Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 mars 2003

Óskarinn 2003 - farið yfir úrslitin
Í nótt voru Óskarsverðlaunin 2003 afhent í Los Angeles í 75. skipti. Eins og venjulega var athyglisvert og ekki síður skemmtilegt að fylgjast með herlegheitunum. Kvikmyndin Chicago var valin besta kvikmynd ársins 2002 og hlaut alls sex óskarsverðlaun. Eftirminnilegustu úrslit kvöldsins var hiklaust þegar hinn umdeildi Roman Polanski hlaut leikstjóraóskarinn fyrir The Pianist og svo vakti óneitanlega athygli að þau fjögur sem unnu leikaraóskarana fyrir magnaðar leikframmistöður sínar höfðu aldrei áður fengið verðlaunin. Ég ætla nú að fara yfir helstu flokkana og tjá mig örlítið um úrslitin.

Kvikmynd ársins
Það þótti mörgum borðliggjandi að Chicago myndi hljóta þann heiður að vera valin besta mynd síðasta árs og fór það svo. Hún keppti í þessum flokki við fjórar frábærar myndir; The Pianist, Gangs of New York, The Hours og The Lord of the Rings: The Two Towers. Þetta er í fyrsta skipti í 35 ár sem söngleikur hlýtur þessi verðlaun, síðasti söngleikur til að hljóta Óskarinn sem besta myndin var Oliver árið 1968, þetta eru því að mörgu leyti athyglisverð úrslit og aldrei að vita nema tími söngleikjanna sé að renna upp á ný. Það vekur athygli að Hringadróttinssögu er hafnað enn á ný, en óumdeilt er að þetta sé eitt magnaðasta kvikmyndaverk í sögu kvikmyndanna. Það er óskandi að akademían muni á næsta ári veita seinasta hluta trílógíunnar þessi verðlaun til að bæta upp fyrir þetta.

Leikstjóri
Óvæntustu úrslit kvöldsins voru hiklaust í þessum flokk. Óumdeilt er að The Pianist, kvikmynd leikstjórans Romans Polanski sé ein af allra bestu myndum ársins. Margir höfðu þó talið að leikstjórinn myndi ekki hljóta náð fyrir augum akademíunnar vegna mála sem ekki verða rakin hér en eru flestum kunn. Flestir höfðu veðjað á að Martin Scorsese eða Rob Marshall myndu hljóta Óskarinn í þessum flokki. Flestum að óvörum sigraði Roman Polanski í þessari kategóríu. Það er ánægjulegt að akademían lét ekki hin umdeildu mál tengd leikstjóranum hafa áhrif á sig við valið á sigurvegaranum. Polanski var heiðraður fyrir meistaraverk sitt og glæsilegan feril, en hann á að baki frábærar myndir á borð við Chinatown, Rosemary´s Baby, Tess, Frantic og Bitter Moon. Sigur hans var verðskuldaður, enda The Pianist sannkölluð úrvalsmynd. Það er gott að vita að farið sé eftir verkum leikstjóranna og gæðum þeirra. Margir höfðu veðjað eins og fyrr segir á Scorsese og Marshall. Scorsese vegna þess að hann hefur ekki hlotið verðlaunin fyrr, þrátt fyrir að hafa verið tilnefndur t.d. fyrir Raging Bull og Goodfellas. Marshall vegna þess að hann hlaut DGA-verðlaunin, en nú sannast að það er ekki algild regla að handhafi þeirra verðlauna hljóti leikstjóraóskarinn. En sigur Polanski er verðskuldaður, alveg hiklaust.

Leikari í aðalhlutverki
Adrien Brody hlaut Óskarinn í þessum flokk fyrir magnaða túlkun sína á Wladyslaw Szpilman í The Pianist. Margir höfðu veðjað á að valið stæði á milli Daniel Day-Lewis og Jack Nicholson sem fóru á kostum í sínum myndum og annar þeirra myndi hljóta Óskarinn, svo fór ekki. Brody uppskar ríkulega. Sigur hans var verðskuldaður, enda heldur hann uppi þessari frábæru mynd. Það verður athyglisvert að fylgjast með leikferli hans á næstu árum, þessi þrítugi New York-búi er hiklaust ein af stjörnum framtíðarinnar.

