Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 apríl 2004

Tony BlairHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, ávarpaði breska þingið á hádegi í gær. Þar tilkynnti forsætisráðherrann um ákvörðun ríkisstjórnar sinnar þess efnis að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram í landinu um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins. Einungis eru nokkrar vikur síðan Blair ljáði ekki máls á því að setja stjórnarskrána í þjóðaratkvæði og leitaði leiða til að sætta ólíkar skoðanir innan Verkamannaflokksins. Þrýstingurinn hefur jafnt og þétt aukist á forsætisráðherrann. Hefur hann seinustu mánuði notað þau rök sem forsendur afstöðu sinnar að fara ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu að tilkoma hennar muni ekki hafa í för með sér neinar umtalsverðar breytingar á Evrópusambandinu. Til gærdagsins var hann eini þjóðarleiðtogi aðildarríkja sambandsins sem hafði þá skoðun að tilkoma stjórnarskrárinnar myndi ekki gerbreyta eðli þess. Seinustu vikur hefur hver þungaviktarráðherrann innan flokksins gengið í lið með þeim sem kröfðust þess að stjórnarskráin skyldi lögð í þjóðaratkvæði, þ.á.m. voru Jack Straw utanríkisráðherra, Gordon Brown fjármálaráðherra, David Blunkett innanríkisráðherra, og John Prescott aðstoðarforsætisráðherra. Eftir að ljóst var að afstaða Blairs hafði ekki meirihlutafylgi á þinginu, skipti hann um skoðun og tilkynnti fyrrnefnda ákvörðun á þingi í dag. Greinilegt er að hér er fyrsta merki þess að forsætisráðherrann sé ekki ráðandi um afgreiðslu mála í sjö ára valdatíð sinni.

Michael HowardÍ kjölfar fyrrnefndrar yfirlýsingar forsætisráðherrans voru umræður um þjóðaratkvæðagreiðslu og kom til hvassra orðaskipta milli forsætisráðherrans og Michael Howard leiðtoga breska Íhaldsflokksins. Gekk Howard óhikað eftir því að fá forsætisráðherrann til að tjá sig um af hverju hann hefði svo gjörsamlega kúvent í afstöðu sinni til málsins á örfáum vikum, enda hefði hann síðast sagt í útvarpsviðtali á BBC, 5. apríl sl. að ekki kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Blair og Howard sem hafa átt harkaleg orðaskipti í þinginu í vetur, eftir leiðtogaskiptin í Íhaldsflokknum í október 2003, skutu föstum skotum að hvor öðrum og lét Howard þau orð falla að forsætisráðherrann væri kominn á fulla ferð í bakkgírinn fram af hengifluginu. Blair vildi ekki tjá sig ítarlega um það hvenær kosið verði um stjórnarskrána. Almennt er talið að hún fari þó fram eftir næstu þingkosningar, líklegast er að þær verði í maí 2005, en kjörtímabilinu lýkur þó ekki fyrr en í fyrstu viku maímánuðar 2006. Hafa stjórnarandstæðingar á Englandi gagnrýnt að beðið verði svo lengi með að heyra álit Breta á stjórnarskránni, og segja ástæður þess þær að Blair þori ekki að leggja málið í dóm þjóðarinnar fyrr, af ótta við að bíða niðurlægjandi ósigur. Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur aðeins einu sinni verið haldin í Bretlandi áður. Það var 1975 þegar kjósendur voru spurðir hvort Bretar ættu að vera áfram í Efnahagsbandalagi Evrópu, eins og ESB hét þá. Mikill meirihluti Breta var þá þeirrar skoðunar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, kynnti loks á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun, skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum sem nefnd á vegum ráðuneytisins samdi, fyrir öðrum ráðherrum stjórnarinnar. Skýrslan verður áfram til meðferðar í ríkisstjórninni og væntanlega rædd enn frekar á næsta fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag. Í viðtölum í gær sagði Þorgerður Katrín enn vera nægan tíma til lagabreytinga á þessu sviði á yfirstandandi þingi. Skýrslan var afhent ráðherra í byrjun mánaðarins og hefur því verið á borði hennar í tæpar þrjár vikur. Hennar hefur verið beðið með allnokkurri eftirvæntingu, enda mun efni hennar skipta sköpum í umræðu um næstu skref varðandi eignarhald fjölmiðla. Nokkuð hefur lekið í fjölmiðla um efni skýrslunnar og hefur verið skýrt frá því t.d. að nefndin leggi ekki til að sett verði sérstök lög um eignarhald á fjölmiðlum en breyta megi lögum sem þegar eru í gildi, t.d. samkeppnislögum. Þá komi jafnframt til greina að stýra þróun mála í gegnum svokölluðu útvarps- eða sjónvarpsleyfi. Ráðherra sagði í dag að enn yrði bið á því að efni hennar yrði gert opinbert. Aðrir ráðherrar vilji fá lengri tíma til að kynna sér hana og fara yfir helstu niðurstöður. Ljóst er að mikil umræða verður um skýrsluna og niðurstöður hennar, þegar hún verður loks gerð opinber, enda um að ræða mikilvægt mál.

