Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 janúar 2003

Gríðarleg skuldaaukning ISG og R-listans
Á föstudag lætur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir af störfum sem borgarstjóri í Reykjavík, eftir tæplega 9 ára setu á þeim stól. Eftir stendur R-listi þriggja flokka margsprunginn og í tætlum og er í reynd forystulaust rekald. Við starfslok ISG blasir við slæm staða borgarsjóðs. Í dag var í Ráðhúsinu blaðamannafundur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar sem farið var yfir stöðu borgarsjóðs við þau tímamót að pólitísk forysta sterks leiðtoga í meirihluta borgarstjórnar lýkur. Borgarfulltrúarnir segja að samkvæmt nýsamþykktri fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2003 verði heildarskuldir borgarinnar í árslok orðnar 83,5 milljarðar króna eða um 733 þúsund krónur á hvern Reykvíking. Séu þetta hæstu heildarskuldir á íbúa í öllum sveitarfélögum landsins. Til samanburðar séu heildarskuldir Akureyrarbæjar 715 þúsund á mann, Hafnarfjarðarbæjar 664 þúsund á mann, Mosfellsbæjar 592 þúsund á mann, Reykjanesbæjar og Kópavogsbæjar 486 þúsund á mann, Garðabæjar 350 þúsund á mann og Seltjarnarnesbæjar 212 þúsund á mann samkvæmt fjárhagsáætlunum þeira fyrir árið 2003. Það blasir við að hreinar skuldir Reykjavíkur án lífeyrisskuldbindinga hafi frá árinu 1993 hækkað um 1100% en á sama tíma hafi samsvarandi skuldir ríkissjóðs lækkað um 13%. Ljóst er að þessi skuldasöfnun er óverjandi. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík telja að R-listinn verði að fara að vakna af ljúfum blundi og horfast í augu við mikla skuldasöfnun borgarinnar. Sjálfstæðismenn vilja að við borgarstjóraskiptin verði gerð úttekt á þróun fjármála borgarinnar í borgarstjóratíð fráfarandi borgarstjóra.

Stórsigur Ariel Sharon og Likud í Ísrael
Það fór eins og flesta grunaði í ísraelsku þingkosningunum. Likud-flokkurinn, flokkur Ariel Sharon forsætisráðherra, fékk flest atkvæði í þingkosningum í Ísrael í gær. Með fulltingi annarra hægri flokka mun flokkurinn því hafa rúman meirihluta á þingi. Verkamannaflokkurinn, sem hefur verið í stjórnarandstöðu síðan í október, hefur aldrei fengið jafnfá atkvæði í kosningum og nú. Likud hlaut 37 þingsæti af 120, Verkamannaflokkurinn hlaut 19 sæti og miðjuflokkurinn Shinui 15 þingsæti. Bandalag hægri- og trúarflokka, með Likud-flokkinn í broddi fylkingar, ráða nú alls yfir 70 sætum í Knesset, ísraelska þinginu. Friðmælandi flokkar töpuðu mörgum þingsætum. Þrátt fyrir stórsigur í kosningunum er viðbúið að erfitt reynist fyrir Sharon að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Í sigurræðu sinni í nótt ítrekaði Sharon, fyrri yfirlýsingar sínar um að hann vilji mynda þjóðstjórn með Verkamannaflokknum. Hann sagðist ekki ætla að mynda stjórn með flokkum öfgamanna og trúaðra og að ennfremur að hann myndi ekki hika við að boða til kosninga á ný takist honum ekki að mynda þjóðstjórn. Stórsigur Sharons er sögulegur, enda er þetta í fyrsta skipti frá 1980 sem sitjandi forsætisráðherra Ísraela vinnur endurkjör.