Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 janúar 2003

Alfreð verður formaður borgarráðs og pólitískur leiðtogi R-listans
Í dag sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formlega af sér embætti borgarstjóra og mun láta af störfum eftir hálfan mánuð. Ennfremur sagði hún sig úr borgarráði og lætur þar af formennsku. Alfreð Þorsteinsson var kjörinn formaður borgarráðs og verður með því pólitískur forystumaður borgarinnar. Steinunn Valdís Óskarsdóttir tekur sæti ISG í borgarráði. Nú þegar í borgarstjórastólinn sest valdalaus embættismaður verður formaður borgarráðs pólitískur forystumaður, þetta hljóta allir að sjá. R-listanum verður ekki stjórnað af manni sem aldrei hefur verið kjörinn til setu í borgarstjórn eða af flokkunum þrem sem fulltrúi þeirra í borgarráði. Í kjölfar þess að ISG var sparkað af borgarstjórastóli og úr borgarráði verður hún óbreyttur borgarfulltrúi og ekki valdameiri en Björk Vilhelmsdóttir, efast reyndar stórlega um að ISG fari í nefndir eins og hinir fulltrúarnir. Alfreð Þorsteinsson mun sem formaður borgarráðs verða pólitískur leiðtogi R-listans. Hann hefur lykilstöðu þar nú eftir valdabaráttuna og fær formannsstólinn í krafti oddastöðu sinnar.

Sjálfstæðismenn styðja Kárahnjúkavirkjun - ISG þarf ekki undir feldinn
Í dag varð ljóst að meirihlutafylgi er í borgarstjórn Reykjavíkur við Kárahnjúkavirkjun. Með stuðningi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fer málið í gegnum borgarstjórn. Það lá fyrir í dag að meirihluti R-listans myndi ekki samþykkja þessar tillögur samhljóða, enda þrír borgarfulltrúar meirihlutans á móti henni. Ákvörðun allra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að styðja tillöguna tryggði að málið næði í gegn með meirihluta atkvæða. Ennfremur er ljóst að ISG samþykkir þessa framkvæmd. Það er ánægjulegt að vita að fráfarandi borgarstjóri er á sömu línu og stjórnarflokkarnir í þessu máli og styður atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og almennt séð þessa framkvæmd. Ég var farin að halda að hún ætlaði að sitja hjá eins og þegar kosið var um EES forðum daga. Það er gott að hún getur tekið ákvarðanir án þess að liggja undir feldi í margar vikur og eða mánuði.