Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Eitthvað eru þeir hjá Ríkisútvarpinu að vakna uppúr ritskoðunarstandinu, enda var auglýsing Heimdallar lesin í hádeginu í dag. Sú auglýsing sem lesin var hljómaði á þessa leið: "Þessi auglýsing skekkir samkeppnisstöðu fjölmiðla. Einkavæðum Ríkisútvarpið. Heimdallur". Ekki er gott að sjá hvaða munur er á þessari auglýsingu og hinni sem hafnað var í gær. En það er þó gott að vita að stjórnendur þarna í Efstaleiti hafa látið af ritskoðuninni.

Í dag birtist ný skoðanakönnun DV. Þar kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin-grænt framboð hafa bætt við sig fylgi frá þingkosningunum í vor. Hinsvegar hafa Framsóknarflokkur, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn tapað nokkru fylgi.

Olíumálið heldur áfram að vinda upp á sig, fram kemur í dag að borgarstjóri hafi verið yfirheyrður vegna þess með stöðu grunaðs manns. Endurtekur borgarstjórinn í dag að hann hafi traust R-listans vegna málsins. Hversu lengi kjörnir fulltrúar R-listans sem bera ábyrgð á honum muni verja hann verður athyglisvert að fylgjast með.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Tobba góðan pistil þar sem hún fjallar um aðalfund samtaka Hollvinafélags Ríkisútvarpsins. Það er eingöngu sett á fót til að standa vörð um það að ríkið (ég og þú með okkar peningum) reki fjölmiðil. Er undarlegt að fólk leggi nafn sitt við slíkan boðskap og geti glaðst yfir því að verja í raun slík vinnubrögð að hálfu ríkisins. Spurning er hvort ekki sé kominn tími til að við andstæðingar ríkisaðildar á fjölmiðlamarkaði stofnum samtök undir nafninu, Ríkið af fjölmiðlamarkaði! Þessi hugmynd vaknar í mínu hugskoti við pælingar um RÚV og það úrelta rekstrarkerfi sem blómstrar þar í skjóli Framsóknarflokksins sem engu vill þarna breyta. Atli Rafn formaður Heimdallar, skrifar ennfremur pistil um starfsemi innan félagsins. Hún blómstrar nú mánuði eftir aðalfundinn og langt síðan svo blómlegt hefur verið. Gott mál - RÚV vikan heldur svo áfram, ég mun í næsta sunnudagspistli fara vel yfir þessi mál. Það verður mitt framlag til RÚV viku Heimdallar og hægrimanna almennt. Þetta er baráttumál okkar allra!

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Áfram var haldið á Stöð 2 að kynna þá sem urðu í efstu sætum í skoðanakönnun Plúsins fyrir stöðina. Í gær voru kynntir til leiks tveir aðrir í fimm manna hópinn sem kosið verður á milli. Það voru þau Davíð Oddsson forsætisráðherra, og Bryndís Schram sem þá voru kynnt til leiks. Á morgun verður tilkynnt nafn fimmta og seinasta aðilans, sem er sennilega sitjandi forseti. Í framhaldinu verður kosið á milli þeirra eins og fyrr segir. Ennfremur var rætt í Íslandi í dag um 90% húsnæðislánin sem Framsókn vill keyra í gegn. Um það ræddu þeir Hjálmar Árnason þingflokksformaður Framsóknarflokksins og Lúðvík Bergvinsson alþingismaður. Er ég algjörlega mótfallinn þessum hugmyndum og tek heilshugar undir ályktun SUS-stjórnar í vor. Í Kastljósinu var rætt um þann skelfilega sjúkdóm átröskun. Var sýnt ennfremur brot úr þætti um konu sem haldin er þessum sjúkdómi og sýndur var á mánudagskvöld. Skelfilegt alveg. Missti því miður af þættinum um daginn og horfi á hann í endursýningu. Mikilvægt er að berjast af krafti gegn þessum skelfilega sjúkdómi.

Sjónvarpsgláp - spjall - bækur
Eftir dægurmálaþættina horfði ég á The Amazing Race. Æsispennandi þáttur, magnað kapphlaup um heiminn. Af 12 liðum eru nú 6 eftir og duttu blökkukonurnar Monica og Sheree út í gær. Þetta verður spennandi á næstu vikum og fylgst vel með þessu. Eftir þáttinn átti ég nokkur símtöl vegna SUS-fundarins í dag, ég fer suður seinna í dag vegna hans og á ritnefndarfund hjá frelsi.is, þar sem línurnar í umfjöllun næstu vikna á vefnum verða lagðar. Að því loknu fór ég á bláu könnuna og hitti Helgu og Gylfa og röbbuðum við þar um pólitík almennt og ýmislegt fleira yfir kakó og tertusneið. Virkilega gott spjall. Að því loknu var haldið heim og klárað að lesa ævisögu Einars Ben, hef verið að lesa hana í þriðja sinni seinustu vikuna og haft gaman af. Nú verður tekið til við að lesa ævisögu Ólafs Thors forsætisráðherra.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á menntagátt.is, vef Menntamálaráðuneytisins. Meginmarkmið menntamálaráðuneytisins með uppbyggingu Menntagáttar er að veita skólum greiðan aðgang að upplýsingum og þjónustu sem er aðgengileg á Netinu. Góður og gagnlegur vefur.

Snjallyrði dagsins
Þú frelsisást, sem fjötur engan ber, um fangans múr þinn ljómi bjartast skín.
Byron lávarður