Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 maí 2003

Hafsteinn Þór býður sig fram til formennsku í SUS
Á fundi með ungum sjálfstæðismönnum í Garðabæ á þriðjudag tilkynnti Hafsteinn Þór Hauksson að hann gæfi kost á sér til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna, en nýr formaður verður kjörinn á þingi SUS í september. Núverandi formaður, Ingvi Hrafn Óskarsson, hefur lýst því yfir að hann sækist ekki eftir endurkjöri. Hafsteinn Þór er 25 ára laganemi og varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hann hefur setið í stjórn og áður varastjórn SUS frá árinu 1997. Þá hefur hann gegnt embætti formanns Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ. Hafsteinn Þór lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1998 og er að ljúka laganámi við Háskóla Íslands. "Starf SUS hefur á síðustu tveimur árum einkennst af kosningabaráttu, vegna sveitarstjórna- og alþingiskosninga. Mikilvægt er að nýta næstu tvö ár vel og leggja áherslu á að virkja ungt fólk til stjórnmálaþátttöku og kynna hugsjónir sjálfstæðismanna um aukið frelsi einstaklingsins og minni ríkisafskipti," segir Hafsteinn Þór um helstu verkefni sem eru framundan. "Í samstarfi við aðra stjórnmálaflokka komast stefnumál sjálfstæðismanna ekki alltaf til skila og er því mikilvægt að ungir sjálfstæðismenn sinni áfram því hlutverki að vera samviska flokksins."

Vilhjálmur Þ. leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins
Á fundi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna, sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær kl. 16.00 var ákveðið að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi taki við hlutverki leiðtoga borgarstjórnarflokksins af Birni Bjarnasyni, dóms- og kirkjumálaráðherra og borgarfulltrúa. Björn Bjarnason mun áfram sitja í borgarstjórn en segir sig úr borgarráði. Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi, tekur sæti Björns í borgarráði. Vilhjálmur sem er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá 1982. Hann á að baki margvísleg störf fyrir flokkinn í borgar- og landsmálum og á þetta embætti vel skilið.