Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 febrúar 2004

LýtaaðgerðirHeitast í umræðunni
Seinustu daga hefur mikið verið deilt um fyrirhugaða lýtaaðgerð á söngkonunni Ruth Reginalds, sem fram átti að fara í morgunþættinum Íslandi í bítíð á Stöð 2. Fylgjast átti með aðgerðum á söngkonunni og öllum breytingum sem á henni verða í þeim. Rafn Ragnarsson lýtalæknir, sem ætlaði að taka þátt í að breyta útliti söngkonunnar ákvað að viðhöfðu samráði við landlæknisembættið og formann Læknafélagsins, að hætta við aðgerðina. Aðstoðarlandlæknir hefur tilkynnt að ekki sé viðeigandi að gera slíka aðgerð í svo til beinni útsendingu sjónvarps. Áfram verður þó fylgst með útlitsbreytingum á Ruth Reginalds í morgunþættinum. Páll Magnússon framkvæmdastjóri dagskrársviðs Stöðvar 2, hefur sagt að í raun hafi ekkert annað breyst en það að þær aðgerðir eða aðgerð sem Rafn framkvæmir á Ruth Reginalds verði ekki myndaðar. Þetta verkefni haldi að öðru leyti áfram á fullu. Mín skoðun á svona lýtaaðgerðum er einföld. Það er ákvörðun viðkomandi hvað hann eða hún gerir við sinn líkama. Það er ekki mitt að ákveða. Vilji einhver breyta útliti sínu þá sá aðili um það. Hann eða hún á að hafa frelsi til að velja.

John KerryAukin harka er að færast í kosningabaráttuna í Bandaríkjunum. Í gær birtist á slúðurnetmiðlinum Drudge Report, frétt þess efnis að John Kerry forsetaframbjóðandi, hefði átt í ástarsambandi við unga konu á árunum 2001-2003. Kerry hefur vísað þessari frétt á bug. Matt Drudge, sem heldur úti Drudge Report varð fyrstur til að birta opinberlega fréttir um samband Bills Clintons þáverandi forseta, og lærlingsins Monicu Lewinsky. Þess vegna vakti fréttin í gær mikla athygli þótt stóru fjölmiðlarnir í Bandaríkjunum hefðu lítið sem ekkert fjallað um hana. Drudge segir í fréttinni að um væri að ræða lærling hjá fréttastofu AP, sem hefði nýlega farið til Afríku að undirlagi Kerrys til að reyna að forðast umtal. Til að svara þessum ásökunum hefur Kerry beint kastljósinu æ meir að eiginkonu sinni, Teresu Heinz Kerry, en hún hefur vakið mikla athygli fyrir sína framgöngu í kosningaslagnum.

HeilbrigðiskerfiðFram kom í máli Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, á Viðskiptaþingi að heilbrigðiskerfið yrði að vera fyrir alla. Á þingi Verslunarráðs í gær lagði forsætisráðherra áherslu á að heilbrigðiskerfið væri fyrir alla þótt auka mætti einkarekstur á afmörkuðum sviðum. Davíð taldi að vel mætti nýta kosti einkaframtaksins við heilbrigðisþjónustuna, fara að dæmi margra nágrannaþjóða okkar en sú þróun verði að vera hægfara og ekki byltingarkennd. Ég tel einkarekstur í heilbrigðismálum vera framtíðarmálefni og vonbrigði að forsætisráðherra gangi ekki lengra í að tjá mikilvægi þess. Það er engin spurning að Sjálfstæðisflokkurinn á að leggja á þetta aukna áherslu og ekki tala neitt hálfkák í þeim efnum.

SjálfstæðisflokkurinnVinnuvika Varðar
Vinnuvika Varðar heldur áfram af fullum krafti. Í dag birtist grein í Morgunblaðinu vegna vinnuvikunnar þar sem fjallað er um iðnaðar- og orkumál. Í greininni sem er eftir Sigurgeir Valsson og Birgi Örn Tómasson, stjórnarmenn Varðar, eru skoðanir félagsins í þessum málaflokki raktar mjög vel. Orðrétt segir í greininni: "Varðarmenn vilja að Byggðastofnun verði lögð niður og sveitarfélögunum verði treyst til að sjá um sig sjálf. Það þarf ekki stofnun til að segja fólki hvar það á að búa. Þegar vegir eru góðir, eins og verður að markmiðum samgönguáætlunar uppfylltum, og samskipti hraðvirk, á alnetinu, getur hver sem er nánast búið var sem er. Nóg hefur verið sagt um byggðamál og að vinda eigi ofan af byggðaþróun síðustu tveggja alda. Sé viljinn raunverulegur er kominn tími á að verkin tali. Móta átti fyrir nokkru byggðaáætlun um Eyjafjarðasvæðið, um slíka hluti hefur og mikið verið skrifað, Vörður vill framkvæmdir áður en síðasti Hríseyingurinn flytur til Reykjavíkur. Ísland á ekki að vera borgríki. Enda víðar búsældarlegt en á Seltjarnarnesi og í nágrenni þess." Á morgun verður í Kaupangi, ráðstefna um byggða- og atvinnumál, eins og fyrr hefur verið fjallað um á þessum vef. Þar verður kraftmikil og góð umræða um þessi brýnu mál, sem vinnuvikan er byggð utan um.

