Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 apríl 2004

Tony BlairHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, mun væntanlega tilkynna á morgun að loknum ríkisstjórnarfundi, að breska þjóðin muni kjósa um væntanlega stjórnarskrá Evrópusambandsins. Er talið að Blair ávarpi þjóðina í hádeginu á morgun. Er um algjöra kúvendingu að ræða í málinu að hálfu forsætisráðherrans og Verkamannaflokksins, um er að ræða mestu stefnubreytingu flokksins í Evrópumálum, frá því hann komst til valda fyrir sjö árum. Forsætisráðherrann hefur margoft sagt að atkvæðagreiðsla um stjórnarskrána væri óþörf. Á flokksþingi Verkamannaflokksins í október sl. sagði hann: "There will not be a referendum". Í ítarlegu viðtali í þættinum Today Programme á BBC í byrjun mánaðarins sagði hann t.d. "Our policy has not changed and if there is any question of it changing I can assure you we will tell you". Talið er að Blair hafi í hyggju að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna eftir næstu þingkosningar, sem eiga að verða í síðasta lagi í maí 2006. Er almennt rætt um að þingkosningar verði þó fyrr, jafnvel eftir rúmt ár, vorið 2005. Um er að ræða hættuspil fyrir forsætisráðherrann. Hafni Bretar stjórnarskrá ESB, muni Blair neyðast til að fara frá. Hefur Michael Howard leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hvatt forsætisráðherrann til að láta hræðsluna við afhroð í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir þingkosningar, ekki hafa áhrif á sig og leggja málið strax í dóm þjóðarinnar. Er óskiljanlegt að ekki sé hægt að kjósa strax t.d. í haust um málið.

Ivan GasparovicForsetakosningar fóru fram um helgina í Slóvakíu. Flestum að óvörum bar Ivan Gasparovic sigur úr býtum í kosningunum. Í fyrri umferð kosninganna hlaut Vladimir Meciar fyrrum forsætisráðherra Slóvakíu, rúman þriðjung atkvæða og var að flestum talinn líklegri um sigur. Var um táknrænan sigur að ræða fyrir Gasparovic. Í valdatíð Meciars, sem stóð í tæpan áratug, var Gasparovic náinn samverkamaður hans og var forseti þjóðþingsins um skeið. En þeim sinnaðist fyrir nokkrum árum og Gasparovic yfirgaf flokk Meciar. Flokkur Meciar missti völdin árið 1999 er hann tapaði í kosningum. Við völdum tók umbótasinnuð samsteypustjórn. Meciar sem bauð sig fram í forsetakosningunum 1999 í Slóvakíu tapaði þá fyrir sitjandi forseta, Rudolf Schuster, sem setið hefur frá 1994 á forsetastóli. Sigur Gasparovic var öruggari en nokkrum hefði órað fyrir, hann hlaut 59,9% atkvæða en Meciar tæplega 40,1%. Í fyrri umferðinni féll úr leik Eduard Kukan sem var frambjóðandi burðarflokks ríkisstjórnar landsins, hins kristilega demókrataflokks Mikula Dzurinda forsætisráðherra. Tímamót eru framundan fyrir Slóvakíu, eftir hálfan mánuð gengur landið formlega í Evrópusambandið, en í síðasta mánuði í NATÓ. Gasparovic tekur formlega við af Rudolf Schuster, þann 15. júní nk.

