Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 maí 2003

Fyrirlestur dr. Gerhard Sabathil á Akureyri
Á fimmtudag heimsótti Dr. Gerhard Sabathil, sendiherra ESB á Íslandi, Háskólann á Akureyri og flutti erindi þar sem hann fjallaði um sjávarútvegsstefnu ESB, stækkun sambandsins og samninga um stækkun EES. Í erindi sínu útilokaði Sabathil ekki að Íslendingar gætu fengið undanþágu í sjávarútvegsmálum, verði á annað borð gengið til viðræðna við sambandið um inngöngu Íslands. Um þessar mundir stendur yfir staðfestingarferli með þjóðaratkvæðagreiðslum í ríkjunum 10 sem stefna að því að ganga formlega í ESB 1. maí á næsta ári, en stjórnvöld þessara ríkja undirrituðu aðildarsamninga í Aþenu fyrr í vor. Ríkin sem hér um ræðir eru Eistland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland. Flest þessara landa hafa veikan efnahag sem hefur gert inngöngu þeirra erfiðari, en þó koma menn auga á ýmis tækifæri við stækkunina m.a. í formi stærri markaða og meiri mannafla. Dr. Sabathil dró það fram í máli sínu, að lítil lönd hefðu hlutfallslega mikil áhrif innan Evrópusambandsins og reynslan sýndi að mikið tillit væri tekið til sérstöðu þeirra og benti í því sambandi á reynslu Slóveníu og Möltu. Hann kvaðst hafa skoðað sérstaklega hvaða ríki það væru sem hefðu fengið mestar undanþágur og sérsamninga í aðildarviðræðum og öfugt við það sem margir héldu, þá væru það fyrst og fremst litlu ríkin sem hefðu fengið undanþágur en ekki stærri ríkin. En áhrifin vegna fyrirhugaðrar stækkunnar sagði hann myndu koma fram á næstu árum. Á erindi sendiherrans mátti skilja að íslendingar gætu ekki útilokað viðræður við Evrópusambandið á þeim grundvelli að undanþágur vegna fiskveiðistjórnunar og sjávarauðlinda fengjust aldrei. Ekkert væri hægt að fullyrða um slíkt fyrr en samningaviðræður hefðu verið reyndar. Fór hann sérstaklega yfir samningaviðræður sambandsins við Möltu og taldi að íslendingar gætu haft þær til viðmiðunar, þar sem stjórnvöld á Möltu fóru fram á ýmsar varnalegar undanþágur frá reglum sambandsins og fengu þær samþykktar.

Undirstrikaði Sabathil í því sambandi að um varanlegar undanþágur væri að ræða enda hefðu aðildarsamningar þá stöðu að flokkast sem grunnnlög í ESB. Sendiherrann kom inn á yfirstandandi viðræður vegna stækkunar EES og þann hnút sem þeir samningar væru í vegna afstöðu Pólverja um að fá aukinn hluta innflutningskvótans í sinn hlut. Taldi hann aðspurður að trúlega væri lausn á því máli í sjónmáli, og vildi skipta vandanum upp í tvennt. Annars vegar stærð kvótans og sú hræðsla Pólverja við að lenda í hráefnisskorti fyrir fiskvinnslur sínar ef kvótinn kláraðist. Hins vegar væri það grundvallarspurningin um hvort hægt væri að mæta kröfu Pólverja um að fá sérstakan landskvóta, þ.e. að ákveðinn hluti kvótans yrði eyrnamerktur Póllandi. Sabathil taldi ólíklegt að það yrði látið eftir Pólverjum að fá landskvóta enda stangaðist slíkt á við grundvallarreglur ESB sem tollabandalags. Hins vegar taldi hann líklegt að við þessu yrði brugðist með þeim hætti að innflutningskvótar verði skilgreindir sem ársfjórðungskvótar, þannig meiri sveigjanleiki væri í kerfinu og minni hætta á að Pólverjar lentu í hráefnisskorti án þess að geta brugðist við því. Einnig taldi hann koma til greina að samþykktur yrði tiltekin neyðarréttur fyrir Pólverja, þannig að ef vinnslan þar í landi stæði frammi fyrir stöðvun vegna hráfefnisskorts myndu önnur ríki fallast á sérstakan tollfrjálsan neyðarinnflutningskvóta frá Íslandi og Noregi, án þess þó að slíkur neyðarkvóti gæfi fordæmi fyrir auknum kvóta almennt. Sendiherrann taldi ólíklegt að þessi mál myndu leysast fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um ESB aðildina í Póllandi sem verður í byrjun júní, þar sem pólsk stjórnvöld vildu ógjarnan gefa eftir áður en farið væri í þá aðgerð. Hins vegar yrði að gagna frá þessum samningum strax eftir þá þjóðaratkvæðagreiðslu og áður en embættismannakerfið í ESB fer í sumarleyfi, ef takast ætti að koma málinu í sama staðfestingarferli hjá þjóðþingum aðildarríkja ESB og stækkunin sjálf fer í. Takist ekki að koma stækkun EES í sama staðfestingarferli og stækkun ESB, má búast við að EES samningurinn sé í uppnámi þar sem óvissa mun ríkja um hvernig hægt sé að framkvæma hann. Var þetta fróðlegur pistill en ansi einstrengingslegur eins og búast mátti sennilega við af kommissar ESB og málsvara þeirra.