Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 febrúar 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, sagði í ítarlegri ræðu á Viðskiptaþingi í gær, að of mikil samþjöppun í efnahagslífinu væri í hans huga óæskileg og dulbúin frelsisskerðing. Að hans mati hafi kostað mikil pólitísk átök að ná allgóðri samstöðu um að ríkið hætti að leika aðalhlutverkið á íslenskum markaði og sá árangur hefði ekki náðst ef ekki hefði komið til skilningur fólksins í landinu á mikilvægi þess máls. Sagðist Davíð vera sannfærður um að stuðningur við þessa stefnu myndi fljótt fjara út ef þess væri ekki gætt að jafnvægi ríki á markaðnum og ekki gíni of fáir yfir of miklu. Þá sagði Davíð að það væri beinlínis hættulegt, að fyrirtæki sem væri í markaðsráðandi stöðu, ætti jafnframt fjölmiðla. Orðrétt sagði hann: "Öflugir, traustir og heiðarlegir forustumenn í viðskiptalífi eru drifkraftur og velgjörðarmenn í frjálsum ríkjum og gera borgarana bjargálna. Þeir eiga að blasa við þegar fólkið horfir til fyrirmynda í efnahagsmálum en ekki fáeinir fjárplógsmenn ágjarnir, sem engu eira. Það er ekki sjálfgefið að við Íslendingar búum við lága skatta, jafnvægi í ríkisfjármálum, vaxandi kaupmátt og stöðugan hagvöxt. Það eru, því miður, sorglega mörg dæmi um hið gagnstæða víða um veröld, og ekki síst í okkar eigi sögu. Ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um að skipa nefnd til að kanna þörf á sérstökum aðgerðum vegna hringamyndunar, var því bæði rétt og tímabær og skilar vonandi árangri,”.

ReykjavíkÍ borgarstjórn Reykjavíkur var í dag umræða um þriggja ára áætlun R-listans um fjármál borgarinnar. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur sent frá sér athugasemdir vegna áætlunarinnar. Hreinar skuldir á hvern íbúa án lífeyrisskuldbindinga voru aðeins 41 þúsund krónur árið 1993 en verða orðnar 593 þúsund krónur árið 2005. Þær hafa rúmlega fjórtánfaldast á þessu tímabili! Orðrétt segir í tilkynningu borgarfulltrúa D-listans: "Frumvarpið sýnir glöggt að R-listinn ræður ekki við skuldaþróunina í Reykjavík. Skuldirnar halda áfram að hækka og munu fyrirtæki borgarinnar bera hitann og þungann af þeim skuldabagga. Samkvæmt áætluninni mun áætlað veltufé frá rekstri ekki standa undir áformuðum fjárfestingum og gildir það um öll umrædd ár. Boðskapur þessarar þriggja ára áætlunar er því áframhaldandi skuldaaukning. Árið 2007 stefna hreinar skuldir Reykjavíkurborgar í 74 milljarði króna. Miðað við hvernig áætlanir R-listans hafa staðið hingað til má gera ráð fyrir að þessi upphæð verði mun hærri þegar þar að kemur. Hreinar skuldir voru um 4 milljarðir árið 1993 en verða um 68 milljarðir árið 2005". Blindkeyrsla R-listans í málefnum borgarinnar vekur enn og aftur athygli. R-listinn sem lafir saman valdanna vegna virðist enga burði hafa til stórræða./

Wesley ClarkWesley Clark fyrrum hershöfðingi, tilkynnti í gær að hann myndi draga sig í hlé úr forsetaslagnum innan Demókrataflokksins, eftir 5 mánaða kosningabaráttu. Clark tilkynnti þetta eftir að hafa orðið þriðji í forkosningum í Virginíu og Tennessee. Naut hann mikils fylgis í upphafi baráttu sinnar en smá saman seig á ógæfuhliðina. Talið er líklegast að Clark, muni á morgun lýsa yfir formlegum stuðningi við framboð John Kerry. Mun stuðningur hans, ef af verður, verða mikilvægur fyrir Kerry, í Suðurríkjunum í þeim átökum sem framundan eru og jafnvel tryggja endanlega sigur hans í Wisconsin á þriðjudag. Eftir eru nú fimm í forsetaslag demókrata: Howard Dean, John Edwards, John Kerry, Dennis Kucinich og Al Sharpton. Kerry hefur nú 538 kjörmenn, Dean 182, Edwards 166, Sharpton 12 og Kucinich 2. Bendir flest til þess að úrslit í kosningaslag liggi fyrir seinna í þessum mánuði, enda hefur frambjóðendum nú fækkað um þrjá á tæpum mánuði.

