Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 janúar 2003

Björn kveður Ingibjörgu Sólrúnu
Í dag er seinasti starfsdagur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem borgarstjóra. Hún sat í gær sinn síðasta borgarstjórnarfund sem forystumaður R-listans en mun áfram sitja sem borgarfulltrúi út kjörtímabilið, hún mun ekki oftar gefa kost á sér í borgarstjórnarkosningum. Í lok fundarins ávarpaði Björn Bjarnason leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins fráfarandi borgarstjóra og kvaddi hana. Þar fór Björn yfir valdaferil ISG og sagði að það væri skref aftur á bak, þegar borgarstjóri með atkvæðisrétti viki fyrir embættismanni. Hann sagðist vera sammála áliti borgarstjórans úr kosningabaráttunni 1994, þess efnis að borgarstjóri án atkvæðisréttar og án þess að vera pólitískur leiðtogi þess hóps, sem stæði honum að baki í borgarstjórn, væri verr settur en sá, sem hefði hið ótvíræða pólitíska umboð. Sagði hann að ef til þess kæmi, að þau settust aftur saman á þing að loknum kosningum í vor, væri líklegt, að einhverjir úr öðrum flokkum en Samfylkingunni, sem höfðu stutt hana dyggilega sem borgarstjóra, myndu eiga um sárt að binda vegna úrslitanna. Björn sagðist kveðja hana með virðingu fyrir því, að henni hefði tekist að halda R-listanum saman í öll þessi ár. Sagði hann að þau hefðu setið saman á þingi árin 1991-1994, eða þar til hún sagði af sér þingmennsku til að setjast í stól borgarstjóra, og væri nú svo komið að henni væri ekki lengur vært þar, enda komin í öngstræti við stjórn borgarinnar. Hvet alla áhugamenn um pólitík til að lesa kveðju Björns til fráfarandi borgarstjóra, sem hefur nú kvatt pólitískt verndað umhverfi Ráðhússins.

Bush og Blair ræða Íraksmál
Í dag ræddu George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, málefni Íraks á fundi í Washington. Á blaðamannafundi eftir fundinn lýstu þeir því yfir að leiða þurfi mál gagnvart Írak til lykta á nokkrum vikum en ekki mánuðum. Bush sagði að Saddam Hussein væri ógn við umheiminn og að ljóst væri að hann væri ekki að afvopnast. Blair sagði að tengsl væru milli hryðjuverka og þess að búa yfir gereyðingarvopnum og að nauðsynlegt væri að takast á við hvort tveggja ef tryggja á frið í heiminum. Bush sagðist fagna samþykkt nýrrar ályktunar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna ef hún yrði skýr skilaboð til heimsins um að afvopna Saddam Hussein. Bush ítrekaði þó að málið þyrfti að leiða til lykta á vikum en ekki mánuðum. Þá sagði Bandaríkjaforseti að Saddam væri að reyna að blekkja umheiminn. Báðir leiðtogarnir lýstu því yfir að nauðsynlegt væri að samþykkja nýja ályktun. Þeir sögðu að deilan um Írak væri mikil prófraun fyrir alþjóðasamfélagið. Á fundinum kom fram að Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, myndi gera það skýrt, þegar hann myndi leggja fram ný gögn fyrir í næstu viku, að Saddam væri að reyna að blekkja umheiminn. Sagði Bush að augljóst væri að Saddam Hussein væri fjandmaður friðar. Það má af yfirlýsingum leiðtoganna sjá að það styttist óðum í að gripið verði til róttækra aðgerða gegn stjórnvöldum í Írak. Tíminn er að renna út fyrir Saddam Hussein.