Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 janúar 2003

Ættfræðigrunnur á Netinu
Á laugardag opnaði Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, formlega Íslendingabók. Er um að ræða eina ættfræðigrunnurinn í heiminum sem nær til heillar þjóðar. Íslendingabók, sem er ættfræðigrunnur Íslenskrar erfðagreiningar, er opin öllum Íslendingum endurgjaldslaust, en þar geta notendur skoðað upplýsingar um sjálfa sig, ættir sínar og ættingja fram í þriðja lið og rakið ættir sínar saman við aðra einstaklinga sem skráðir eru í grunninn. Í Íslendingabók er að finna upplýsingar um meira en 95% allra Íslendinga sem uppi hafa verið frá því fyrsta manntalið var gert árið 1703. Í heildina inniheldur bókin upplýsingar um 700.000 einstaklinga, sennilega meirihluta þeirra Íslendinga sem búið hafa á Íslandi frá landnámi, samkvæmt upplýsingum frá ÍE. Langflestir, eða 77% allra sem skráðir eru í grunninn, voru uppi á síðustu tveimur öldum. Fjöldi skráðra einstaklinga sem fæddir eru á 20. öld er nú um 366.000 og eru tengingar við báða foreldra í 95% tilvika. Hver einstaklingur hefur aðgang að framættum sínum og upplýsingum um sjálfan sig, ættingja sína aftur í þriðja lið og alla einstaklinga sem fæddir eru fyrir árið 1700. Til að fá aðgang að Íslendingabók þarf að sækja um notandanafn og lykilorð með því að skrá inn kennitölu á upphafssíðunni. Þetta er mjög þarft framtak og athyglisvert og ég hef persónulega skráð mig og hlakka til að fræðast um ættir mínar og uppruna.

Chicago og The Hours vinna Golden Globe
Sl. nótt voru Golden Globe kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin afhent í 60. skipti. Sigurvegarar kvöldsins voru tvær úrvalsmyndir, Chicago sem hlaut verðlaunin sem besta kómíska mynd ársins og The Hours sem var valin dramatísk mynd ársins. Leikaraverðlaunin í dramamyndum hlutu Jack Nicholson fyrir leik sinn í About Schmidt og Nicole Kidman fyrir leik sinn í The Hours. Þau Richard Gere og Renée Zellweger hlutu leikaraverðlaunin í kómískum myndum fyrir leik sinn í Chicago. Aukaleikaraverðlaunin hlutu Meryl Streep og Chris Cooper fyrir leik sinn í Adaptation. Leikstjóraverðlaunin hlaut snillingurinn Martin Scorsese fyrir mynd sína Gangs of New York. Einnig hlutu margir frábærir sjónvarpsþættir og leikarar í þeim verðlaun fyrir frammistöðu sína í þeim. Heiðursverðlaunin sem kennd eru við Cecil B. DeMille féllu í skaut leikarans Gene Hackman. Hægt er að fræðast um verðlaunin og sigurvegara kvöldsins með því að smella hér.