Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 apríl 2003

Kristján telur sjálfan sig niður!
Skemmtileg þankabrot á Íslendingi: "Málflutningur Kristjáns L. Möllers er lýsandi fyrir hvað hann stendur fyrir eða stendur ekki fyrir í pólitík. Stundum tekur hann sterkt til orða eins og sannfæring búi að baki. Sérstaklega var það áberandi, meðan langt var til kosninga og fólk hér fyrir norðan tók ekki svo mjög eftir því sem hann sagði. En nú er hann kominn innan um fólk og sannfæringin er ekki eins sterk og áður. Hann finnur sterka andstöðu á Siglufirði, hér við Eyjafjörð og í Fjarðabyggð við þá stefnu Samfylkingarinnar að taka 10% af aflaheimildunum eignanámi og bjóða upp á frjálsum markaði. Hann hefur verið minntur á, hvað þetta þýðir fyrir rækjuvinnsluna á Siglufirði og fyrir frystihúsin við Eyjafjörð og á Austurlandi. Þá byrjar hann strax að slá af eins og hann sé kominn á pólitískan uppboðsmarkað með öfugum formerkjum. Við erum reiðubúin til að tala um eitthvað minna en 10% af aflaheimildunum sagði hann í Aksjón á dögunum. Við erum tilbúin að ræða lægri tölu í Samfylkingunni. Eigum við að segja 2,5%? Það var eftirtektarvert, að í umræðuþættinum var hann fýldur yfir því, að landsfundur Sjálfstæðisflokksins skyldi samþykkja það í atkvæðagreiðslu, að línutvöföldun skyldi tekin upp. Það hefur ekki þekkst í hans flokki upp á síðkastið, að önnur rödd heyrist en röddin eina og aðrir mega ekki taka til máls nema til að mæra hana. Eins og Kristján gerði í Aksjón: "ég tek eftir því að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn eru alveg rosalega fúlir og pirraðir yfir að það skuli vera mynd af þessari glæsilegu konu þarna..." og "hún er dregin þarna fram fyrir til þess að reyna að bjarga flokknum," segir hann."