Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 apríl 2003

Allt komið á fullt í kosningabaráttunni
Rúm vika er síðan aðalkosningaskrifstofa okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi opnaði. Hún er í Kaupangi við Mýrarveg og er opið þar milli kl. 9:00 og 19:00. Einnig hafa verið opnaðar skrifstofur á Egilsstöðum, Húsavík, Siglufirði og Ólafsfirði og munu fleiri bætast við eftir því sem styttist í kosningar. Það er alveg óhætt að segja að mikið fjör sé í baráttunni og nóg um að vera hjá okkur hinum virku flokksmönnum sem tökum þátt í baráttunni. Frambjóðendur eru á fleygiferð um kjördæmið og mjög margir hafa litið á kosningaskrifstofurnar og greinilegt að stemmningin er góð nú þegar styttist í kosningar. Á mánudag kemur Davíð Oddsson forsætisráðherra, til Akureyrar og heldur fund í Sjallanum um kvöldið, ásamt Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Hvet ég allt sjálfstæðisfólk til að mæta á fundinn með formanni og varaformanni flokksins. Fyrr um daginn, býður forsætisráðherra ungu fólki að ræða kosningamálin við sig á Kaffi Akureyri milli kl. 15:00-17:00. Hvet unga fólkið að mæta og ræða málin við Davíð.

Mánuður til kosninga - spennandi barátta
Í dag birtist fyrsta grein mín á hinum nýja og stórglæsilega frelsisvef. Er ég þar að skrifa um kosningabaráttuna. Nú þegar mánuður er til alþingiskosninga er kosningabaráttan að ná hámarki og búast við snarpri og spennandi baráttu á seinustu vikunum, einkum seinustu 20 dögunum eftir páska. Nú eru kosningastefnuskrár stjórnmálaflokkanna komnar fram og er athyglisvert að kynna sér stefnur flokkanna í hinum ýmsu málum sem snerta kjósendur í landinu og fjölskyldur þeirra. Á fjölmennum landsfundi Sjálfstæðisflokksins kom fram að sjálfstæðismenn vildu á næsta kjörtímabili lækka tekjuskatt um 4%, afnema eignarskatta, lækka um helming virðisaukaskatt á matvæli, bækur, húshitun, rafmagnskostnað og öðru sem tilheyri lægri virðisaukaskattsþrepinu, hækka barnabætur um 2000 milljónir króna, lækka öll skattþrep erfðafjárskatts og auka skattfrelsi vegna viðbótar framlaga í lífeyrissparnað. Sjálfstæðismenn hafa hingað til ekki lofað beinum skattalækkunum fyrir kosningar en hafa þó lækkað þá samt. Um er að ræða bein loforð okkar sem við munum efna ef okkur verður falin stjórn á þjóðarskútunni næsta kjörtímabil. Eins og formaður flokksins sagði sjálfur í ræðu á landsfundi eru sjálfstæðismenn ekki aðeins umræðustjórnmálamenn heldur fyrst og fremst athafnastjórnmálamenn. Skattalækkunartillögur flokksins munu allar verða lögfestar í einu lagi á fyrsta haustþingi eftir kosningar. Þar munu dagsetningar verða nefndar um hvenær breytingarnar tækju gildi á kjörtímabilinu.