Sigrún Björk JakobsdóttirSvona er Íslendingur í dag
Í góðum pistli á Íslendingi, vef sjálfstæðisfélaganna á Akureyri fjallar Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður menningarnefndar bæjarins, um málefni væntanlegs leikskóla við Helgamagrastræti og umræður um hann í skólanefnd. Orðrétt segir: "Fulltrúar Samfylkingar hafa farið mikinn að undanförnu varðandi tillögu meirihluta skólanefndar á dögunum um að útboð skyldi viðhaft á rekstri væntanlegs leikskóla við Helgamagrastræti. Við hvað er Samfylkingarfólk hrætt? Er þetta eðlislæg íhaldssemi af þeirra hálfu, sem hefur sýnt sig í því að vera á móti öllum tillögum til nýjunga í rekstri sveitarfélagsins? Akureyri hefur einsett sér að vera í forystusveit sveitarfélaga. Þar undir fellur líka frumkvæði í nýjungum á sviði rekstrar sveitarfélagsins. Í tillögum atvinnumálanefndar frá 2003 er einmitt lagt til að gaumgæfilega verði athugað með möguleika á útvistun einstakra þjónustuþátta sem bærinn veitir. Hugmyndin með það að bjóða rekstur eins leikskóla út felur einmitt þetta í sér. Víða um heim má sjá þess merki að rekstrarumhverfi menntastofnanna er að breytast að það fari ekki endilega saman að einn og sami aðilinn kosti þjónustuna, veiti hana og hafi eftirlit með henni. Markmið með þessu útboði er að fá nýja sýn og nýjar áherslur í skólaumhverfið í bænum." Hvet alla til að lesa pistil Sigrúnar.

Grumpy Old MenSjónvarpsspjall - kvikmyndir
Eftir kvöldfréttirnar horfði ég á dægurmálaspjallþættina. Í Íslandi í dag ræddu Pétur Blöndal og Össur Skarphéðinsson, um nefndarskýrslu um eignarhald á fjölmiðlum og virðisaukaskatt á matvælum. Í Kastljósinu voru Georg Kr. Lárusson forstjóri Útlendingastofnunar og Andri Óttarsson lögfræðingur, gestir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Umræðuefnið var umdeilt frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum. Var víða farið yfir málið í spjallinu í þættinum og óhætt að fullyrða að Georg hafi komið mjög vel út úr þessu spjalli og farið nokkuð vel yfir sitt mál. Eftir þáttinn horfðum við á gamanmyndirnar Grumpy Old Men og Grumpier Old Men. Í þeim fara Jack Lemmon og Walter Matthau á kostum í hlutverkum tveggja æskuvina sem elska að hata hvorn annan. Passar vel að horfa á þessar tvær myndir sama kvöldið, á vel við. Ekki þarf að fara mörgum orðum um leiksnilli Lemmons og Matthau, þeir voru einstakir gleðigjafar í gamanmyndum á seinnihluta tuttugustu aldarinnar og gleymast ekki kvikmyndaaðdáendum. Á ég allar myndirnar sem þeir léku saman í og hefur alltaf fundist The Fortune Cookie og The Odd Couple bestar þeirra, sem þeir gerðu saman. Hér eiga þeir stjörnuleik ásamt Sophiu Loren og Ann Margret. Magnaðar myndir.

Dagurinn í dag
1800 Sex bátar farast í miklu norðanveðri út af Breiðafirði - 37 manns létust
1926 Elísabet II Englandsdrottning fæðist - hefur setið á valdastóli frá febrúar 1952
1965 Staðfest á þingi lög um útgáfu nafnskírteina til allra einstaklinga eldri en 12 ára
1971 Fyrstu handritin komu til landsins með Vædderen - seinustu handritin komu 1997
1994 Guildford fjórmenningarnir hreinsaðir af grun um aðild að sprengjuárás á N-Írlandi

Snjallyrði dagsins
Frelsi er móðir reglunnar, ekki dóttir hennar
Proudhon