Leikkona í aðalhlutverki
Nicole Kidman stóð lengi í skugga fyrrum eiginmanns síns, Tom Cruise. Nú er hann í skugganum á henni. Seinustu tvö ár hefur hún farið á kostum í hverri stórmyndinni á fætur annarri. Nægir þar að nefna The Others, Moulin Rouge og Birthday Girl. Hlutverk Virginiu Woolf í The Hours er besta hlutverk Nicole á ferli hennar og hún hlaut verðskuldað Óskarinn fyrir leik sinn. Margir höfðu talið að í þessum flokk myndi valið standa á milli hennar og Renée Zellweger. Báðar voru góðar í sínum myndum. Sigur Kidman var verðskuldaður og er hún nú endanlega komin í hóp bestu leikkvennanna í Hollywood nútímans.

Leikari í aukahlutverki
Í þessari kategóríu voru fimm frábærir leikarar tilnefndir og var varla hægt að gera upp á milli þeirra. Persónulega fannst mér þrír þeirra standa uppúr; Paul Newman, Chris Cooper og Christopher Walken. Chris Cooper vann Óskarinn verðskuldað fyrir magnaða túlkun sína á John Laroche í Adaptation. Mikla athygli vakti þegar hann var ekki einu sinni tilnefndur fyrir frábæran leik sinn í American Beauty fyrir þrem árum. Nú var hans stund komin. Stórkostlegur leikari sem á þetta svo sannarlega skilið.

Leikkona í aukahlutverki
Catherine Zeta-Jones mætti á óskarsverðlaunahátíðina kasólétt og fór á kostum, t.d. þegar hún flutti ásamt Queen Latifah lagið I Move On úr Chicago. Í þessum flokk voru rétt eins og öllum hinum leikarakategóríunum fólk sem allt verðskuldaði að vinna. Fyrirfram var vitað að Zeta-Jones og Meryl Streep þættu líklegastar til að hljóta verðlaunin. Catharine var stórfengleg sem skassið Velma Kelly í Chicago og hlaut fyrir leik sinn t.d. BAFTA- og SAG-verðlaunin. Mest kom mér á óvart hversu vel hún syngur og dansar í myndinni. Sigur hennar þótti mér mjög verðskuldaður. Frábær leikkona.

Þetta var skemmtileg Óskarsverðlaunahátíð, og var margt af skemmtilegu efni í útsendingunni. Að mínu mati var hápunkturinn þegar óskarsverðlaunaleikkonan Olivia De Havilland kynnti 59 óskarsverðlaunaleikara seinustu 75 ára til sögunnar og var gaman að fylgjast með akademíunni heiðra þessa leikara sem markað hafa spor í kvikmyndasöguna. Peter O´Toole fór á kostum er hann tók við heiðursóskarnum, ræðan hans var ein sú allra besta í nótt, boðskapurinn í henni var góður og hann vann sennilega sinn mesta leiksigur þegar hann tók við þessari viðurkenningu. Það var löngu orðið tímabært að hann myndi fá óskarsstyttu en alltof oft hefur hann verið sniðgenginn. Það er ótrúlegt að þessi frábæri leikari hafi ekki hlotið leikaraóskar, þrátt fyrir að hafa átt stórleik í myndum eins og t.d. Lawrence of Arabia, The Ruling Class, Becket, Lion in Winter, Goodbye Mr. Chips, The Stunt Man og My Favorite Year. Einnig var mjög ánægjulegt að sjá Eminem hljóta óskarinn fyrir magnað lag sitt úr 8 Mile. Steve Martin fór algerlega á kostum sem kynnir kvöldsins, en þetta var annað skiptið sem hann er kynnir, fyrra skiptið var 2001. Hann mun án vafa vera í þessu hlutverki oftar. En eftir stendur að ekkert er öruggt þegar þessi verðlaun eru annars vegar og það geta alltaf óvæntustu hlutir gerst, það fór ekki allt eins og spáð var og hátíðin var meira spennandi nú en oft áður og á margan hátt jafnari en oft áður. Þessi hátíð er alltaf jafn skemmileg, þetta er uppskeruhátíð kvikmyndaheimsins og hún er ómissandi. Fastur punktur í tilverunni ár hvert!