Jose Luis Rodriguez ZapateroEins og ég sagði frá í gær tilkynnti Jose Luis Rodriguez Zapatero forsætisráðherra Spánar, strax eftir embættistöku sína á laugardag að hann myndi þegar í stað óska eftir að spænskir hermenn héldu burt frá Írak. Munu þeir vera farnir frá landinu fyrir lok júnímánaðar í síðasta lagi. Hefur þessi ákvörðun vakið mikla athygli um allan heim, enda um að ræða algjört hugsunarleysi af hálfu spænskra stjórnvalda. Hefur Mariano Rajoy leiðtogi Þjóðarflokksins, gagnrýnt þessa ákvörðun harðlega og sagt hana veikja stöðu Spánar í samstarfi við önnur lönd. Tek ég undir það mat, er greinilega um frekar vanhugsaða ákvörðun að ræða, einkum í ljósi hryðjuverkanna á Spáni fyrir rúmum mánuði. Það er slæmt að sjá hvernig hryðjuverkamenn hafa áhrif á stjórnmál í vestrænum heimi eins og þarna virðist verða raunin. Um er að ræða vafasöm skilaboð spænskra stjórnvalda til hryðjuverkaaflanna. Hvernig eiga þau að taka þessu öðruvísi en sem sínum sigri? Það kemur þarna í ljós að vinnubrögð þeirra virka til að hafa áhrif á bæði kosningar og ákvarðanir stjórnmálamanna. Þau geta greinilega með því að skelfa almenning fengið fram þau viðbrögð sem henta þeim best.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu góður pistill Páls Jóhannessonar um olíugjald. Orðrétt segir í pistlinum: "Þungaskattur er orðinn úreltur og kerfið meingallað en þrátt fyrir að það hafi legið ljóst fyrir í þónokkurn tíma hefur ekki tekist að ná þessari breytingu úr þungaskattskerfi í olíugjald í gegnum þingið þar sem fáir ­hópar í þjóðfélaginu hafa talið vegið að sér vegna þess að þeir kunna að koma verr út úr hinu nýja skattkerfi í krónum talið. Það hefur hins vegar verið á kostnað hins almenna borgara og samfélagsins í heild. Það er alveg ljóst að þeir þingmenn sem kunna að vera á móti þessari kerfisbreytingu eru að gæta sérhagsmuna þar sem enginn getur haldið því fram að breytingin sé ekki af hinu góða. Þeir sem eru að „græða“ á þungaskattskerfinu eru í flestum tilfellum að gera það á kostnað hins almenna skattgreiðanda. Þeir eru í raun að „græða“ á ósanngjörnu kerfi sem samkeppnisyfirvöld eru m.a. búin að úrskurða að sé andstætt sam­keppnis­lögum."

ChicagoSjónvarpsgláp - kvikmyndir - spjall
Horfði á gott sjónvarpsviðtal Kristjáns Kristjánssonar í Kastljósi við Berglindi Ásgeirsdóttur aðstoðarforstjóra OECD. Berglind kemur alltaf vel fyrir, er þekkt fyrir að vera góð ímynd kvenna. Var fyrsta konan sem skipuð var ráðuneytisstjóri á Íslandi og hefur setið sem framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs. Virkilega gott spjall og víða farið yfir. Eftir þáttinn horfðum við á óskarsverðlaunamyndina Chicago. Mögnuð kvikmynd sem hittir beint í mark. Fjallar um Roxie Hart, óttalega fáfróða Chicago-mær sem á þann draum heitastan að verða dans- og söngstjarna. Í kjölfar þess að hún skýtur til bana ástmann sinn sem hafði svikið loforð um að tryggja henni frægð og frama, endar hún í fangelsi. Þar er fyrir átrúnaðargoð hennar, Velma Kelly en hún var dæmd fyrir að drepa manninn sinn og systur sína er hún kom að þeim í rúminu. Til þess að sleppa við dauðadóminn leitar Roxie á náðir Billy Flynn sem er einn besti lögmaðurinn í Chicago, til að reyna að sleppa úr fangelsi. Eiginmaður Roxie, Amos Hart, reynir að safna nægu fé til að ráða Flynn og á meðan plotta þær stöllur um það hvernig þær geta eiginlega sloppið út úr fangelsinu. Leikararnir eiga allir stjörnuleik. Catherine Zeta-Jones hlaut óskarinn fyrir flotta túlkun sína á Velmu og Renée Zellweger, John C. Reilly og Queen Latifah eru glæsileg í litríkum hlutverkum. Sannkölluð eðalmynd sem ætti að koma öllum í gott skap. Eftir myndina fór ég á MSN og rabbaði við nokkra vini og vann í tölvunni að ýmsum málum.

Dagurinn í dag
1246 Haugsnessfundur - mannskæðasta orrusta hérlendis - 100 manns féllu
1917 Leikfélag Akureyrar stofnað - starfaði í upphafi sem áhugamannaleikfélag
1956 Rainier fursti af Mónakó og leikkonan Grace Kelly, ganga í hjónaband
1993 Sértrúarsöfnuður David Koresh í Waco í Texas, fyrirfer sér eftir mánaðarlangt umsátur FBI
1995 Bílsprengja grandar stjórnsýslubyggingunni í Oklahoma - tæplega 200 manns lætur lífið

Snjallyrði dagsins
Ég tel að hagsmunum kjósenda minna sé best borgið með því að tryggja frelsi þeirra.
Barry Goldwater