Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 janúar 2003

Læti í borgarstjórn - ábyrgð samþykkt
Í gær samþykkti meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur að ábyrgjast lán vegna Kárahnjúkavirkjunar, með því jukust líkurnar á að af virkjuninni yrði. 9 borgarfulltrúar samþykktu tillöguna, þar af allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og þrír fulltrúar meirihlutans, þ.á.m. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráfarandi borgarstjóri. Hávær mótmæli voru í fundarsal Ráðhússins meðan málið var rætt og var púað á Ingibjörgu þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu, en hún studdi ábyrgðina, greinilegt var að henni var brugðið við það. Ennfremur var kallað að þeim borgarfulltrúum sem einnig samþykktu málið. Var með ólíkindum að fylgjast með fundarstjórn forseta, sem hafði enga stjórn á mótmælunum og hafðist ekkert að. Var ekki óeðlilegt að Björn Bjarnason sagði að hann efaðist um að forseti hefði stjórn á fundinum, enda voru það orð að sönnu. Með þessari samþykkt er ljóst að málið verður að veruleika, nú vantar aðeins samþykki meirihluta Alþingis og bæjarstjórnar Akureyrar og ljóst að drjúgur meirihluti er fyrir framkvæmdunum á báðum stöðum. Athygli mína vakti skorinorð grein Elísabetar Jökulsdóttur um þátt fráfarandi borgarstjóra í afgreiðslu málsins, í Morgunblaðinu í gær. Þar sparar hún ISG ekki stóru orðin og greinilegt að einhverjum kjósendum hennar hefur mislíkað ákvörðun hennar. Mér fannst athyglisvert að fráfarandi borgarstjóri studdi atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, það er gott að vita að hún hugsar út fyrir borgarmörkin. En það mætti segja mér að hún hafi ekki tekið þessa ákvörðun með glöðu geði.

Leiðtogi án umboðs - fyrir hvað stendur Ingibjörg?
Nú liggur ljóst fyrir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráfarandi borgarstjóri, verði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í komandi alþingiskosningum. Eftir að hafa misst borgarstjórastólinn út úr höndunum á nokkuð klaufalegan hátt er hún færð til öndvegis innan flokks síns, enda ljóst að pólitískum ferli hennar í borgarmálunum er lokið, hún verður það sem eftir lifir kjörtímabilsins óbreyttur borgarfulltrúi. Nú mun reyna verulega á, fyrir hvað borgarstjórinn fráfarandi stendur fyrir í pólitík. Fljótt á litið blasir ekki við fyrir hvað hún stendur. Undanfarinn áratug hefur hún setið í vernduðu pólitísku umhverfi þriggja flokka í valdabandalagi sem myndað var utan um persónu hennar. Sá tími hefur nú liðið undir lok og við tekur að hún verði að koma sér áfram á eigin verðleikum. Réttkjörnum formanni flokksins er ýtt til hliðar svo hún geti verið leiðtogaefni flokksins í komandi kosningum. Það hefur aldrei gerst fyrr að flokkur bjóði fram sem leiðtogaefni í kosningum manneskju sem aldrei hefur verið kjörin til trúnaðarstarfa innan eigin flokks eða verið virk í flokksstarfinu. Ingibjörg hefur til þessa verið fulltrúi þriggja flokka á borgarstjórastóli og ekki verið beinn þátttakandi í flokkspólitísku starfi. Það breytist nú þegar hún verður leiðtogaefni Samfylkingarinnar á landsvísu. Verður athyglisvert að sjá leiðtogaefni tjá sig (vonandi opinskátt) um málefni samtímans. Það verður eflaust fróðlegt sérstaklega fyrir landsbyggðarfólk að heyra áherslur hennar t.d. í byggðamálum og samgöngumálum. Athygli vekur þó að ganga hennar í forystusveit síns flokks er blúndulögð, aldrei þarf hún að fara í prófkjör eða verða kjörin til forystu til að á styrk hennar reyni. Það er eflaust leitun að stjórnmálamanni sem hefur getað komist áfram með því að vera dregin þangað af öðrum. Nú mun hinsvegar reyna á persónu þessa svokallaða leiðtoga sem fer í slaginn án umboðs til forystustarfa innan eigin flokks. Hún kemst ekki hjá því að hafa skoðanir og pólitíska sannfæringu frekar en aðrir sem ætla sér eitthvað í pólitík. Fjalla nánar um leiðtoga án umboðs í pistli á heimasíðu Stefnis í dag.

Fræðandi þættir
Seinustu fimmtudagskvöld hefur Sjónvarpið sýnt athyglisverða heimildarþætti Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Ólafs Þ. Harðarsonar um 20. öldina. Í þessum þáttum er farið ítarlega yfir sögu þjóðarinnar á seinustu öld. Athyglisverðar svipmyndir frá fréttum aldarinnar er blandað við viðtöl við fólk sem setti sterkan svip á þetta tímabil. Í gær var fjallað um viðreisnartímabilið, 1959-1971. Sérstaka athygli mína vakti margt fróðlegt efni sem ekki hefur verið sýnt frá lengi, t.d. gömul viðtöl og fréttasvipmyndir. Mér hefur alltaf líkað íslenskt fræðandi efni og fagna því að þessir þættir séu sýndir, það er alltaf gaman að kynnast betur sögu þjóðarinnar.