Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 nóvember 2003

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, sagði á Alþingi í gær að hann teldi alla stærstu banka landsins vera komna út á hála braut með afskiptum sínum og beinum inngripum í íslenskt atvinnulíf. Að hans mati væru bankarnir komnir langt út fyrir þau mörk sem þeir ættu að sinna og í raun út fyrir skyldur sínar gagnvart almenningi. Að mati forsætisráðherra ber bönkunum að halda sér að sínum verkefnum. Einkum var Davíð harðorður í garð Kaupþings - búnaðarbanka, sem hann sagði hafa tekið þátt í viðskiptabrellum í kringum eigendaskipti á Stöð 2 fyrir tæpri viku. Hann sagði að frumskilyrði væri að eignarhald á fjölmiðlum væri ljóst. Stundum væri látið í veðri vaka Kaupþing - búnaðarbanki ætti sjónvarpsstöðina en ennfremur látið í veðri vaka að tiltekinn nafngreindur einstaklingur í kaupsýslu ætti stöðina. Var það mat forsætisráðherra að bæði væri óboðlegt að slíkt ástand væri uppi og það að einn stærsti banki þjóðarinnar tæki þátt í slíkum viðskiptabrellum af þessu tagi.

Bush forseti og Elísabet EnglandsdrottningOpinber heimsókn Bush forseta, til Bretlands stendur nú sem hæst. Í dag hitti forsetinn Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, á fundi í London, þar sem aðalumræðuefnið var framtíðarstaða mála í Írak, staða kjarnorkumála, fátækt í heiminum, alþjóðaviðskipti og ástandið í Norður Kóreu. Að fundinum loknum var haldinn ítarlegur blaðamannafundur leiðtoganna sem ég fylgdist með á fréttavef BBC. Í dag munu mótmæli friðarsinna og andstæðinga Bandaríkjanna ná hámarki. Samkvæmt fréttum frá London er reiknað með því að allt að 100.000 mótmælendur muni mótmæla Bush í ferð hans til Bretlands. Í gærkvöldi var haldinn formlegur kvöldverður í höllu drottningar og þar flutti forsetinn athyglisverða ræðu. Á morgun mun forsetinn heimsækja Sedgefield, kjördæmi forsætisráðherrans og að því loknu halda aftur til Bandaríkjanna.

Sigurður Kári KristjánssonLagt verður fram á Alþingi frumvarp um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Mun það koma úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eru þingmenn sem vilja að RÚV verði einkavætt og leggja mikla áherslu á þá skoðun sína. Breytir engu um þó formaður flokksins hafi sagt á þingi að ekki komi til greina að einkavæða RÚV. Öllum er frjálst innan Sjálfstæðisflokksins að tjá sínar skoðanir og leggja áherslu á sín mál. Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, sem er meðflutningsmaður að frumvarpinu með Pétri H. Blöndal, segir sviptingar á fjölmiðlamarkaðnum nú í raun engu breyta og tjáði sig um málið í ræðustól þingsins nú í hádeginu. Er ég hlynntur þessu frumvarpi og hef reyndar mikið tjáð mig um málefni RÚV og lagt áherslu á þessa hlið málsins.

Ragnar JónassonSvona er frelsið í dag
Í góðri grein á frelsinu fjallar Ragnar um RÚV mál í kjölfar RÚV-viku Heimdallar fyrir nokkrum vikum. Segir hann þar að til standi að stofna fleiri rásir á vegum Ríkisútvarpsins. Frá því hafi verið greint í fréttum að RÚV og verkfræðideild HÍ ætli að gera tilraunir með stafrænar útsendingar sjónvarps og útvarps á höfuðborgarsvæðinu. Liður í því væru útvarpssendingar á FM 87,7 þar sem klassískri tónlist verði aðallega útvarpað. Klassísk tónlist á vegum hins opinbera. Segir Ragnar að RÚV ætli ekki að láta þar við sitja, heldur hafi útvarpsstjóri sagt í fréttum RÚV frá hugmyndum um enn fleiri ríkissjónvarpsstöðvar, t.d. fyrir íþróttir, íslenskt barnaefni og fleira. Það harmar Ragnar enda þetta allt verkefni sem einkaaðilar geta sinnt og það mun betur en ríkið. Er ég alveg sammála orðum Ragnars. Það er tímaskekkja að ríkið reki fjölmiðla og enn meiri tímaskekkja að þeim eigi að fjölga með þessum hætti. Algjörlega óviðunandi. Ennfremur birtist á frelsinu, snubbótt svar formanns útvarpsráðs við spurningum og ennfremur sagt frá athyglisverðri grein um Evrópumál.

PressukvöldDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi var athyglisvert viðtal í Kastljósinu við Flosa Arnórsson stýrimann, sem sat eins og margir muna lengi ársins í fangelsi í Dubai fyrir vopnaeign. Kom margt fróðlegt fram í viðtali Sigmars við Flosa. Seinna um kvöldið var Sigurður G. Guðjónsson forstjóri Norðurljósa, gestur þriggja fréttamanna í Pressukvöldi Sjónvarpsins. Þar var hann spurður margra krefjandi spurninga um stöðu fyrirtækisins, eigendaskipti á því og mörgu fleiru sem hefur verið í umræðunni. Pressukvöld er góð viðbót við spjallþætti um það sem hæst ber á líðandi stundu. Mætti þátturinn þó vera lengri og ítarlegri en nú er.

Bonnie og ClydeKvikmyndir - pistlaskrif - MSN spjall
Í gærkvöldi horfði ég á hina klassísku kvikmynd Bonnie and Clyde með Faye Dunaway og Warren Beatty. Eru um 12 ár síðan ég sá þessa mynd fyrst og nokkur ár síðan ég keypti mér hana, horfi reglulega á hana. Ein af bestu kvikmyndum sjöunda áratugarins. Segir frá frægasta glæpapari seinustu aldar. Um hríð komust þau Bonnie og Clyde upp með að ræna hvern bankann á eftir öðrum. Leikstjórinn Arthur Penn er hér í sínu besta formi og er myndin skemmtilega hröð og grimm. Þó er hún merkilega fyndin í öllum óhugnaðinum. En hún er óvægin, aldrei höfðu afbrotamenn fengið aðra eins útreið og söguhetjurnar fengu í sögulok. Hreint sígild mynd sem verðskuldar einungis það besta, ég mæli eindregið með henni við þá sem ekki hafa séð hana. Eftir myndina fór ég að undirbúa pistil sem ég er að vinna að um JFK, en á laugardag eru fjórir áratugir frá því að hann var myrtur. Átti ég svo ennfremur gott spjall á MSN við vini.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á fréttavef Morgunblaðsins, besta íslenska fréttavefinn. Þar eru á hverjum degi góðar og ferskar fréttir og kraftmikil umfjöllun um málefni dagsins í dag.

Snjallyrði dagsins
Við getum ekki unnið nein stórvirki, heldur eingöngu smáverk með mikilli ást.
Móðir Teresa (1910-1997)