Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 febrúar 2004

Peter JacksonHeitast í umræðunni
Kvikmyndin The Lord of the Rings: The Return of the King var valin besta kvikmynd ársins 2003 þegar bresku kvikmyndaverðlaunin, Bafta, voru afhent í London í gærkvöldi. Myndin hlaut áhorfendaverðlaun ársins og ennfremur fyrir besta handrit, kvikmyndatöku og tæknibrellur. Bill Murray og Scarlett Johansson, er léku aðalhlutverkin í kvikmynd Sofiu Coppola, Lost in Translation voru nokkuð óvænt valin besti leikarinn og leikkonan. Peter Weir var valinn besti leikstjórinn fyrir mynd sína Master and Commander: The Far Side of the World en sú mynd fékk alls fern verðlaun. Óvænt þótti að Peter Jackson hlaut ekki verðlaunin fyrir Hringadróttinssögu. Renée Zellweger var valin besta leikkona í aukahlutverki fyrir myndina Cold Mountain. Myndin fékk 13 tilnefningar en hlaut tvenn verðlaun. Bill Nighy var valinn besti leikari í aukahlutverki fyrir myndina Love Actually. Mikla athygli vakti fyrir kvikmyndahátíðina að fáir breskir leikarar voru tilnefndir þessu sinni. Á seinustu árum hefur Bafta fest sig í sessi sem ein af helstu kvikmyndahátíðum heims og er komin þar á svipaðan stall og Golden Globe og Óskarsverðlaunin og vilja oft gefa góða mynd um hvað gerist á Óskarnum. Óskarsverðlaunin verða afhend, sunnudaginn 29. febrúar nk. og verður athyglisvert að sjá hvort verðlaunin fara nærri Bafta í vali að þessu sinni.

Frelsi.is í fimm árÍ dag eru fimm ár liðin frá því að frelsi.is, vefur Heimdallar, var opnaður á 72 ára afmæli Heimdallar. Það var eitt af fyrstu íslensku pólitísku vefritunum og hefur frá upphafi verið öflugur vettvangur fyrir skoðanir ungra sjálfstæðismanna og í fararbroddi í málflutningi Sambands ungra sjálfstæðismanna og virkasta vefsíða ungra hægrimanna. Eins og segir á frelsi.is var vefsíðan stofnuð með það að markmiði að efla umræðu um frelsi einstaklingsins, birta daglega pistla og safna saman blaðagreinum sem ungir sjálfstæðismenn skrifa, frelsinu til varnar. Þetta eru merk tímamót hjá okkur frelsispennum og mikill áfangi. Við höfum barist af krafti fyrir að tjá skoðanir sjálfstæðisstefnunnar í fimm ár og erum bara rétt að byrja. Vefurinn hefur sjaldan verið kraftmeiri en einmitt nú og framundan vegferð við að sannfæra enn fleiri um að sjálfstæðisstefnan er rétta stefnan, sú eina rétta. Það er greinilegt á öllu að vefurinn er mjög fjölsóttur og þungamiðja skrifa og málefnavinnu okkar SUS-ara. Ég sendi vefnum og öllum þeim félögum mínum sem þar skrifa góða kveðju við þessi merku tímamót. Afmælisbarnið dafnar vel og framtíðin er mjög björt á vegferð frelsisins, svo vægt sé að orði komist.

Valgerður Sverrisdóttir ráðherraValgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, skellti sér í gær í sund og síðar sturtu í Laugardalslaug frammi fyrir kastljósi fjölmiðlanna er hún tók þátt í kynningu á framleiðsluvörum nýrrar lyfjaverksmiðju, Pharmarctica, sem hefur aðsetur í heimabyggð hennar á Grenivík. Um viðburðinn segir á mbl.is: "Að sögn fulltrúa verksmiðjunnar eru snyrtivörur þess, vörulína sem nefnist Reykjavík SPA, þær fyrstu sem framleiddar eru sérstaklega fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða hár- og sturtusápu, handaáburð og fótakrem,húðmjólk, húð- og rakakrem auk svitalyktareyðis. Vörurnar eru hannaðar til að mæta háu sýrustigi vatns á höfuðborgarsvæðinu svo húðin nái sem fyrst aftur jafnvægi eftir bað. Vörunar innihalda efni úr græðandi jurtum svo sem Aloa Vera og Jojoba. Valgerður sagði á kynningunni í dag að framleiðsla vörulínunnar væri mjög mikilvæg fyrir íslenskan iðnað. Lofaði hún vörurnar loknum sundspretti og eftir að hafa prófað sjampó og sturtusápu í útisturtu laugarinnar og sagði þær vel lyktandi." Merkilegt að ráðherra sé til í hvað sem er til að vekja á sér athygli.