Um síðustu helgi var haldið vorþing Samfylkingarinnar og þar var boðið upp á setningarávarp formanns flokksins og stefnuræðu forsætisráðherraefnis flokksins. Vitaskuld er ekki um sömu manneskju að ræða. Í ræðunni sagðist formaðurinn gagnrýna þau "yfirboð" sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði komið fram með á landsfundi sínum. Næst tók til máls fyrrverandi borgarstjóri og einkenndist ræða hennar af yfirboðum þeim sem formaður hennar hafði gagnrýnt svo mjög örfáum andartökum fyrr. Aldrei hefur leikið vafi á að "pópúlismi" er aðalsmerki jafnaðarmannaflokksins, þannig að ræða fyrrverandi borgarstjóra kom ekki svo mjög á óvart. Móttóið er; "Við ætlum að gera allt fyrir alla, en við segjum ekkert hvernig við förum að því fyrr en eftir kosningar". Þetta er sama mottó og fyrrverandi borgarstjóri hefur verið með í seinustu þrem kosningabaráttum í Reykjavíkurborg. Fyrir nokkrum vikum steig talsmaður Samfylkingarinnar fram og sagði að fjölga þyrfti mjög þrepum í tekjuskattskerfi landsmanna. Þó er ekki minnst orði á þetta í kosningastefnuskrá flokksins. Hún hefur eftir vorþing flokksins haldið áfram að nefna þessar tillögur og virðist halda fast í þær. Samfylkingin hefur ekki í hyggju að lækka jaðarskatta, þeim skal halda háum. Mjög athyglisvert er að það fer engan veginn saman við tillögur talsmannsins um fjölþrepa skattkerfi. Eins og reyndir menn hafa bent á fylgir fjölþrepa skattkerfinu að skattleysismörk verða að lækka. Nægir í þeim efnum að líta til Norðurlandanna. Virkar slíkt kerfi á þá leið að þrepunum verði breytt upp á við, með hækkun skatta á þá sem hafa millitekjur og þar yfir. Skyldi það vera það sem Samfylkingin vill? Eins og margir vita var fyrrverandi borgarstjóri þekkt fyrir eitthvað allt annað en að lækka skatta í valdatíð sinni í borginni. Því var lofað af R-listanum fyrir kosningarnar 1994 að hækka ekki skatta, allir þekkja hvernig efndirnar urðu. 1998 lofaði R-listinn að lækka gjöld á borgarbúa, útsvarið var hinsvegar hækkað um haustið.

Sl. þriðjudag voru formenn flokkanna (fyrirgefðu Össur, forystumenn) gestir í sjónvarpssal á Stöð 2. Voru þær umræður um margt athyglisverðar, einkum fyrir þær sakir að þar mættust forsætisráðherra og fyrrverandi borgarstjóri í fyrsta skipti fyrir þessar kosningar í umræðuþætti. Kom vel í ljós að það andaði köldu á milli þeirra, enda hefur fyrrverandi borgarstjóri allt að því útilokað samstarf við okkur sjálfstæðismenn. Þar virðist persónulegt hatur hennar í garð forsætisráðherra vera aðalástæðan. Greinilegt var að ekki voru heldur nein hlýlegheit milli fyrrverandi forystumanns Framsóknarflokksins í R-listanum í borgarstjórn og formanns Framsóknarflokksins, enda virðast þau vera í harðri baráttu um þingsæti í borginni og ekki ljóst hvort bæði sitja eftir með sárt ennið eða bara annað nái inn. Greinilegt var að lítill samhljómur er á milli leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna og töluðu í margar áttir og virðast eiga fátt sameiginlegt. Talsmaður Samfylkingarinnar slær úr og í frá einum sjónvarpsþætti til annars og virðist að mörgu leyti endurspegla vel þann flokk sem hún er í. Ætti að nægja að líta á skattamálin í þeim efnum. Nú virðist fjölþrepa tekjuskatturinn fokinn út í veður og vind og ekki var minnst einu orði á að hafa þungaskatt lægri á Akureyri en í Reykjavík eins og formaður hennar hefur sagt til að reyna að þóknast Kristjáni Möller leiðtoga Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Væri athyglisvert að vita hvernig þeim félögum litist á þögn hennar um tillögur þeirra varðandi fjölþrepa þungaskatt. Eins og fyrr segir er leiðtogaþrenning stjórnarandstöðunnar ekki traustvekjandi, en ljóst er að hún er sá kostur, sem kjósendur hafa gegn leiðtogum stjórnarflokkanna þegar velja skal forystu til næstu ára. Kostirnir í komandi kosningum eru mjög skýrir; viljum við áframhaldandi stöðugleika eða stjórnleysi að hætti vinstri manna í þriggja flokka stjórnum frá fyrri tíð. Svo einfalt er það!