Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 maí 2003

Davíð hættir á næsta ári - Halldór tekur við
Í dag urðu stórtíðindi í stjórnmálunum. Það varð þá ljóst að forsætisráðherraferli Davíðs Oddssonar mun ljúka eftir 15 mánuði, í september 2004. Þann 15. september 2004 tekur Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra við embætti forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem verið er að mynda. Á þeim tímapunkti koma utanríkisráðuneytið og umhverfisráðuneytið í hlut Sjálfstæðisflokksins til viðbótar þeim ráðuneytum sem flokkurinn ræður nú yfir. Ekki verða breytingar á skiptingu ráðuneyta milli flokkanna núna. Davíð telur líklegast að hann sitji áfram í stjórn eftir september 2004, þá annaðhvort sem utanríkis- eða fjármálaráðherra. Að sögn Davíðs eru það einna helst sanngirnisrök sem mæli með því að þetta verði niðurstaðan. Flokkarnir hafi starfað saman í átta ár og séu að leggja á djúpið í róður til næstu fjögurra ára. Það sé ljóst að formaður Framsóknarflokksins hafi verið ráðherra i 16 ár, starfað í mörgum ráðuneytum, og hafi mikla reynslu. Nýr stjórnarsáttmáli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var kynntur í þingflokkum síðdegis. Eftir langa fundi kom forsætisráðherra út með fréttirnar. Helsta niðurstaðan í stjórnarsáttmálanum er að sjávarútvegsmálin verða endurskoðuð, t.d. veiðiskylda, línutvöföldun tekin upp. Húsnæðislán verða hækkuð upp í 90% sem var eitt af kosningaloforðum framsóknarmanna. En framsóknarmenn þurftu að gefa eftir í skattamálum sem verða meira á nótum sjálfstæðismanna. Ný ríkisstjórn tekur við völdum á föstudag kl. 13:30. Nýjir ráðherrar verða valdir á morgun.