Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 apríl 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Seinustu vikuna hefur mikið verið rætt í fjölmiðlum um úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli Hjördísar Bjarkar Hákonardóttur gegn ríkinu vegna ráðningar hæstaréttardómara. Inn í þá umræðu hafa blandast ummæli Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, að jafnréttislögin séu barn síns tíma. Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi tók Davíð Oddsson forsætisráðherra, undir ummæli Björns. Hann sagði í viðtali við fréttamann að greinilegt væri að kærunefnd jafnréttismála taki ekki mið af dómum Hæstaréttar sem hafi snúið niðurstöðu hennar. Þarna er forsætisráðherra að vísa til tveggja umdeildra mála sem fóru fyrir kærunefndina undanfarin ár. Annarsvegar í máli þar sem utanríkisráðherra, sem settur dómsmálaráðherra, skipaði sýslumann á Keflavíkurflugvelli árið 2001. Hinsvegar í máli Valgerðar Bjarnadóttur sem þáverandi formanns leikhúsráðs Leikfélags Akureyrar, við ráðningu leikhússtjóra á Akureyri. Hann sagði greinilegt að störf kærunefndarinnar tæku sífellt á sig undarlegri blæ. Athygli hefur vakið að kærunefndin segir í úrskurðinum að vegna þess að einungis tvær konur eigi sæti í Hæstarétti væri eðlilegt að Hjördís skyldi skipuð til setu í réttinum. Það er algjör tímaskekkja að skipað sé í stöður einvörðungu eftir kynjastaðli, en aðrir þættir komi ekki að við ákvörðun um skipun í stöður. Tek ég undir með forsætis- og dómsmálaráðherra að vinnubrögð kærunefndarinnar séu allundarleg.

Kári Stefánsson forstjóriTilkynnt var á laugardag að Íslensk erfðagreining hefði ákveðið að draga til baka ósk sína um ríkisábyrgð. Sú ákvörðun var tekin eftir velheppnað skuldabréfaútboð í Bandaríkjunum. Fyrirtækið aflaði 150 milljóna dollara eða sem samsvarar tæpum 11 milljörðum króna á sölu breytanlegra skuldabréfa sem hægt er að breyta í hlutafé í fyrirtækinu. Skuldabréfin voru seld án þeirrar ríkisábyrgðar sem fyrirtækið hafði óskað eftir. Fram hefur komið í viðtölum við Kára Stefánsson forstjóra ÍE, að ætlunin hafi verið að afla 100 milljóna dollara en vegna mikillar eftirspurnar fjárfesta hafi fyrirtækið ákveðið að selja fyrir hærri upphæð en lagt upp með. Féð mun verða notað til að vinna að lyfjaþróun, byggða á þeim erfðavísum sem fyrirtækið hefur einangrað. Tæp tvö ár eru liðin frá því að ákvörðun var tekin um að veita ÍE ríkisábyrgðina á þingi og voru allt frá upphafi miklar deilur um málið og tekist á vegna þess í stjórnmálaheiminum. Mikið ánægjuefni er að ekki komi til þess að ríkisábyrgðin sé veitt og gott að fyrirtækinu gangi vel erlendis.

Atli Rafn BjörnssonSvona er frelsið í dag
Í góðum pistli sínum í dag á frelsinu, fjallar Atli Rafn um Evrópumálin í kjölfar þeirrar undarlegu ákvörðunar ungra framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi suður að skora á ríkisstjórnina að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Orðrétt segir: "EES-samningurinn er eitt mesta framfara skref sem tekið hefur verið í íslenskum stjórnmálum síðari ára. Samningurinn tryggir íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum aðgang að mörkuðum í Evrópu, en hann er þó ekki gallalaus. Hins vegar með aðild að ESB yrðu teknir upp á Íslandi allir verstu ókostir sambandsins. Fátt bendi til annars en að aðildin myndi leiða til aukinnar miðstýringar, hærri skatta og minni áhrifa einstaklinga á líf sitt hér á landi. Áskorun ungra framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi suður til ríkisstjórnarinnar að hún taki upp aðildarviðræður við ESB hið fyrsta er undarleg. Ungir framsóknarmenn geta að vild barist fyrir aðild Íslands að ESB, þótt sú skoðun sé hæpin. Hins vegar er barátta fyrir aðildarviðræðum kjánaleg. Ríkisstjórnin getur ekki „tekið upp“ aðildarviðræður bara til að athuga hversu margar undantekningar megi fá frá reglum ESB, eins og ungir framsóknarmenn virðist telja. Skýr og einbeittur vilji ríkisstjórnar til aðildar verður að fylgja máli, en hann er ekki fyrir hendi einmitt vegna annmarka á stefnu ESB í veigamiklum málum."

Dagurinn í dag
1540 Prentun Nýja testamentisins lauk - elsta íslenska bókin sem varðveist hefur
1919 Snjóflóð féll við Siglufjörð og sópaði með sér fjölda bygginga - 9 manns létust
1928 Alþingi samþykkti að Þingvellir við Öxará skyldu verða friðlýstur helgistaður Íslendinga
1945 Franklin Delano Roosevelt, 32. forseti Bandaríkjanna, deyr í Warm Springs í Georgíu-fylki
1961 Júrí Gagarín fer fyrstur manna út í geiminn - Gagarín lést í flugslysi árið 1968

Snjallyrði dagsins
Government, even in its best state, is but a necessary evil, and in its worst state, an intolerable one.
Thomas Paine