Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 janúar 2003

Landsfundur eftir tvo mánuði
Nú eru rúmir tveir mánuðir í landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þar hittast flokksmenn í aðdraganda kosninga og móta stefnu flokksins í kosningunum. Mikil stemmning fylgir landsfundi og eflaust verður nóg um að ræða og spekúlerað í pólitíkina á kosningaári. Enginn stjórnmálafundur hérlendis jafnast á við landsfund Sjálfstæðisflokksins, sá kraftur sem í honum býr verður mikilvægt veganesti fyrir sjálfstæðismenn í komandi kosningum.

Að vera, eða ekki vera... frambjóðandi
Í dag var tilkynnt að Ellert B. Schram forseti ÍSÍ og fyrrv. alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, myndi verða í sjötta sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður. Um tíma kom upp sú vandræðalega staða að annar maður taldi sig eiga tilkall til þessa sætis, Eiríkur Bergmann Einarsson. Hann sagði að sér hefði verið boðið sætið í desembermánuði, formaður kjörnefndarinnar tók svo af öll tvímæli og tilkynnti að Ellert yrði í þessu sæti. Það sem er skondnast við þetta er að Ellert B. Schram hyggur ekki á að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum, þar sem hann hefur verið flokksbundinn til fjölda ára og ganga í þann flokk sem hann hyggur á framboð fyrir, honum líst ekki betur á hann en svo að hann heldur fast í flokksskirteinið í Sjálfstæðisflokknum. Það er athyglisvert, svo ekki sé nú meira sagt. Eftir stendur Eiríkur Bergmann niðurlægður af eigin flokksmönnum, maður sem hefur stutt flokkinn frá stofnun og kom fyrrverandi borgarstjóra á spor landsmálapólitíkurinnar með frægri skoðanakönnun. Honum er fórnað fyrir sjálfstæðismann sem ekki er einu sinni í Samfylkingunni. Athyglisvert verður að sjá viðbrögð Samfylkingarmanna í borginni og hvort þeir kommar sem eftir eru í flokknum styðji Ellert B. Schram í komandi kosningum, kjósi flokksbundinn sjálfstæðismann í varaþingmannssæti. Þetta er allt hálfundarlegt og orðið að einum allsherjar farsa fyrir Samfylkinguna, sem veit ekki í hvern fótinn hún stígur. Á þeim bænum er sagt eitt í dag og annað á morgun og trúverðugleikinn farinn fyrir bí fyrir margt löngu. Athyglisvert verður að sjá hvort kjósendur falli fyrir þessu farsastykki flokksins sem mótar skoðanir sínar eftir skoðanakönnunum.