Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 apríl 2004

FjölmiðlarHeitast í umræðunni
Samkvæmt nýrri könnun Gallups njóta fréttastofur Ríkisútvarpsins mests trausts meðal landsmanna. Greinilegt er á útkomu þessarar könnunar að æsifréttamiðlarnir njóta mun minna trausts. Fréttastofur RÚV njóta trausts rúmlega 90% landsmanna og mælast með einkunnina 4,4 af 5 mögulegum. Morgunblaðið nýtur trausts 83% landsmanna og hefur 4,1 í einkunn. Næst kemur fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar með 72% og 3,7. Neðst koma dagblöð Norðurljósa: Fréttablaðið með 59% og 3,5 í einkunn og loks DV með 17% og 2,2. Kemur það ekki á óvart að DV sé langneðst og gersamlega rúið trausti eftir það sem á undan hefur gengið í fréttamennsku þess snepils. Fjallaði ég um starfshætti DV í sunnudagspistli mínum 28. mars sl. og sagði þá orðrétt um blaðið: "Það er að verða daglegt brauð að á forsíðu DV séu myndir af fólki sem er undir grun fyrir hin ýmsu mál. Er þetta nær einvörðungu byggt á málum sem ekki hefur verið dæmt fyrir og því aðeins um að ræða málefni á rannsóknarstigi og því aðeins æsifréttamennska. Hefur blaðið oft lent á hálu svelli vegna slíkra mála og trúverðugleiki þess ekki talinn mikill, enda tel ég að svona blöð geti ekki gengið með góðu móti í landi á borð við okkar, þar sem allir þekkja alla og nálægðin er meiri en ella. Svona lágkúrufréttamennska eins og DV hefur reynt að gera fína og flotta á ekkert erindi hérlendis."

SUSStjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna samþykkti á fundi sínum á miðvikudagskvöld, ályktun, þar sem hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins er mótmælt og hörmuð vinnubrögð menntamálaráðherra í málum RÚV seinustu vikur og ákvarðanir ráðherra okkar flokks í þessu máli. Mikilvægt er að SUS minni vel á skoðanir ungra sjálfstæðismanna í þessum málum. Því er ekki hægt að neita að framganga menntamálaráðherra í málefnum RÚV hefur ollið okkur miklum vonbrigðum. Þetta var afskaplega léleg og dómgreindarlaus ákvörðun hjá ráðherra og ríkisstjórninni. Ef fyrirtæki er rekið með botnlausu tapi þá er ekki til sú einfalda lausn að hækka bara endalaust verð á þjónustunni. Öðru máli virðist gilda með RÚV sem getur sukkað fram og til baka og komist upp með það með því að vera bjargað af ráðherra með hækkun afnotagjalda. Þetta er afskaplega ódýr ákvörðun og slöpp, enda margt annað í stöðunni en hækka verð þjónustunnar og það tvisvar á örfáum mánuðum. Ríkisútvarpið í þeirri mynd sem það er í, í dag er tímaskekkja. Mjög mikilvægt er að breyta rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar og stokka þar allverulega upp.

L.A. ConfidentialKvikmyndir
Höfum haft það rólegt og gott yfir hátíðirnar. Horfðum í gærkvöldi enn einu sinni á hið magnaða meistaraverk Curtis Hanson, L.A. Confidential. Er byggð á samnefndri skáldsögu metsöluhöfundarins James Ellroy og gerist í Los Angeles á fyrri hluta sjötta áratugarins. Út á við er þetta draumaborgin þar sem glæsileiki, frægð og auður er einkennandi fyrir alla þá sem í henni búa og enginn er maður með mönnum nema hann eigi eitthvað undir sér. En á bak við allt glysið leynist annar heimur með öllu alvarlegra andlit. Þetta er heimur þar sem spilling, svik og prettir eru daglegt brauð, heimur fólks sem er tilbúið að gera hvað sem er til að koma sér áfram og viðhalda ímynd sinni og stöðu í þessu yfirborðskennda efnishyggjusamfélagi, þar sem jafnvel lögreglan er flækt í spillingarvefinn meira en góðu hófi gegnir. En hlutirnir eru um það bil að fara að breytast. Hrottalegt fjöldamorð er framið inni á litlum veitingastað og í ljós kemur að einn hinna myrtu var lögreglumaður. Hvað hann var að gera þarna er félaga hans í lögreglunni, Bud White, hulin ráðgáta, enda bendir allt til þess að hann hafi verið flæktur í eitthvert glæpsamlegt atferli. Bud ákveður því að hefja rannsókn á málinu upp á eigin spýtur og kemst fljótlega að því að þar með er hann búinn að stinga sér út í lífshættulegt hyldýpi svika og morða þar sem enginn er óhultur. Um leið neyðist hann til að glíma við aðra félaga sína í lögreglunni sem gætu allt eins verið illa í málið flæktir. Það er því annaðhvort að hrökkva, eða stökkva í djúpu laugina... Hér smellur allt saman til að skapa hið ógleymanlega meistaraverk. Russell Crowe, Kevin Spacey, James Cromwell, Danny DeVito, Guy Pearce og Kim Basinger (sem hlaut óskarinn fyrir leik sinn) fara öll á kostum. Eðalmynd.

Dagurinn í dag
1886 Magnús Stephensen skipaður landshöfðingi - hann sat þar til heimastjórn tók við árið 1904
1940 Alþingi fól ríkisstjórn Íslands konungsvald eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörk
1971 Ben Johnson og Cloris Leachman hlutu óskarinn fyrir leik sinn í The Last Picture Show
1979 Ólafslög samþykkt á þingi - þau voru kennd við Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra
1998 Friðarsamningar kenndir við föstudaginn langa undirritaðir á N-Írlandi

Snjallyrði dagsins
Þeir vita það best, hvað vetur er, sem vorinu heitast unna.
Davíð Stefánsson skáld