SUSVinnuvika Varðar
Í dag birtist í Mogganum ítarleg grein okkar Atla Hafþórssonar ritara Varðar, um sjávarútvegsmál, vegna vinnuviku Varðar. Orðrétt segir þar: "Það virðist vera búið að koma þeirri pólitísku firru inn hjá mörgum að kvóti sé hin algera lausn á vanda byggðarlagana. Það hefur hins vegar komið í ljós að svo er ekki. Af hverju fjölgar ekki á stöðum þar sem kvóti hefur aukist? Kann það að vera að pólitískar ofsóknir á greinina séu stærsti vandinn? Hver vill vinna undir þeim hótunum vissra stjórnmálamanna að allt sem þeir hafi áorkað í gegnum tíðina verði tekið af þeim með einu pennastriki?". Gaman var að koma að þessari grein með Atla, hann hefur lengi fylgst vel með sjávarútveg, enda sjóhundur mikill og hefur starfað mikil til sjós og þekkir þennan málaflokk vel. Áttum virkilega gott samstarf vegna þessa pistils. Ennfremur birtist í dag á Íslendingi, grein okkar Sigurgeirs Valssonar um menningarmál. Þar segir orðrétt: "Það er að okkar mati mjög mikilvægt blómlegt menningarstarf fái að dafna sem mest. Æskilegt er að einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera sameinist um að tryggja að svo verði. Það er þó útgangspunktur í menningarlífi að frumkvæði og gróska í allri menningarstarfsemi liggi hjá einstaklingunum. Þeim er hvað best treystandi fyrir því að tryggja blómlegt menningarlíf." Í dag birtist svo á vefnum ítarleg stefna félagsins í sjávarútvegs- og menningarmálum.

Kristinn Már ÁrsælssonSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu, fjallar Kristinn Már um frelsið vegna greinaskrifa á pólitík.is, vef ungra jafnaðarmanna. Orðrétt segir Kristinn: "Skilgreiningar á frelsi eru almennt neikvæðar. Frelsi samkvæmt neikvæðri skilgreiningu er frelsi til að gera eitthvað án þess að eiga á hættu að vera beittur ofbeldi eða kúgun af hálfu einhvers. Sem nefna má að ef ríkisvaldið myndi ákveða hvar hver og einn ætti að búa værum við svipt frelsinu til þess að ákvarða um eigin búsetu. Við njótum hins vegar þess frelsis, annað væri augljóslega hróplegt óréttlæti Oftast er talað um frelsi frá kúgun og ofbeldi og einnig frelsi til þess að gera þá hluti sem maður vill gera svo framarlega þeir felist ekki í því að kúga aðra menn með ofbeldi. Sumir, sérstaklega vinstrimenn, vilja skilgreina frelsið jákvætt. Jákvætt skilgreint frelsi er frelsi til einhvers. Til dæmis frelsi til menntaþjónustu, sem greitt er fyrir með fé annarra og safnað er saman með lögregluvaldi. Til þessa að einn verði frjáls þarf að neyða annann til að gera eitthvað. Menn eru samkvæmt þessu í raun ekki frjálsir nema þeir hafi ýmsa kosti og/eða gæði. Þannig vilja sumir meina að aukin þekking jafngildi auknu frelsi." Ennfremur eru á frelsinu umfjöllun um afmæli vefsins og um Viðskiptaþing.

Easy RiderKvikmyndir - sjónvarp - MSN spjall
Eftir kvöldfréttirnar var horft á kvikmyndina Easy Rider. Sígild og næstum sagnfræðileg gullaldarheimild um hippaheimspeki sjöunda áratugarins. Hér segir af blómabörnunum Billy og Wyatt sem leggja uppí ferð til að skoða gervalla Ameríku. Sú verður þeirra síðasta. Þeir verða loks fórnarlömb þess hugsunarháttar sem börðust á móti. Á leiðinni kynnast þeir fjölmörgum skrýtnum landanum, m.a. þeirra er George Hanson, en hann er lögfróður drykkjurútur sem ákveður að slást í för með þeim félögum. Hiklaust, ein af mest stefnumótandi myndum sjöunda áratugarins og jafnvel kvikmyndasögunnar, enda eru eftirlíkingarnar af henni orðnar óteljandi. Kostaði smáaura en halaði inn milljónum dollara og varð ein af vinsælustu kvikmyndum sjöunda áratugarins og hefur unnið sér merkan sess í kvikmyndasögunni. Dennis Hopper og Peter Fonda fara á kostum í hlutverkum ferðafélaganna og óskarsverðlaunaleikarinn Jack Nicholson er hreint ógleymanlegur í hlutverki George Hanson. Eftir myndina var horft á tíufréttir og Pressukvöld RÚV þar sem rætt var við Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins. Gott viðtal við Einar og kom hann vel út úr þessu spjalli. Eftir það átti ég gott spjall við vini á MSN.

Dagurinn í dag
* 1918 Útgáfa Dags á Akureyri hófst. Varð að dagblaði árið 1985, en hætti að koma út 1997
* 1919 Konungsúrskurður gefinn út um skjaldarmerki Íslands - merkinu var breytt 1944
* 1940 Almenn hegningarlög sett - eru aðallagaboðið hérlendis á sviði refsiréttar
* 1991 Ísland viðurkennir formlega sjálfstæði Litháens í miðri sjálfstæðisbaráttu Litháa
* 1994 Málverkinu Ópinu eftir Edvard Munch, stolið í Osló

Snjallyrði dagsins
You have no call to get snippy with me; I'm just trying to do my job here.
Marge Gunderson í Fargo