman að sjá slíka þætti, t.d. hafði ég mjög gaman af þáttum Jóns Ársæls Þórðarsonar á Stöð 2, árið 2000 um 20. öldina, en þeir hlutu Edduverðlaunin á sínum tíma, enda alveg meistaralega vel úr garði gerðir og áhugaverðir. Ég hlakka til að fylgjast með þáttum Hannesar og Ólafs næstu vikurnar, þeir lofa svo sannarlega góðu.

Klassamynd sem klikkar aldrei
Eftir að ég var búinn að horfa á þáttinn um 20. öldina horfði ég á eina gamla og góða úrvalsmynd. Citizen Kane er án vafa ein besta mynd kvikmyndasögunnar og hefur unnið sér mikinn sess. Hiklaust einn af hornsteinum kvikmyndasögunnar. Í myndinni er sagt frá ævi fjölmiðlakóngsins Charles Foster Kane, sú persóna var byggð á William Randolph Hearst. Þótt ótrúlegt megi virðast er Citizen Kane frumraun leikstjórans Orson Welles í kvikmyndagerð. Hann var aðeins 25 ára gamall þegar hann leikstýrði þessari mynd, skrifaði handritið og lék aðalhlutverkið. Það er hrein unun að horfa á þessa klassamynd sem verður betri við hvert áhorf. Einstök mynd sem allir verða að sjá, einhverntímann á ævinni.