Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 apríl 2004

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan hálftólf í dag til að ræða skýrslu fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra. Í gær hittust leiðtogar stjórnarflokkanna og unnu að því að ná samkomulagi um endanlegt orðalag frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum. Var sýnt í fréttum í gær myndir af því er utanríkisráðherra kom í Stjórnarráðið til fundahalda. Fundur ríkisstjórnar í dag, lauk um hálfeittleytið. Lá þá fyrir að niðurstaða hefði náðst í málinu og að frumvarpið væri til og yrði lagt fram á þingi eftir helgina. Gerir það ráð fyrir því að sami aðili megi ekki eiga bæði dagblað og ljósvakamiðil, ennfremur að markaðsráðandi fyrirtæki á öðru sviði megi ekki eiga fjölmiðil. Fjölmiðlaskýrslan er birt í dag á heimasíðu Helga Hjörvars alþingismanns. Er athyglisvert að sá þingmaður sjái ástæðu til að birta skýrsluna á sínum vef orðrétt og vísa á Word skjal með frumvarpinu. Kemur ekki á óvart að þetta gerist, sé mið tekið af störfum þingmannsins fyrsta ár hans á þingi, en hann hefur vakið sérstaka athygli fyrir dómgreindarleysi sitt. Var reyndar oft sagt að hann hefði lekið stefnuræðu forsætisráðherra í fyrra.

Kosningar á KýpurKýpur-Grikkir höfnuðu sameiningaráætlun Sameinuðu þjóðanna í gær með miklum mun en áætlunin gerði ráð fyrir sameiginlegu ríki Tyrkja og Grikkja á Kýpur, sögulegri sameiningu þjóðarbrotanna. Rúmlega 70% Kýpur-Grikkja voru andvíg áætluninni, en um 60% Kýpur-Tyrkja samþykktu hana. Það er því ljóst að einungis gríski hluti Kýpur muni ganga í Evrópusambandið 1. maí nk. en þann dag ganga alls 10 ný ríki í sambandið, þ.á.m. Kýpur. Eru þessi úrslit mikið áfall fyrir Sameinuðu þjóðirnar og Kofi Annan framkvæmdastjóra þeirra, enda beittu þau sér mjög í þessu máli. Þjóðarleiðtogar hafa gagnrýnt Grikki á Kýpur fyrir að hafa eyðilagt möguleikann á sögulegum sáttum þjóðarbrotanna. Þessi 30 ára deila hefur brennimerkt allt samfélagið á Kýpur og leitt að það breytist ekki og þessi sundrungarbragur verði áfram á landinu.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég einungis um eitt mál: skýrslu fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra, og vík nokkuð ítarlega að niðurstöðum hennar. Jafnframt fer ég yfir væntanlegt frumvarp forsætisráðherra til laga um eignarhald á fjölmiðlum sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi í vikunni og verður væntanlega lagt fram á þingi á næstu dögum og tjái mínar skoðanir á slíkri lagasetningu og þeim breytingum sem blasa við á íslenskum fjölmiðlamarkaði, verði frumvarpið að lögum. Fáum blandast hugur um að verði frumvarpið að lögum, leiði það til þess að rekstur Norðurljósa muni breytast umtalsvert og jafnframt leiða til þess að fyrirtækinu verði skipt upp. Í niðurstöðum sínum segir nefndin að Norðurljós beri ægishjálm yfir aðra aðila hvað rekstrarlegt umfang og veltu viðkomi. Vísað er t.d. til þess að velta Norðurljósa hafi verið hátt í tvöföld á við veltu Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, og Ríkisútvarpsins. Fram kemur að Norðurljós séu á öllum þeim mörkuðum sem tilgreindir séu í efni skýrslunnar, ýmist sem annar stærsti á markaði eða með markaðsráðandi stöðu. Er þar vísað til níu sviða fjölmiðlunar: dagblöð, tímarit, útvarp, sjónvarp, dreifing og sýningarhald á kvikmyndum, útgáfa og dreifing myndbanda og diska, útgáfa og dreifing tónlistar, dreifing tölvuleikja og netmiðlun. Fram kemur í skýrslunni að önnur fjölmiðlafyrirtæki starfi hinsvegar á þremur eða færri sviðum fjölmiðlunar. Bendi öllum á að lesa pistilinn.

Gísli Marteinn BaldurssonSjónvarpskvöld - gott spjall
Horfðum eftir fréttirnar á Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Góður þáttur, sérstaklega var áhugavert viðtal hans við Örn Clausen lögmann. Ræddu þeir um íþróttaferil hans um miðja seinustu öld og störf hans sem lögmanns. Ennfremur ræddi Gísli við Þórunni Sigurðardóttur og Þorvald Þorsteinsson. Eftir þáttinn fórum við upp í Víðilund í heimsókn til Kidda frænda, en hann er að fara á morgun til Frakklands með Kristjáni yngri. Vonandi er að hann hafi gott af ferðinni og njóti vorsins þar. Komum við hjá vinafólki og áttum þar gott spjall um málin og það sem um er að vera almennt. Er heim kom fórum við að horfa á vandaða mynd um feril Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York. James Woods leikur þar Giuliani óaðfinnanlega, athyglisverð mynd. Lagði lokahönd á sunnudagspistilinn eftir myndina.

Dagurinn í dag
1915 Hótel Reykjavík og ellefu önnur hús við Austurstræti, brunnu í miklum eldsvoða
1944 Fyrsta íslenska óperan, Í álögum, eftir Sigurð Þórðarson, var frumflutt í Iðnó
1991 Bifreið ekið í fyrsta skipti á Hvannadalshnjúk, hæsta tind landsins
1999 Haldið upp á Dag umhverfisins í fyrsta skipti - leiddi til meiri umræðna um málin
2002 Tveir bræður sýknaðir af morðinu á Damilola Taylor - málið fer aftur á byrjunarreit

Snjallyrði dagsins
Við höfum engar lausnir, enga sýn, en sendum borgarbúum reikninginn fyrir getuleysinu.
Helgi Hjörvar alþingismaður (um R-listann - 1997)