Frelsi.isSvona er frelsið í dag
Í dag er mikið af góðu efni á frelsinu. Steini fjallar í pistli sínum um landbúnaðarmál og segir orðrétt: "Landbúnaðarkerfið kemur í veg fyrir eðlilega verðmyndun á markaði. Bændum eru gefin röng framleiðsluskilaboð með styrkjum og niðurgreiðslum í stað þess að láta eftirspurnina ráða framleiðslunni. Afleiðing þessa er offramleiðsla og óhagkvæm nýting framleiðsluþátta sem leiðir af sér bága afkomu greinarinnar. Mikið er rætt um hátt matvöruverð á íslandi og líta margir sperrtir í Evrópuátt. Evrópusambandsáhangendur telja iðulega fram þann kost af inngöngu að matvara sé þar á kostakjörum. Hægt er að lækka matvöruverð hér á landi með einföldum hætti: annars vegar með því að strika út öll innflutningshöft sem eru á erlendum matvörum og hins vegar með því að leggja niður landbúnaðarkerfið. Slík umbótastefna myndi skila sér í lægra matvöruverði, öllum landsmönnum til hagsbóta." Í pistli sínum fjallar Jón Elvar um skattamál og segir orðrétt: "Yfirvöld hafa löngum verið hugmyndarík þegar kemur að skattamálum. Hér á landi gildir regla um nokkurs konar alheims skattlagningu. Í því felst að tekjur og eignir íslenskra einstaklinga jafnt sem lögaðila eru skattskyldar á Íslandi óháð því hvar í heiminum teknanna er aflað og hvar eignir eru staðsettar." Ennfremur er fjallað um athyglisverða ráðstefnu Heimdallar sem verður 19. febrúar um frjálshyggjuna.

Crouching Tiger, Hidden DragonKvikmyndir - bókalestur
Horfði í gærkvöld í enn eitt skiptið á hina mögnuðu kvikmynd Ang Lee, Crouching Tiger, Hidden Dragon . Ævintýraleg mynd um tvær bardagahetjur í Kína fyrr á öldum sem eru á höttunum eftir stolnu sverði en í kjölfarið fylgja bardagasenur sem ögra náttúrulögmálum svo ekki sé meira sagt. Í alla staði vel gerð mynd með einstaklega skemmtilegum og vel útfærðum bardagaatriðum. Myndatakan er fyrsta flokks og söguþráðurinn er í senn heillandi og spennandi. Leikstjórinn Ang Lee fer hér á þjóðlegar kínverskar slóðir og blandar saman gríni, alvöru og kung fu bardögum á hreint magnaðan hátt. Þetta er mjög sterk mynd, eins og við er að búast frá Ang Lee og bardagatriðin eru alveg óaðfinnanleg, enda er hér vanur maður á ferð við stjórnvölinn. Leikararnir standa sig allir frábærlega, bæði í dramatískum atriðum og ekki síst í háskalegum bardögum. Heillandi og meistaralega gerð úrvalsmynd sem á að vera við allra hæfi. Eftir myndina fór ég að lesa áfram annað bindið um Einar Ben, er að lesa allar bækurnar aftur. Magnaðar bækur um hreint ótrúlegt lífshlaup manns.

Dagurinn í dag
* 1693 Heklugos hófst - stóð langt fram eftir því ári
* 1861 Abraham Lincoln verður forseti Bandaríkjanna
* 1942 Tveir prammar sukku á Hrútafirði - átján breskir hermenn drukknuðu
* 1972 Söngleikurinn Grease frumsýndur á Broadway - einn vinsælasti söngleikur aldarinnar
* 1983 Loftsteinn féll í sjóinn austur af landinu - birti í kvöldhúminu um austanvert landið

Snjallyrði dagsins
I do wish we could chat longer Clarice, but I'm having an old friend for dinner. Bye!
Dr. Hannibal Lecter í The Silence of the Lambs