Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 janúar 2003

Ítarleg stefnuræða Bush forseta
Á þriðjudag flutti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, stefnuræðu sína að viðstöddum þingmönnum beggja deilda Bandaríkjaþings. Hann hét því í ræðunni að leggja fram sannanir fyrir gereyðingarvopnaeign Íraka í næstu viku, hann segir umrædd gögn staðfesta að Írakar eigi mikið magn efna, sem notuð eru til framleiðslu fimm tegunda efna- og sýklavopna. Þá hét hann því að leiða hernaðaraðgerðir gegn Írökum verði þeir ekki við kröfum alþjóðasamfélagsins um afvopnun. Fréttaskýrendur segja ræðuna ekki hafa verið beina stríðsyfirlýsingu en að hún hafi þó farið nærri því. Forsetinn sagði Bandaríkjastjórn ætla að fara fram á fund öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þann fimmta febrúar og að þar muni Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, leggja umrædd gögn fram. Embættismenn í Washington segja gögnin unnin upp úr upplýsingum sem koma úr ólíkum áttum. Telja Bandaríkjamenn að þau sýni að háttsettir íraskir embættismenn og foringjar úr her landsins hafi stýrt aðgerðum, sem hafa miðað að því að færa tiltekinn vopnabúnað til eða fela hann fyrir vopnaeftirlitsmönnum, gjarnan örfáum klukkustundum áður en starfsmenn mæta á tiltekinn stað. Þá hafi vísindamönnum, sem vinni að þróun gereyðingarvopna, verið fyrirskipað að fela pappíra sína fyrir vopnaeftirlitsmönnum. Bandaríkjamenn hafa fram að þessu sagt að þeir gætu ekki lagt fram gögn sem sýndu að Írakar væru brotlegir við skilmála ályktunar öryggisráðs um afvopnun vegna þess að hætta væri á því að þannig fengju Írakar vísbendingar um hvaðan Bandaríkjamenn hefðu upplýsingar sínar, og hvernig þeir öfluðu þeirra. Skýrist þessi afstaða m.a. af því að þessar sömu upplýsingaveitur muni þurfa að nota ef til stríðsátaka kemur í Írak. Nú er hins vegar svo komið að Bandaríkjastjórn telur rétt að reyna að styrkja stöðu sína í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, enda hafa margar þjóðir, sem þar eiga fulltrúa, lýst því yfir að þær séu mótfallnar því að ráðist verði á þessum tímapunkti gegn Írak. Þingmenn Demókrataflokksins hafa aukið þrýsting á stjórnvöld að leggja fram sannanir í málinu. Heimildarmenn blaðsins The Washington Post segja að þrátt fyrir allt þetta hafi Bandaríkjamenn ekki komist yfir gögn sem sýni algerlega svart á hvítu að Írakar eigi enn efna- eða sýklavopn, hvað þá að Írakar séu nú að reyna að þróa kjarnorkuvopn. Þá hafa vopnaeftirlitsmenn komist að þeirri niðurstöðu að álrör sem Bush sagði í september að Írakar hygðust nota til að auðga úran, sem síðan yrði notað til að búa til kjarnorkusprengju, hafi einungis átt að nota til gerðar hefðbundinna stórskotaliðseldflauga - rétt eins og Írakar héldu fram á sínum tíma. Ég hvet alla áhugamenn um pólitík að lesa ítarlega stefnuræðu forsetans og boðskap hans í þessu máli sem meirihluti landsmanna hans styðja, skv. skoðanakönnunum.

Handbolti - handbolti
Seinustu vikuna hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með íslenska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu í handbolta í Portúgal. Fyrstu leikirnir voru auðveldir fyrir okkar menn og sögulegur sigur vannst á Ástralíumönnum. Í kjölfarið fylgdi sigur á Grænlendingum og Portúgölum og tap fyrir Þjóðverjum. Niðurstaðan varð annað sætið í okkar riðli sem hlýtur að teljast viðunandi árangur. Í gær unnum við Pólverja og varð ljóst að til þess að komast í úrslitin yrðum við að vinna Spánverja, það tókst því miður ekki en engu að síður verðum við að una vel við okkar árangur. Við erum eina norðurlandaþjóðin sem eftir stendur, Danir og Svíar eru á leiðinni heim og fara með skottið milli lappanna. Við stöndum því klárlega best að vígi allra á Norðurlöndum, það er góð tilfinning þrátt fyrir vonbrigðin vegna tapsins í kvöld. Við það verður bara að una, nú verðum við bara að taka Rússana í gegn. Okkar menn hafa staðið sig vel og að öllum ólöstuðum er það Ólafur Stefánsson sem er burðarásinn í okkar liði, einstakur keppnismaður þar á ferð. Hann er einn af bestu, gott ef ekki besti handboltamaður samtímans, getum öll verið stolt af honum. Það hefur allavega verið gaman að fylgjast með þessu. Enn og aftur kemur í ljós samstaða okkar Íslendinga þegar á reynir. Við erum ein stór fjölskylda. ÁFRAM ÍSLAND!