Ósk ÓskarsdóttirSvona er frelsið í dag
Ósk fjallar í pistli um niðurstöður í skýrslu nefndar forsætisráðherra um efnahagsleg völd kvenna. Orðrétt segir: "Er það skynsamleg lausn (á því að konur hafi að jafnaði lægri laun en karlar) að vinna gegn því að konur velji eitt en karlar annað? Laða karlmenn að greinum þar sem konur eru í meirihluta, með því að notast t.d. við kynjakvóta, og velja þ.a.l. einstakling sem er af „heppilegra kyni“ í stað þess að meta hann út frá verðleikum sínum? Svarið er nei. Eðlilegra tilliti til einstaklinga verður ekki náð nema hugarfarsbreyting eigi sér stað meðal einstaklinga í samskiptum þeirra. Einstaklingar eiga að vera metnir út frá verðleikum sínum, ekki kyni." Ennfremur birtist pistill Páls Jóhannessonar um skattamál. Þar segir: "Töluvert hefur verið rætt um skattmat fjármálaráðuneytisins sem gefið var út í janúar síðastliðinn þar sem kveðið var á um hækkun á mati á bifreiðahlunnindum. Eðlilega var mikið rætt um þetta þar sem tíðkanlegt er að launþegar hafi ökutæki til umráða frá vinnuveitanda sínum sem telst hluti af launakjörum þeirra. Hugsanlega er þarna verið að ná inn sömu tekjum af „hátekjumönnum“ sem tapast við lækkun á „hátekjuskatti“ í þrepum sem nú stendur yfir. Menn þurfa þó aðeins að fara yfir 350 þúsund krónur í laun á mánuði til þess að greiða hátekjuskatt af því sem umfram þau mörk fer. Umrætt skattmat gengur út á að meta verðmæti þeirra hlunninda sem felast t.d. í að hafa umráð yfir ökutæki svo hægt sé að reikna tekjuskatt af þeirri fjárhæð. Í tilefni afmælis vefsins er þar í dag hægt að líta á gamlar myndir, gömul Gjallarhorn og söguvef Heimdallar.

Mótmælandi ÍslandsSjónvarpskvöld
Eftir kvöldfréttirnar horfði ég á þátt Jóns Ársæls. Gestir hans að þessu sinni voru félagarnir í hljómsveitinni Mínus. Góður þáttur, rétt eins og venjulega hjá Jóni. Eftir það var skipt yfir á RÚV og horft á heimildarmynd um Helga Hóseasson. Hafði séð myndina í bíó en horfði nú aftur á. Í dómi um myndina á sínum tíma sagði Hjörleifur Pálsson, félagi minn, á kvikmyndir.com: "Sagan af Helga byrjar á 7. áratug síðustu aldar þegar hann hóf að berjast fyrir því að skírn og ferming hans yrði afmáð úr opinberum bókum. Þetta reyndist Helga þrautin þyngri og þarna má segja að barátta hans við yfirvöld hafi byrjað og henni hefur ekki lokið ennþá, og mun væntanlega standa á meðan Helga endist þrek til. Oft hafa uppátæki Helga vakið athygli, til að mynda þegar hann gekk til altaris til þess eins að tilkynna það í votta viðurvist í guðshúsi að hann hefði rift skírnarsáttmála sínum við almættið. Einnig þegar hann kastaði skyri í alþingismenn og tjöru á stjórnarráðið. Hin síðari ár hefur hann helst stundað það að mótmæla hinum ýmsu hlutum, tengdum kristninni og yfirvöldum, með því að standa með mótmælaspjöld sín við vegakanta nálægt heimili sínu." Eftir þáttinn horfði ég á þáttinn Cold Case. Bafta verðlaunahátíðin var sýnd á RÚV frá hálfellefu. Mikill galli var að þetta var ekki í beinni útsendingu og því vissi maður hvernig þetta færi allt, sem var vægt til orða tekið lítt spennandi. Sjálf hátíðin var glæsileg venju samkvæmt.

Being John MalkovichKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á magnaða kvikmynd Spike Jonze, Being John Malkovich. Sannkölluð snilldarmynd. Söguþráðurinn er með eindæmum geggjaður og best er að vita sem minnst um það hvernig sagan þróast áður en maður sér myndina því í þessu tilfelli er sko sjón sögu ríkari. Þó má upplýsa að myndin hefst þegar brúðugerðarmaður einn, Craig, uppgötvar dularfulla hurð á skrifstofu sinni. Þegar hann opnar hana og gengur inn kemur í ljós að hún leiðir beint inn í heilann á leikaranum John Malkovich. Craig ákveður þegar að gera sér féþúfu úr þessari merkilegu uppgötvun og tekur að selja almenningi aðgang að heilabúi leikarans! Myndin, sem er nota bene alfarið hugarfóstur leikstjórans Spike Jonze, og handritshöfundarins Charlie Kaufmans, skartar í aðalhlutverkum fjölda þekktra leikara, m.a. þeim John Cusack, Catherine Keener, Cameron Diaz (sem er nánast óþekkjanleg í hlutverki Lotte Schwartz, hún er allavega ekki á nokkurrn hátt lík þeirri skutlu sem lék Mary svo eftirminnilega í There´s Something About Mary), Mary Kay Place, auk þess sem titilpersónan (og úrvalsleikarinn) John Malkovich leikur sjálfan sig og botnar hann lítið í því sem er að gerast. Ógleymanleg og nett ruglandi kvikmynd.

Dagurinn í dag
* 1920 Fyrsta dómþing Hæstaréttar Íslands háð - með því hlutu Íslendingar æðsta dómsvald
* 1959 Dauðarefsing afnumin formlega í Bretlandi
* 1963 Bítlarnir ná á topp breska popplistans með smellinn Please, Please Me
* 1981 Mikið fárviðri gekk yfir sunnan og vestanvert landið - vindur fór í 62 metra á sekúndu
* 1995 Hornsteinn lagður að nýju húsi Hæstaréttar á 75 ára afmæli réttarins

Snjallyrði dagsins
When two people love each other, they come together - WHAM - like two taxis on Broadway
Stella í Rear Window